12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þetta er í annað skiptið nú á tæplega mánaðar tímabili sem umr. eru teknar upp utan dagskrár á Alþ. um landhelgismálið — og vegna hvers skyldi það vera? Jú, það er vegna þess og þess eins að hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengist til þess enn í dag á neinu stigi máls að gera grein fyrir því hvað hefur gerst í því samningamakki sem átt hefur sér stað af hennar hálfu, annars vegar við breta og hins vegar við vestur-þjóðverja. Og hvað skyldi það geta gengið lengi að ríkisstj. leyni þing og þjóð því hvað er að gerast í þessu lífshagsmunamáli íslensku þjóðarinnar?

Mér hraus nánast hugur við því að heyra tal hæstv. forsrh. áðan og þá að ég hygg allrar ríkisstj., — hraus hugur við því að heyra í hversu miklum samningahug hæstv. ríkisstj. virðist vera í landhelgismálinu, þrátt fyrir allt það sem nú hefur gerst í þessu máli.

Við umr. utan dagskrár fyrr var gengið á hæstv. ráðh. hvern á fætur öðrum um að gefa við því skýr svör hver væri stefna hæstv. ríkisstj. varðandi hugsanlegar veiðiheimildir útlendingum til handa. Við þessu fengust engin svör þá og enn fást engin svör. Nú höfðar hæstv. forsrh. til sannfæringar stjórnarliða hér á Alþ. við þeim hugsanlegu samningum sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér greinilega að gera. Nú er höfðað til tilfinninga manna á sama hátt og áður hefur verið gert í þessu máli.

Ég kvaddi mér hljóðs í raun og veru fyrst og fremst til þess að spyrja hæstv. dómsmrh. frekar um það með hvaða hætti ætti að framfylgja löggæslu innan hinnar nýju fiskveiðilögsögu eftir annað kvöld. Hv. 2, þm. Austurl. vék að þessu áðan og ítrekaði spurningu sína til hæstv. dómsmrh, um nánari skilgreiningu á því með hvaða hætti löggæsla yrði framkvæmd. Og hæstv. dómsmrh. var að enda við að segja hér aftur að sömu reglum yrði fylgt og áður. En hverjar eru þær reglur? Ég vil leyfa mér að taka upp spurningu hv. 2. þm. Austurl. til hæstv. dómsmrh. um það hvort skipherrar á landhelgisgæsluskipunum fái til þess heimild að framfylgja gæslunni á þann hátt og þann eina hátt sem þeir telja réttast. Það eru engin svör hjá hæstv. dómsmrh. að segja hér á Alþ. að löggæslu verði framfylgt á sama hátt og áður. Það er opinbert leyndarmál að í mörgum tilvikum hefur einmitt verið slakað á löggæslu undir tilvikum sem þessum sem nú standa yfir, samningaumleitanir eru í gangi við þær þjóðir, og ég er ekki í neinum vafa um að það verður fylgt sama fordæmi og áður í þessu tilviki, að það verður slakað á klónni meðan á þessu stendur. Það er þetta, sem ég ásamt mörgum öðrum vil fá greinargóð svör við: Á að fylgja fram til hins ýtrasta, eins og hægt er, löggæslu innan 200 mílna markanna eftir annað kvöld? Þessu beini ég til hæstv. dómsmrh. og ég vænti þess að hann komi hér ekki upp í þriðja skiptið án þess að svara hreint því sem spurt er um.

Þau orð hæstv. dómsmrh. sem hann lét hér falla áðan um að hann og þá væntanlega við hinir 59 líka, sem eftir erum, hefðum umboð kjósenda til loka kjörtímabils til þess að gera svo að segja hvað sem menn vildu, — þessi ummæli minna mig á þau ummæli hæstv. dómsmrh. sem sagt er að hann hafi víðhaft á hinum fræga Esjufundi þegar verið var að ræða um kaup á landhelgisgæsluflugvél og menn höfðu leyft sér að gera aths. við slíkt. Þá hafði hæstv. dómsmrh. átt að segja: „Þá er mér að mæta.“ Þetta er að mínu áliti of mikil kokhreysti þó að hæstv. ráðh. eigi í hlut.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að mikill meiri hl. íslendinga er andvígur hvers konar samningum um veiðiheimildir útlendingum til handa, eins og málum er nú komið varðandi fiskstofnana við landið. Og ég segi: Þó að núv. hæstv. ríkisstj. telji sig standa föstum fótum og styrkum með mikinn þingmeirihl. að baki, þá verður henni ekki stætt á því að framfylgja hugsanlegum samningum sem hún nú undirbýr við aðrar þjóðir.

Hæstv. forsrh. vék að því áðan að skýrsla af þeim viðræðufundum, sem átt hafa sér stað, væri nú hjá landhelgisnefndarmönnum, og það er rétt. Þessa skýrslu eru þeir búnir að hafa á aðra viku. Og með sama áframhaldi fá þeir að hans boðun skýrslu í fyrramálið og munu þá að líkum eiga að hafa hana í a. m. k. aðra viku til viðbótar, þannig að þetta er greinilega leikur af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að draga á langinn að birta eitt eða neitt þjóðinni af því sem fram hefur komið á þessum viðræðufundum. Þarna er um að ræða algera leynd, nema að því leyti sem ýjað er að í skrifum stjórnarblaðanna, eins og hér hefur verið að vikið. Þetta er að mínu viti óþolandi ástand. Það er ekki hægt með neinum rökum að halda slíku máli í algerri leynd svo að mánuðum skiptir, án þess að þing og þjóð fái um það vitneskju hvað er að gerast.

Það var vikið áðan af hv. þm. Jónasi Árnasyni að ummælum sem skipherra í landhelgisgæslunni, Guðmundur Kjærnested, hafði viðhaft, sem sé þeim, að það væri enginn vafi á því að það væri hægt að verja íslensku landhelgina meðan við yrðum ekki beittir vopnavaldi. Ég er ekki í neinum vafa um að þessi skoðun skipherrans gengur eins og rauður þráður í gegnum skipherra landhelgisgæslunnar og landhelgisgæslustarfsmanna almennt, að þetta mun vera þeirra skoðun. Spurningin er því sú: Verður löggæsla stöðvuð eða úr henni dregið á einhvern hátt vegna fyrirskipana frá hæstv. ríkisstj.? Það er ástæða til þess með hliðsjón af fyrri reynslu að ætla að slíkt verði gert.

Hæstv. forsrh. sagði áðan, þegar hann talaði um hugsanlegt samkomulag, að aðeins yrði um samkomulag að ræða sem yrði okkur í hag. Það er ekkert samkomulag hægt að gera við þessa aðila sem verður okkur í hag, eins og ástandið nú er. Hvert einasta tonn, sem samið verður um útlendingum til handa til veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu, er tekið beinlínis frá íslendingum sjálfum. Það er upplýst að meira að segja sérfræðingar breta hafa viðurkennt þá hina svörtu skýrslu, sem nú er kölluð, sem birtist frá Hafrannsóknastofnuninni. Það er viðurkennt í meginatriðum af hálfu breta að hún sé rétt. Sú skýrsla er um það fyrst og fremst að á árinu 1976 megi alls ekki taka meira en 230 þús. tonn af þorski ef ekki eigi að hrynja stofninn. Í heild er talið að megi taka 370–380 þús. tonn við landið. Allan þennan afla geta íslendingar einir hagnýtt sér. Það er því tekið frá þessum aðilum beint hvert einasta tonn sem um verður samið við útlendinga í þessu skyni. Verði það svo sem ég óttast, en vona í lengstu lög að sé ástæðulaus ótti, að hæstv. ríkisstj. haldi fast við að stefna eindregið að samningum, þá er hún með því að innleiða kreppuástand á Íslandi á næstu árum. Og það verða þá sannarlega móðuharðindi af mannavöldum.