12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4107 í B-deild Alþingistíðinda. (3436)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ragnhildur Helgadóttir):

Út af orðum hv. þm. vil ég taka það fram, að það er alrangt að ég hafi minnstu tilhneigingu sem forseti til þess að hefta málfrelsi þm. yfirleitt. Það á jafnt við um hv. 5. þm. Vestf., sem kvaddi sér hljóðs í gær í tilefni af þessu máli, og hv. 5. landsk. Mér finnst eðlilegt að þm. ýti á eftir afgreiðslu mála í n., og ég tek undir þá hvatningu þm. að vitanlega eiga n. að kappkosta að skila frá sér málum svo snemma sem unnt er. En vegna þess að látið hefur verið í veðri vaka að einhvers konar gerræði hafi verið í frammi haft af minni hálfu, er tveimur hv. þm. var ekki veitt orðið utan dagskrár í gær, vil ég segja það, sem ég hygg að flestir hv. þdm. skilji og viðurkenni, að hér hafði verið boðaður fundur í Sþ. og á þeim tíma sem þessar umr. fóru fram í örfáar mínútur, þær upphófust rétt fyrir þann tíma sem Sþ. átti að hefja sinn fund. Það hlýtur því öllum að vera ljóst að sá tími sem Nd. hafði til umráða til síns fundar, var liðinn, og ég vísa því á bug að með því að neita hv. þdm. um orðið utan dagskrár, þegar svo stendur á, sé haft í frammi nokkurt gerræði, og því síður þegar það er gert, að strax á næsta fundi er sömu hv. þm. boðið að gera þær athugasemdir sem þeir höfðu ekki tækifæri til daginn áður tímans vegna.

Ég hygg að ég hafi með þessu gefið þá skýringu að það geti varla talist réttmætt af hálfu hv. þm. að kvarta um að þeim sé meinað málfrelsi hér í deildinni.