12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þar sem hafnar eru utan dagskrár umr. um landhelgismálið tel ég rétt að ítreka þá afstöðu Alþfl. að hann er fyrir fram algerlega andvígur því að gerðir verði nokkrir samningar um undanþágur frá hinni nýju landhelgi, alveg sérstaklega þó innan 50 mílnanna. Við teljum, eins og margoft hefur komið fram, að aldrei hafi verið jafnsterk rök gegn því að gera neitt slíkt undanþágusamkomulag eins og nú er. Þetta hefur sérstaklega komið í ljós á síðustu vikum við þær skýrslur, sem birtar hafa verið, og styrkist enn síðustu dagana, þegar fréttist að breskir fiskifræðingar hafi í grundvallaratriðum verið sammála hinum íslensku enda þótt nokkur túlkunarmunur sé um það við hverju megi búast eftir 3–4 ár. Þá vil ég minna á að við höfum beitt þeim árangri, sem náðst hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, á hafréttarráðstefnunni, mjög fyrir okkur, þar sem 200 mílurnar virðast njóta þar almenns fylgis. Ef við lítum nánar á þann texta sem þar liggur nú fyrir þótt hann sé ekki endanlega samþykktur, þá gerir hann ráð fyrir að hver þjóð ákveði fyrir sig hve mikið fiskmagn hún telur að taka megi af hinum ýmsu tegundum. Slíkt álit liggur nú fyrir. Samkv. þessum texta á viðkomandi strandríki einnig sjálft að ákveða hvað það telur sig geta tekið mikið af þessu aflamagni. Ég held að það hafi enginn haldið því fram að við íslendingar, getum ekki tekið það sem fiskifræðingarnir telja rétt að veiða af meginstofnunum. Allt eru þetta röksemdir sem ekki hafa legið fyrir fyrr á árum, en eru nú talandi vitnisburður um það að við eigum að sitja einir að miðunum og við eigum ekki að gera samninga við önnur ríki.

Hér hafa orðið allmiklar umr. um hvernig landhelgisgæslan muni starfa og hvaða fyrirmæli hún muni fá. Í grundvallaratriðum vil ég láta í ljós að ég harma að slíkt skuli gert að umræðuefni á opinberum vettvangi, sérstaklega Alþ., af því að auðvitað á ekki að gefa neinar yfirlýsingar um hvaða fyrirskipanir okkar varðskip hafa. Ég býst ekki við að nokkurt ríki í veröldinni mundi gera það. Varðskipin okkar hafa sýnt getu sína. Þau hafa tekið togara, þau hafa stöðvað togara, bæði með dauðum skotum og lifandi skotum, þegar þurft hefur á að halda. Ég vænti þess að ríkisstj. gefi þá yfirlýsingu eina að landhelgisgæslunni muni verða beitt til hins ýtrasta til að framkvæma íslensk lög og verja íslenska landhelgi. Efasemdir, sem látnar eru í ljós hér á Alþ. um að þetta verði gert, eru nánast til þess að skemmta andstæðingum okkar. Ég vil því lýsa yfir að ég tel það sjálfsagt og vænti þess ef ríkisstj. að við hvert einasta tækifæri verði þær einar yfirlýsingar gefnar að landhelgisgæslan muni verða látin vinna störf sín eins og hún best getur. Það er sjálfsagt hlustað á loftskeytasambandið úr landi til skipanna og enginn vafi á því að bretarnir vita nokkrum mínútum seinna hvað þar fer á milli, en það er ekki ástæða til að segja þeim það löngu fyrir fram hér á Alþ.

Hér hefur verið rætt aðallega um hugsanlega samninga við breta og vestur-þjóðverja sem auðvitað skipta langmestu máli, Landhelgisnefnd hefur fengið upplýsingar um hvernig þau mál standa, og ég hygg að þingflokkarnir muni hafa fengið þær upplýsingar líka. Því fyrr sem þessi mál skýrast og almenningur fær um einhverjar niðurstöður að vita, því betra.

Ég vil að lokum bera fram þá fsp. til hæstv. ríkisstj., hver af ráðh. sem nú vill svara henni: Hvernig standa viðræður sem hafnar eru við belgíumenn — og einnig: hver er staðan gagnvart norðmönnum og færeyingum? Það hefur vakið undrun manna að ríkisstj. hefur verið næsta aðgerðalítil í landhelgismálinu í allt vor og sumar. Er sama hvaða svið þess er tekið, bæði kynning þess og undirbúningur allur, og viðræður við þær þjóðir, sem stjórnin hefur ákveðið að ræða við, hafa ekki hafist fyrr en tiltölulega seint. En mér er ekki kunnugt um að farið hafi fram neinar viðræður við norðmenn og færeyinga og ég vil gjarnan fá á hreint hvort það sé ekki alveg öruggt að þeir fari þá a. m. k. út fyrir mörkin. Þeir hafa örugglega fyrst um sinn a. m. k. engin leyfi til veiða. Í öðru lagi: Er ætlun ríkisstj. að taka upp viðræður við þessar þjóðir og hver eru viðhorf hennar til þeirra?

Nú er svo komið að við höfum upplýsingar um stöðu fiskstofnanna og tölum um þessi mál í ákveðnu magni fisks, tölum um svo og svo mörg þúsund tonn, og hver 10 þús. tonnin geta skipt miklu máli.

Ég vil gjarnan fá upplýsingar um hver staðan er gagnvart þessum þremur þjóðum sem við höfum víst enn í dag, a. m. k. til morgundagsins, samninga við.