12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4113 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en það voru aðeins tvær eða þrjár aths. í tilefni af ræðu hv. 11. þm. Reykv., Ellerts B. Schram. Ég vil taka það fram, að auðvitað kom það fram þegar ég flutti málið að þó að ég gerði ráð fyrir því að það fengi góða athugun, þá óskaði ég auðvitað eftir því að það yrði afgr. Ég hafði sérstaka ástæðu til ætla að svo mundi verða gert, vegna þess að það stóðu upp allmargir þm., bæði stjórnarþm. og stjórnarandstöðuþm., þ. á m. stóð stjórnarþm. hv. 11. þm. Reykv. upp og lýsti ánægju sinni yfir að þetta frv. væri fram komið. Þetta var meðal þeirra mála sem voru á lista frá dómsmrn. yfir þau mál sem óskað var afgreiðslu á, og ef hann hefur ekki borist í hendur þm. samtímis og listi yfir önnur mál, þá er það ekki mín sök, þá er þar ekki við mig að sakast, því þetta fór til forsrh. á sínum tíma ásamt öðrum frv. (Gripið fram í.) Já, rétt er það, það var leiðrétt. Það hafði fallið niður, og það voru ekki mín mistök að hafa fellt niður þau mál sem frá dómsmrn. voru.

Ég vil ennfremur benda á að það eru ekki nokkur minnstu rök að fara að telja upp þau mál, sem afgr. hafa verið í allshn., og segja: Hún hefur afgr. svona og svona mörg mál. — Málin sem lögð eru fram, eru svo gjörsamlega ólík. Ég tek til dæmis að í þessari tölu, sem hann telur að hafi verið afgr., eru þrjú smávægileg frv. um happdrætti. Það er hægt að ná tölunni upp með þessu. Það eru ýmis þau frv., sem ég hef lagt fram, sem hafa ekki haft að geyma stórvægilegar breyt. og hafa þó verið nauðsynleg, en það er ekki hægt að fá neinn jöfnuð í þessu með því að bera saman tölur á frv. Hins vegar eru ekki afgr. þessi mál og ekki heldur frv. sem ég hef lagt fram í Ed. og ekki er við n. þessarar hv. d. að sakast, — frv. sem ég tel stórmerkt mál og nauðsynlegt að afgr. og hefði verið nauðsynlegt að afgr. á þessu þingi og ætti að afgr., og það er um skotvopn og skotfæri.

Ég tel það því alls ekki að ástæðulausu þó að ég sé ekki sérstaklega ánægður yfir því hvernig allshn. hafa haldið á þeim málum sem ég hef lagt hér fram. Ég er ekki að tala neina tæpitungu um það, og mér finnst það vera önnur meðferð heldur en sumar aðrar n. láta þau mál sæta sem fyrir þær eru lögð. Það er nú aukaatriði. Og það er ekki heldur við þessa n. þessarar hv. d. beinlínis að sakast að það skuli ekki enn þá vera einu sinni búið að afgr. nál., að ég best veit, um ríkisborgararétt. Það frv. er þó lagt fram í þingbyrjun. Hv. Alþ. ætlar kannske að gera sér þann sóma að afgr. alls ekki á þessu þingi lög um ríkisborgararétt.