12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4114 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

Umræður utan dagskrár

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja hér örfá orð vegna þess að mér finnst það koma úr hörðustu átt að hér skuli vera veist að hv. i1. þm. Reykv. sem nefndarformanni í allshn. því ég hef litið svo á og hef áður tekið það fram að mér virtist hann einn af ötulustu nefndarform. þingsins, eins og raunar kom fram í upphafi þegar hann skýrði frá þeim málum sem vísað hefur verið til allshn. og afgr. þaðan. Ég get ekki hælt mér af því að hafa mætt mjög vel í allshn. þó ég hafi fylgst þar með öllum málum, en þetta get ég sagt um formanninn.

Ég hef vanist því, að það er heldur hægagangur á málum sem lúta að lögreglumálefnum. Ég hef reynslu af því sjálfur. Og þegar hæstv. dómsmrh. lagði þetta frv. fram sagði hann í lok ræðu sinnar, með leyfi hins virðulega forseta:

„Ég tel rétt að benda á að þó að ég hafi að sjálfsögðu mikinn áhuga á fljótum framgangi þessa máls, þá muni vera rétt fyrir þá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að leita umsagna ýmissa aðila um efni þess, svo sem ríkissaksóknara, lagadeildar Háskólans og annarra sem henni þætti rétt að fjölluðu um málið.“

Ég ætla svo ekki að bæta miklu við þetta, en ég gleðst að sjálfsögðu yfir hinum mikla og vaxandi áhuga og vaxandi réttlætisvitund hv. alþm. á vinstri væng íslenskra stjórnmála.