12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4132 í B-deild Alþingistíðinda. (3456)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur flutt skörulega ræðu sem sumpart fjallaði um fjárhagsvandræði Stofnlánadeildar landbúnaðarins og þann gífurlega vanda, sem bændastéttin er í af þeim sökum. Hvert orð, sem hv. þm. sagði um þetta efni, er rétt og ástæða til að árétta það. Ég verð hins vegar að segja það, að ég treysti mér ekki til þess að ljá fylgi mitt eða styðja þá till. sem hann hefur flutt um fjáröflun fyrir Stofnlánadeild landbúnaðarins, og er það af orsökum sem nú skal greint.

Það er eðli og hlutverk Byggðasjóðs að vera viðbótarlánasjóður við lánveitingar annarra stofnlánasjóða. Byggðasjóður veitir lán til iðnaðar, sjávarútvegs, fiskiðnaðar og landbúnaðar, og það er gert ráð fyrir því og hann er byggður upp til þess að það sé gert til viðbótar við lán almennra stofnlánasjóða. Ef sú leið er valin, sem hér er stungið upp á, þá er þessi regla brotin og þessi leið stríðir gegn hlutverki sjóðsins. Það hlýtur að blasa við, að ef slíkt væri samþ. að markaður yrði ákveðinn hluti af tekjum hans til Stofnlánadeildar landbúnaðarins mundu koma fram kröfur frá Fiskveiðasjóði og Iðnlánasjóði um tiltekna hluti til þeirra sjóða, og hæstv. sjútvrh. greip fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. áðan og sagði að Fiskveiðasjóður mundi krefjast a.m.k. 50% af tekjum Byggðasjóðs. Þar með værum við komnir á það stig að eyðileggja Byggðasjóð með öllu, og þó að hér sé um að ræða mál sem hefur það í för með sér að afla fjármagns til Stofnlánadeildar landbúnaðarins og styrkja bændur í þeirra stórkostlega vanda, þá vil ég ekki með þeim hætti verða til þess að eyðileggja Byggðasjóð, svo mikilvægur tel ég að hann sé.

Ég tel í rauninni að ekki sé þörf fyrir mig að bæta miklu við þessi orð um þessa till. Hins vegar vil ég þó fara örfáum orðum um þetta mál umfram það sem hér hefur komið fram.

Á síðasta ári hygg ég að fyrst hafi verið tekið upp af stjórn Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunar ríkisins að lána til landbúnaðar. Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði að hér hefði verið um að ræða 2.79% af lánveitingum sjóðsins. Ég hef heyrt tölu nefnda, 164 millj., sem lánað hafi verið til þessarar atvinnugreinar á síðasta ári og er augljóst að þar er um stærra hlutfall að ræða heldur en hv. ræðumaður gat um. Hér er að mínum dómi um mikilvæga stefnubreytingu að ræða hjá forráðamönnum Byggðasjóðs og er út af fyrir sig þegar vert að þakka þá stefnubreytingu og e.t.v. spyrja hvers vegna þessir hættir hafi ekki verið teknir upp fyrr. Ástæða er einnig til þess að óska eftir því og bera fram eindregin tilmæli um að meira af fjármagni þessa sjóðs verði lánað til landbúnaðar heldur en gert hefur verið og e.t.v., að því verði sérstaklega varið til sérgreindra viðfangsefna í landbúnaði, svo sem vinnslustöðva og annarra félagslegra framkvæmda. Þó ég segi þetta hér og vænti þess að framkvæmdastjórn Byggðasjóðs taki þetta til umhugsunar og eftirbreytni, þá veit ég þó að miklar líkur eru til að það fjármagn, sem ráðstafað væri með þessum hætti, væri í raun betur komið í höndum Stofnlánadeildar landbúnaðarins því þá mundi það ganga til framkvæmda bændanna sjálfra í meira mæli. En það verður að líta á þessi mál öll í samhengi, og með því að fara eftir því, sem þessi till. greinir, er sjóðurinn settur í slíka hættu að ég treysti mér ekki til þess að stuðla að því.

En eins og ég sagði í upphafi míns máls, þá var hvergi ofmælt í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. um vanda Stofnlánadeildar og veðdeildar Búnaðarbanka Íslands og stórkostleg vandræði bændastéttarinnar af þessum sökum. Ég vil bera fram þau mjög svo eindregnu tilmæli til hæstv. ríkisstj. að þess verði freistað eftir öllum leiðum að fá viðbótarfjármagn til Stofnlánadeildar landbúnaðarins og enn fremur til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands til þess að unnt sé að svara nokkru a.m.k. af hinum endurnýjuðu lánsbeiðnum bænda með jákvæðum hætti, því þar er, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson gat um, í mörgum tilvikum um hrein neyðartilfelli að ræða og ekki auðvelt að sjá fram úr hvernig um það fer ef ekki verður hægt að veita nokkurt lánsfjármagn til þess að hjálpa þar til. En eins og fjárhag deildarinnar er háttað hefur hún nú ekkert fjármagn til að svara þessum lánsbeiðnum jákvætt. Veðdeild Búnaðarbankans er svo gersamlega fjárvana að þar eru ekki horfur á að verði unnt að veita eitt einasta lán á þessu ári til jarðakaupa, og sjá allir að það er gersamlega óviðunandi. Þess vegna er þörfin ærin og ég beini enn ákveðnum tilmælum til hæstv. ríkisstj. að freista þess eftir öllum leiðum að koma þarna til móts við þessar miklu þarfir og auka fjármagn til þessara hluta.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að segja um þetta fleiri orð og mun ekki ræða frv., sem hér liggur fyrir, að öðru leyti.