12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (3458)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla að leiða hjá mér að ræða almennt um frv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, en ég verð að játa að ég hygg að þar sé ekki um neinar stórvægilegar breyt. að ræða frá núgildandi lögum.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. flutti hér hressilega hugvekju. Ég hef því miður ekki getað slegist í fylgd með honum að flytja þá brtt. sem hann lýsti og fylgdi svo frísklega úr hlaði. Það er af ýmsum ástæðum, m.a. þeim sem hv. 2. þm. Norðurl. v. gat um. Við vitum að hér er um mikið vandamál að ræða, og okkur er kunnugt um stefnuyfirlýsingu ríkisstj. þegar hún tók við völdum. Við vitum um fjárvöntun stofnlánasjóða landbúnaðarins. En eigi að siður held ég að þetta mál verði ekki afgr. með svo einföldum hætti sem hv. 3. þm. Norðurl. e., vinur minn, gat hér um áðan. M.a. verðum við að hafa í huga, þegar við ræðum um ákveðna prósentutölu sem hinum dreifðu byggðum ber, hinar dreifðu byggðir eru ekki bara sveitarbýlin, heldur einnig þéttbýlið úti um land. Og hagsmunir hinna dreifðu býla og þéttbýliskjarnanna, þótt smáir séu úti um landið, eru svo nátengdir að þar verður ekki með nokkru móti skilið á milli. Hitt er annað mál, að fjárvöntun Stofnlánadeildar og veðdeildar landbúnaðarins er mikil. Við höfum stundum heyrt talað um að bændur væru í sérstöðu að því leyti að þeir þyrftu ekki annað en rétta fram höndina, þá fengju þeir lán sjálfkrafa út á sínar framkvæmdir. Þetta er hinn mesti misskilningur, eins og kom glögglega fram af máli hinna tveggja ræðumanna úr Norðurlandi sem hér töluðu áðan. Þess vegna vil ég taka undir þeirra mál sem var mjög réttmætt á allan hátt og ítreka að það verður ekki með nokkru móti dregið að athuga í grundvallaratriðum framtíðarmálefni og tekjustofna Stofnlánadeildar og veðdeildar. Og ég tek undir áskorun á hæstv. ríkisstj. að hún hrindi þessu máli í framkvæmd og láti nú þegar hefjast handa um að leysa brýnustu vandamál þessara stofnlánasjóða til frambúðar.