12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

54. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram frv. það til l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem hér liggur fyrir á þskj. 58. Frv. fjallar um undanþáguheimild vegna endurgreiðslna á sparifjárinnstæðum vegna skyldusparnaðar, og hljóðar 1. gr. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rn. er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum um endurgreiðslu sparifjár sé aðili að hefja nám eða færir fullnægjandi sönnur á að endurgreiðslu sé þörf af félagslegum ástæðum.“

Nú vildi svo til að nokkru eftir að ég hafði látið frv. mitt til prentunar birtist á borðum þm. ríkisstjórnarfrv. sem fjallar einnig um heimild til undanþágu og endurgreiðslu sparifjár. Þessi frv. urðu svo til samferða inn í þingsali. Frv. ríkisstj. er 53. mál, en það frv., sem hér er til umr. 54. mál. Ég tel hins vegar ekki rétt að afturkalla mitt frv., þar sem í því eru atriði sem ekki er vikið að í frv. ríkisstj., en ég tel mikilvægt, að tekið sé tillit til. Þessi frv. eru raunar lögð fram sitt í hvorri d., en ég held að ekki verði hjá því komist — með leyfi hæstv. forseta — að víkja að frv. ríkisstj. í þessari framsöguræðu, enda þættu mér eðlileg vinnubrögð hjá þeim nefndum, sem fá þessi frv. til meðferðar, að hafa hliðsjón af báðum.

Það er vissulega fagnaðarefni ef samkomulag og samstaða næst á Alþ. um að veita undanþáguheimild varðandi endurgreiðslur, en núgildandi skilyrði í lögum eru óþarflega ströng í þessum efnum og engin smuga til undanþágu, hversu brýn og réttlát sem hún annars virðist. Ákvæði um undanþágu frá sparnaðarskyldunni sjálfri eru fyrir hendi, en ekki um endurgreiðslu. Hygg ég þó, að bæði þm. og rn. viti um dæmi þar sem slíkt væri bæði réttlátt og þarft, án þess að það bryti á nokkurn hátt í bága við anda og tilgang laganna. Svo virðist sem rökin fyrir því, að undanþágur verði veittar, fari að nokkru leyti saman hjá mér og hæstv. félmrh., — að nokkru leyti, þó ekki öllu. Að mínu viti er það galli á frv. ríkisstj. að þess er hvergi getið í frvgr. sjálfri hvaða ástæður skuli teljast réttlætanlegar til þess að undanþága sé veitt. Það er aðeins talað um að undanþága sé heimil ef að mati ráðh. beri brýna ástæðu til að leyfa endurgreiðsluna. Ég tel hins vegar rétt og eðlilegt, að í lögunum sjálfum sé vísbending um hvað hafi vakað fyrir löggjafarvaldinu með því að samþykkja slíka undanþáguheimild. Það eru ekki nema sjálfsögð þingleg vinnubrögð og réttlæti gagnvart því fólki sem sækir til rn. um undanþágur, að það geti vitnað í lögin sjálf til stuðnings máli sínu.

Eins og frvgr. hæstv. ríkisstj. er orðuð, þá er það algert einkamat ráðh. hvaða ástæður væru teknar til greina og hvað viðkomandi ráðh. teldi brýnt. Með þessum ummælum er ég ekki að lýsa vantrausti á núv. ráðh. eða ráðuneytisstjóra. Í grg. með frv. eru vissulega tilgreindar ástæður sem ég er fyllilega sammála, en þær eru hvergi nema í grg. Ég held að við verðum að forðast að gera ráðh. og rn. að nokkurs konar dómstólum þar sem fólk verður að hlíta úrskurði einkamats viðkomandi ráðh., en vilji löggjafarþings komi hvergi fram. Hafi það vakað fyrir hæstv. félmrh. með þessu orðalagi að reyna að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun, þá er ég fyllilega sammála því sjónarmiði að það á ekki að mínu mati að opna allar dyr upp á gátt, og ég held að það skiljist fullkomlega af minni frvgr. að rn. hlýtur að þurfa að hafa visst aðhald og meta ástæður, og gert er ráð fyrir að aðili færi fullnægjandi sönnur á að honum sé endurgreiðsla þörf af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í frvgr.

Ég geri ráð fyrir því að endurgreiðsla sé heimil ef aðili er að hefja nám. Að þessu er ekki vikið í frv. ríkisstj., en á þetta atriði vil ég leggja sérstaka áherslu. Samkv. núgildandi lögum er skólafólk, sem stundar nám í skóla 6 mánuði eða meira á ári, undanþegið skyldusparnaði. Hafi námsmaður hins vegar notfært sér rétt til skyldusparnaðar, t. d. af sumarkaupi sínu, hefur hann getað fengið þá upphæð endurgreidda hafi hann fært sönnur á að hann hafi stundað nám minnst 6 mánuði af árinu og hyggist stunda nám áfram. Námsmaður, sem er að hefja nám eftir nokkurra ára þátttöku í atvinnulífinu, getur ekki fullnægt skilyrðinu um 6 mánaða skólanám á undangengnu ári og á því ekki rétt til endurgreiðslu sparifjár síns. Gæti sú upphæð þó ráðið úrslitum um hvort tekst að kljúfa byrjunarörðugleika við upphaf skólagöngu. Virðist mér sanngjarnt að réttur þessa fólks sé ekki rýrari en þeirra, sem eiga samfellda skólagöngu að baki, og beri því að veita heimild til undaþágu á endurgreiðslu í slíkum tilvikum. Undanþága af þessu tagi er að mínu viti fyllilega í anda laganna.

Með ákvæðum um undanþágu skólafólks til skyldusparnaðar er ljóst að það hefur ekki vakað fyrir löggjafanum að skyldusparnaður yrði baggi á námsfólki eða hemill á kostnaðarsama skólagöngu. Finnst mér það engan veginn réttlætanlegt að refsa ungu fólki, sem hefur tekið þátt í atvinnulífi að loknu skyldunámi og vill siðar taka upp nám að nýju, með því að neita því um endurgreiðslu síns sparifjár. Ég hlýt að gera mér vonir um að um þetta atriði geti orðið samkomulag við endanlega afgreiðslu frv.

Þá geri ég ráð fyrir því, eins og í frv. hæstv. ríkisstj., að undanþágur megi veita af félagslegum ástæðum. Hér getur verið um ýmsar ástæður að ræða, svo sem heimilisstofnun vegna barna á framfæri eða foreldra og óvenjuþungar fjárhagsbyrgðar af ýmsum orsökum, svo sem örorku. Um þessar ástæður virðumst við fyllilega sammála, ég og hæstv. félmrh., og ættu þær ekki að þurfa að vera ágreiningsefni.

Í lögum eru hjónabönd alger forsenda þess að fólk fái sparifé sitt endurgreitt, sé um heimilisstofnun að ræða, og virðist manni það skilyrði bæði ósveigjanlegt og raunar úrelt. Ég veit ekki hvort hv. þm. er ljóst að til er fyrirbrigði í þjóðfélaginu sem kallast sparimerkjahjónabönd. Í því felst að ungt fólk kemur sér saman um að giftast eingöngu til þess að ná út sínu sparifé, og fullt samkomulag um að skilja þegar að þeirri endurgreiðslu lokinni. Mér er ekki alveg ljóst hversu mikil brögð eru að þessu, en ungt fólk, sem ég þekki, tjáir mér að það sé þó svo algengt að flest viti það þó um a. m. k. eitt dæmi af þessu tagi. Undanþágur frá endurgreiðslum geta að sjálfsögðu aldrei komið í veg fyrir slíkt. En þær gætu kannske bjargað einhverjum frá því að þurfa að leita slíkra úrræða, því að ég er þeirrar skoðunar að slíkt sé algert neyðarúrræði.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og til félmn.