13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4145 í B-deild Alþingistíðinda. (3477)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði við fyrstu athugun ímyndað mér það, þegar ég las nál. það sem hér um ræðir og heyrði framsögu með því, að hv. félmn. hefði alls ekki gefið sér neinn tíma til þess að fjalla um þetta frv. sem hér lá fyrir, þessa beiðni sem studd er í fyrsta lagi samþykki allra stjórnmálaflokka í bæjarstjórn Akureyrar,í öðru lagi rökstudd af brýnni nauðsyn og augljósri á Akureyri og í þriðja lagi svo sérstaks eðlis að tæpast kemur til greina að þarna sé um að ræða sköpun nokkurs konar fordæmis. Þá ímyndaði ég mér þetta, að hv. félmn. hefði alls ekki gefið sér tóm til þess í sívaxandi önnum þessa vetrar að fjalla um þetta frv. Nú hef ég sannfrétt það að n. hefur vissulega gert það, hún hefur fjallað um þetta frv. oftar en einu sinni og lagt í umr. um það töluverða vinnu, og því meiri furðu sætir það, að n. skuli komast að svona kolvitlausri niðurstöðu. En þetta sýnir okkur rétt einu sinni að það er ekki nein trygging fyrir því að n. gegn takmörkuðum skilningi komist að því réttari niðurstöðu, því lengur sem hún fjallar um málið, heldur e.t.v. hið gagnstæða.

Nú liggur það í augum uppi og veit hver maður að lögfestar hafa verið ráðstafanir varðandi opinber gjöld í einstökum byggðarlögum annars staðar, svo sem í Reykjavík, til ákveðinna framkvæmda. Ég fæ þau svör að það hafi verið rangt að gera slíkt í Reykjavík. Ég hef það gagnsvar, að það er algjört lágmark að íbúar Akureyrar, bæjarfélagið þar, fái samsvarandi heimild til þess að gera ráðstafanir, sem eru rangar að mati hv. félmn. Ed., sama rétt til þess eins og samfélag reykvíkinga. Hér er um að ræða ákaflega sérstakt vandamál sem hefur orðið til á alllöngum tíma. Bæjarfélag akureyringa hefur komist að þeirri niðurstöðu að hægast sé og réttast að leysa þetta fjárhagsvandamál með þessum hætti. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess fyrir hv. félmn. að fara að nota þetta sérstaka mál til þess að sýna fágætlega sjaldgæfa ráðdeildarsemi við umfjöllun samsvarandi mála hér í þessari hv. d. Ég lýsi yfir óánægju minni með þessa afgreiðslu. Ég tel hana fyrir neðan allar hellur. Og ég óska, eins og síðasti hv. ræðumaður, eindregið eftir því að þetta frv. verði samþ., m.a. vegna þess að slíkt mætti verða hv. félmn. svolítil refsing fyrir flaustursleg og yfirborðsleg vinnubrögð.