13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4149 í B-deild Alþingistíðinda. (3481)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., aðeins örstutt aths. — Viðvíkjandi ummælum hv. 7. landsk. þm., Helga Seljans, út af fyrirsögn þessa frv., þá er ég ekki alveg reiðubúinn til þess að gefa fullnægjandi skýringu á því, en ég held að þetta hafi verið m.a. til þess að einfalda nafn þessa gjaldstofns.

Ég held að í sambandi við það mál, sem hér er til umr., komi allmikill misskilningur fram hjá þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls, og enn fremur hjá hv. félmn. d. þegar hún tók málið til afgreiðslu. Það var ekki beinlínis sem vakti fyrir mönnum, þegar var verið að óska eftir þessari heimild, hvort ákvæði um gatnagerðargjald verkuðu 3 ár aftur í tímann, 5 ár aftur í tímann eða eitthvað svoleiðis. Ég held að okkur sé öllum ljóst að það sé ákaflega takmarkað hvað lagafyrirmæli mega verka langt aftur fyrir sig. Það, sem hér er um að ræða, er að það er einlægur vilji bæjarbúa að taka á sig sérstakan skatt til þess að flýta framkvæmdum í gatnagerðarmálum bæjarins, og íbúarnir ætla að taka á sig þennan skatt hvort heldur þeir eru í þeirri aðstöðu að það er búið að malbika götu sem þeir búa við eða hafa byggt við jafnvel fyrir áratugum. Það er bara þessi vilji sem liggur á bak við og þessi ósk sem fram er borin af bæjarstjórn Akureyrar og nýtur stuðnings allra bæjarbúa. Þessi sérstaða, sem ég er að benda hér á, hygg ég að sé alveg einstök. Ef menn óska eftir, þá gætu þeir gert það að skilyrði fyrir því að ríkisvaldið samþykkti svona lagasetningu að jafneindregnar óskir væru að baki þeirri málaleitan.

Ég vil endilega leiðrétta þetta. Það er ekki verið að ræða hér um að lögfesta einhvern gjaldstofn sem eigi að verka svo og svo mörg ár aftur fyrir sig, heldur er þetta ósk um að fá löggildingu á þeim vilja bæjarbúa að taka á sig þá byrði sem því fylgir að geta hraðað þessum framkvæmdum sem allir íbúarnir, hvar í flokki sem þeir standa, eru sammála um að sé nauðsyn að framkvæma til þess að ná sem skjótast settu marki.