13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4154 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Mig óraði ekki fyrir því, þegar við í félmn, vorum að fjalla um þetta frv. á fundi eftir fund, að sú afstaða eða sú ákvörðun, sem n. tók, leiddi til þvílíkra umr. sem hér hafa orðið. Ég tel þess vegna rétt aðeins að koma fram með afstöðu mína til þessa máls, sem er á stuttu máli sú, að ég tel óeðlilegt að setja mörg lög um sama efni, um skattheimtu sem er lögð á sama gjaldstofninn. Ég tel það algeran óþarfa, og ég tel það ekki vera til annars heldur en gera stjórnunarkerfi hvers byggðarlags erfiðara heldur en vera þyrfti.

Ég er ákveðið þeirrar skoðunar að sveitarstjórnir eigi að hafa sem rýmstar hendur um ákvarðanatöku um framkvæmdir og þá um leið fjáröflun til þeirra. Ég vefengi á engan hátt þörf Akureyrarbæjar fyrir þá gjaldtöku sem hér er stefnt að að ná. En ég tel að þeirri gjaldtöku væri miklu auðveldara að ná með því einu að veita í lögum sveitarfélögum heimild til þess að hækka álag á fasteignaskatt meira en gert er, því að ef lesnar eru 4. og 5. gr. þessa frv., þá er nákvæmlega það sama sem liggur til grundvallar þessu gjaldi og þar sem fasteignaskattur er lagður á innan sveitarfélaga. Og með því að nú er að störfum nefnd sem á að gera till. um verkefni sveitarfélaganna og þá að sjálfsögðu um leið um tekjustofna þeirra, þá studdi ég það heils hugar að þetta mál gengi til hennar, því að ég tel það ekki alveg sjálfsagt að þn. fallist á hverja þá till. sem sveitarstjórn gerir, þrátt fyrir það að hún sé gerð samhljóða, vegna þess að það getur leitt til hluta sem í öðrum sveitarfélögum er ekki æskilegt. Og ég tel það ekki æskilegt að leggja á slíkt gatnagerðargjald að það þurfi að hafa fjóra reiti fyrir það á skattseðlinum.