13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4154 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég minntist einmitt á það í minni fyrri ræðu að ég væri undrandi yfir afstöðu hv. 12. þm. Reykv. nú miðað við afstöðu hans í fyrra þegar mál þetta var til afgreiðslu hér í Alþ. En þá voru það tveir hv. þdm., hann og hæstv. utanrrh., sem voru andvígir því að lög um gatnagerðargjöld verkuðu nokkuð aftur í tímann. Ég ætla — með leyfi forseta — að lesa hér hina örstuttu ræðu hv. 12. þm. Reykv. undir þeim umr. sem þá fóru fram, en hann sagði svo, með leyfi forseta:

„Ég tel eðlilegt að gatnagerðargjöld séu innheimt til að standa undir hluta af kostnaði við gatnagerð og þá endanlegt slitlag á bæði vegi, götur eða þá lagningu gangstétta. En ég tel óeðlilegt að sveitarstjórnum sé veitt heimild til þess að innheimta nú gjöld aftur í tímann eins og gert er ráð fyrir í frv. til l. er hér liggur fyrir. Ég tel að útsvör og opinber gjöld, eins og þau eru lögð á hverju sinni, hafi verið lögð á til þess að standa undir framkvæmdum hvers tímabils, og ég vil því lýsa því yfir að ég mun ekki greiða þessu frv. atkv. mitt, eins og það liggur fyrir, þó að ég sé hlynntur því að gatnagerðargjöld séu lögð á.“

Efnislega sagði hæstv. utanrrh. nokkuð á svipaða leið, enda fór atkvgr. þannig að þetta var samþ., eins og hér stendur, með 9:2 atkv. Það var vegna þessarar hörðu afstöðu hv. 12. þm. Reykv. í fyrra gagnvart 5 ára ákvæðinu sem ég varð undrandi á málflutningi hans nú þegar hann vill samþykkja ótímabundið ákvæði um hvað þetta verki aftur fyrir sig. Mér finnst þarna ekki gæta fyllsta samræmis.

Ég viðurkenni að sveitarfélögin, eins og ég raunar tók fram við umr. í fyrra, sé vandi á höndum varðandi sína tekjuöflun, m.a. til þessara framkvæmda. Ég veit að Akureyrarkaupstaður hefur nýtt allar álagningarheimildir til fasteignaskattsálags til fulls, og þannig er það með kaupstaðina flesta. Ég endurtek ekki það sem ég sagði um tilurð gatnagerðargjaldsins í þessu formi. Við kópavogsbúar erum höfundar að því að hafa lagt á gatnagerðargjöld, við byrjuðum 1958 án þess að það væru nokkur lög fyrir því, það var samningsbundið gagnvart hverjum þeim sem fékk lóð úthlutað. Síðan hefur það þróast upp í það að um þetta hafa verið sett lög og reglugerðir, og ég endurtek: það strandaði á því ákvæði að reglugerð samkv. fyrstu lögum um þetta efni fól ekki í sér neina tímamörkun á hvort þau mættu verka aftur í tímann eða ekki. Þess vegna kom 5 ára markið, og hv. 12. þm. Reykv. var mjög andvígur því fyrir ári að þetta næði 5 ár aftur í tímann, hvað þá lengra. Það var þetta sem ég var undrandi yfir, að hann skyldi nú vera orðinn allt annarrar skoðunar heldur en við umr. um þetta mál hér á hv. Alþ. fyrir ári.