13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4155 í B-deild Alþingistíðinda. (3487)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að vekja athygli hv. þm. á 5. gr. frv. þess sem hér um ræðir, og þá fyrst og fremst vil ég vekja athygli hv. nm. á þessari 5. gr., sérstaklega þeirra sem hafa haldið því fram að fasteignagjöld gætu komið í staðinn fyrir það sem hér um ræðir. En mér virðist á máli þeirra að þeir hafi ekki lesið 5. gr., kannske ekki hinar gr. heldur. En einmitt í 5. gr. felst skýring á því að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar urðu sammála um efni þessa frv. og nauðsyn þess sem hér um ræðir. 5. gr. hljóðar svo: „Við ákvörðun gjalda samkv. 2, gr. og 4. gr. laga þessara skal miðað við lóðarstærð og stærð bygginga, eftir því sem nánar er ákveðið í gjaldskrá um byggingargjald og samþykkt um sérstakt gatnagerðargjald. Gjöldin má ákveða mismunandi eftir notkun fasteignar, svo sem hvort um er að ræða verslunar- og skrifstofubyggingar, iðnaðarhúsnæði, íbúðarhúsnæði o.s.frv. Ennfremur mega gjöldin af íbúðarhúsum vera mismunandi eftir því hvort um er að ræða einbýlishús, raðhús, fjölbýlishús o.s.frv.“

Ef hv. þm. og þó umfram allt hv. nm. fengjust nú til þess að skyggnast dýpra í 5. gr. frv., þá mætti þeim e.t.v. auðnast að renna í það grun að það, sem vakir fyrir bæjarstjórn Akureyrar, sé að láta þá aðila, sem bolmagnið hafa mest og fjárhagsgetuna, um það áð bera meginþungann af fyrirhuguðum álögum.

Ég ítreka enn að mér þykja margar umr. á mörgum fundum hv. félmn. alls ekki sanna okkur það að fjallað hafi verið af alúð um frv. eða af skilningi. Frv. var lagt fyrir í fyrravetur og hefði því verið hægt að athuga það betur. Hér er um það að ræða, að akureyringar fái að borga það fé sem þeir sjálfir vilja. Þetta virðast hv. félmn: menn ekki skilja. Erfiðleikar þeir, sem þessu valda, eins og nm. virðast halda, stafa ekki af skorti ákvæða um afturvirkni álagðra gatnagjalda. Nú vildi ég að ónefndir þm., sem ég þekki, hikuðu jafnmikið framvegis við að leggja gjöld á þá menn sem vilja það ekki.