13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4156 í B-deild Alþingistíðinda. (3488)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Jón Helgason:

Herra forseti. Það hafa verið sögð hér æðistór orð um afgreiðslu félmn. á þessu máli og þess vegna vildi ég með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þess.

Í þessu frv. er lagt til að Akureyrarbæ verði veitt heimild til þess að leggja á ákveðið gatnagerðargjald. Eins og við vitum, þá eru hér á landi á þriðja hundrað sveitarfélög. Og ef það væri farið út á þá braut að búa til lög fyrir hvert einasta sveitarfélag, mismunandi lög um hvert einasta gjald, þá held ég að lögin hér frá Alþ. yrðu nokkuð mörg. Þess vegna er lagt til í þessu nál. að það verði reynt að samræma þetta þannig að lagasetning um slíkt gjald gæti gilt fyrir fleiri sveitarfélög, gæti orðið algild. Það er þetta sem n. leggur til að verði athugað og skírskotar til þess að verið er að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga. Og þörfin fyrir þetta kom einmitt fram í máli hv. 5. þm. Norðurl. v. þar sem hann sagði: Siglfirðingar hafa þörf fyrir þetta líka. — Og gæti það ekki verið að það væru fleiri staðir sem hefðu þörf fyrir þetta ?

Það er verið að tala um það hér, m.a. af hv. 5. þm. Norðurl. e. sem hér talaði síðast, að akureyringar eigi að fá að borga það sem þeir vilja. Ég get tekið alveg undir það. En þá finnst mér að lagaheimildir eigi að vera þannig að þær veiti sveitarfélögum rétt til að leggja á slík gjöld, það sé algilt fyrir öll sveitarfélög, en ekki verið að taka eitt einstakt út úr og búa til sérstök lög fyrir hvert sveitarfélag í landinu.