13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4157 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð, en ég get ekki látið ómótmælt þeirri meginröksemd sem hér kemur fram aftur og aftur gegn samþykkt þessa frv., en hún er fagurfræðilegs eðlis. Hér stendur hver maðurinn upp á eftir öðrum og heldur því fram að það sé ekki hægt að samþykkja þetta mál því að þá eigi menn á hættu að lagasafnið verði allt útbíað í lögum um málefni einstakra sveitarfélaga, þar af leiðandi verði að gera aðeins ein lög um þetta efni. Ég vildi upplýsa menn um að það eru til þrenn lög um þetta efni. Í fyrsta lagi eru til almenn lög um gatnagerðargjöld sem gilda um öll sveitarfélög í landinu, samþ. 1974 með breytingu 1975. Í öðru lagi eru til sérstök lög um gatnagerðargjöld í Reykjavík. Og í þriðja lagi eru til sérstök lög um gatnagerðargjöld á Akureyri. Þessi lög eru til. eru nr. 87 frá 1970, og það er gert ráð fyrir því að þau detti út úr lagasafninu og falli úr gildi um leið og þessi lög verða samþykkt, þannig að ég sé ekki að alþm. væru neitt að flækja málið meira en það er orðið þó að þeir samþykktu þetta frv. Lög um gatnagerðargjöld yrðu alveg jafnmörg og þau eru nú.

Ég vildi bæta því við í sambandi við ,þá röksemd að hyggilegt væri að leita að hagkvæmari lausn undir forustu félmrn. í sumar, þannig að tækifæri gæfist til að leggja fram annað frv. næsta haust. Það út af fyrir sig er ekkert óeðlileg leið sem oft er farin. En við verðum bara að athuga það hvað er lengi búið að tefja þetta mál. Lög um gatnagerðargjöld voru samþ. hér 1974 og síðan eru sem sagt liðin tvö ár. Alþ. hefur gert mistök í þessum málum, og ég lít svo á að rn. hafi líka gert mistök í þessum málum með því að hafa ekki forustu um mótun stefnu sem sveitarfélögin gætu öll sætt sig við og samrýmdist þörfum þeirra og kröfum. Þetta er ekki stórpólitískt mál, og hefur sýnt sig í bæjarstjórnum úti á landi að hægt er að ná fullkominni samstöðu milli allra flokka um lausn þess. Þess vegna tel ég að það sé búið að tefja þetta mál of lengi. Það er búið að forklúðra málið nógu mikið þó að við förum ekki að tefja það enn frekar með einhverjum fagurfræðilegum röksemdum um það að í lagasafninu megi ekki vera sérstök lög um þau fáu sveitarfélög — og ég undirstrika það: þau eru örfá sem hafa sérstöðu í þessum efnum, sem þurfa að fá sérstaka löggjöf um sín mál. Það er Akureyri, það er Siglufjörður og kannske einn eða tveir aðrir staðir í landinu. Ég veit ekki um það, ég hef ekki heyrt óskir frá fleiri en þessum tveimur. (Gripið fram í.) Mér þykir það ekkert ósennilegt í sjálfu sér. Það er þá rétt að láta þær kröfur koma fram, og þeir, sem ekki ná því að setja fram sínar kröfur áður en frv. er endanlega afgreitt úr þinginu, þeir koma þá með sínar kröfur í sumar eða haust og þá er hægt að breyta þessum lögum eða gera aðrar breytingar. En núna eigum við að fallast á þær kröfur, sem fram eru komnar, nr. eitt frá Akureyri. Þess vegna er ég reiðubúinn að afgreiða málið til 3. umr. þannig að Akureyri sé þarna ein. En ég hef gert ráðstafanir til að kanna hvort siglfirðingar eru enn kröfuharðir um að mál þeirra séu tekin með svipuðum hætti og mun því hugsanlega við síðari meðferð þessa máls hér í þinginu, annað hvort við 3. umr. málsins eða þá mun ég ræða það við samþm. mína úr Norðurl. v. að athugað verði í Nd. um hugsanlega breytingu á þessu frv. þannig að það nái einnig til Siglufjarðar ef ljóst er að þeir vilja fá slíka breytingu fram.