13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4161 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Það er nú svo langt liðið frá því að ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við afgreiðslu þessa frv. að ég verð að biðja afsökunar á því að þetta verður víst allslitrótt hjá mér, mál mitt í sambandi við meðferð málsins hér í dag. Ég var að mínu mati með allfrjóa og góða ræðu í kollinum þegar ég kvaddi mér hljóðs fyrir eitthvað mánuði, en það hefur hagað svo til að þetta ætlar að verða einhvern veginn allt óaðgengilegra fyrir mig nú þegar ég sæki á heilasellurnar til notkunar við ræðuflutning minn nú.

Ég var einn af þeim aðilum í hv. iðnn. sem skipuðu þann meiri hl. sem mælti með samþykkt þessa frv. Ég held að staðreyndir séu þannig að hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er í gildi samningur við íslenska álfélagið um sölu á orku á föstu verði, samningur sem upphaflega hafði gildistíma 25 ár. Það er langt tímabil eftir af þeim samningi og samkv. ákvæðum þess samnings er verð orkunnar fastbundið. Það hefur verið oftsinnis og ítrekað við umr. þessa frv. fundið að því hvernig staðið var á sínum tíma að þessum samningi, og skal ég ekki fara að lengja umr. eða málalengingar í því sambandi. Ég get verið sammála samt sem áður þeim skoðunum sem komið hafa fram, að í svona máli getur það orkað ákaflega mikið tvímælis hversu lengi maður getur bundið slíka orkusölu föstu verði. Slíka gífurlega orku eins og hér er um að ræða og um svo langt tímabil, þá finnst manni ekki óeðlilegt að ákvæði væru í samningum um endurskoðun. En það kemur eiginlega ekki við þessu máli sem hér er verið að ræða um. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er þessi samningur í gildi.

Í sambandi við allar þær aths. og aðfinnslur sem komið hafa fram út af þessum margumrædda samningi, þá finnst mér rétt að það komi einnig fram, að mér skilst að þrátt fyrir allt hafi forsendan fyrir þeirri miklu framkvæmd sem Búrfellsvirkjunin var á sínum tíma, verið að þessi samningur við Swiss Aluminium var fyrir hendi. Þessu megum við ekki gleyma. Og við megum ekki heldur að hinu leytinu líta fram hjá því, að þó áð orkuverðið hafi sýnt sig síðan vera með lægra móti, þá er ýmislegt sem komið hefur í kjölfar þessara framkvæmda sem áttu sér stað þegar íslenska álverið var reist. Ég er þeirrar skoðunar að margt væri nú erfiðara og öðruvísi í okkar þjóðfélagi ef við hefðum þó ekki notið þess hagnaðar sem til að mynda verður við kaupgreiðslur frá þessu fyrirtæki, skatta og gjöld þess fólks sem hefur verið í þjónustu fyrirtækisins, fyrir utan allar þær geysilegu miklu upphæðir sem hafa verið inntar af hendi í sambandi við ýmisleg verkkaup og þjónustugjöld.

Þegar sú staðreynd blasir við manni að maður situr uppi með gerðan hlut sem maður að vissu leyti er ekki ánægður með og vildi gjarnan fá lagfæringu á, hvað eru þá eðlileg viðbrögð? Freista menn ekki að gera allt sem hægt er til að fá slíkum samningi eða slíkum skuldbindingum breytt? Og það er einmitt það sem ég held að hafi verið gert með því frv. sem hér er til umr. Hefur að mínu mati fyrir mjög gott starf þeirra manna, sem unnið hafa að þessum málum, fengist endurskoðun á þeim kjörum sem okkur hafa aðallega verið þyrnir í augum, en það var gjaldið fyrir orkuna til álversins. Þess vegna finnst mér það hrein markleysa þegar verið er að halda því fram, eins og gert hefur verið af sumu hv. þm. sem hafa rætt þetta mál hér, að við séum verr settir og tap okkar, eins og þeir hafa viljað orða það, sé aukið með þessum nýju samningum. Ég held að það dyljist engum, sem vill ræða þessi mál af sanngirni, að það hefur veríð náð veigamiklum hagsbótum fyrir þjóðfélagið í heild með þeirri endurskoðun og þeim ákvæðum sem felast í því frv. sem hér er til umr.

Hitt er svo annað mál, að þegar maður er farinn að ræða slík mál eins og þessi, þ.e. samskipti okkar við erlenda aðila, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, þá bendir það okkur ljósast á af hve mikilli varfærni og nærgætni maður þarf að fara í sambandi við frv. um stofnun járnblendiverksmiðjunnar. Öll slík samskipti þurfa geysilega mikillar yfirvegunar við. Það getur vel verið að tal mitt hér mótist af því að ég hef ekki mikla reynslu af þingstörfum, en ég held að það þyrfti að efla stöðu einstakra þn. Mér finnst bera of mikið á því og það mun vera of áhrifamikið eða réttara sagt afdrifamikið um meðferð mála í þinginu að n. er skammtað ákveðið veganesti og ákveðin stefna frá framkvæmdavaldinu, hverjir sem það skipa í það og það skiptið, og oft er sú stefna mörkuð af hinum og þessum embættismönnum. Ég er ekki að kasta neinni rýrð á starf slíkra manna. Hér er oft um mjög mæta og mikla hæfileikamenn að ræða. En hins vegar finnst mér að það verði aldrei lögð nógu mikil áhersla á það, að í svona málefnum, svona stórpóltískum málefnum sem snerta samskipti þjóðarinnar við stórkostlega sterka fjármálaaðila erlenda, eru það fyrst og fremst kjörnir fulltrúar þjóðarinnar sem bera þar veigamesta ábyrgð á.

Því geri ég þetta að umræðuefni hér nú að það hefur komið upp í huga minn að mér fyndist ekki óeðlilegt að vissum nefndum þingsins væri gefinn betri og meiri aðstaða um skoðanakönnun og ákvarðanatöku í sambandi við slík mál. Á ég þá við að þær gætu jafnvel haft til umráða nokkurt fé, ef þeim byði svo við að horfa í það og það skiptið. Ég teldi t. d, alls ekki útilokað að í stórmálum eins og hér er um að ræða gætu þn. algerlega sjálfstætt skipað undirnefnd sem starfaði eingöngu á vegum hlutaðeigandi nefndar, en til þess að slíkt væri framkvæmanlegt þyrfti að sjálfsögðu að vera á þann veg um hnútana búið að slíkar n. hefðu nokkurt fé til umráða. Ég skýt þessari hugmynd hér fram vegna þess að ég er ekki í nokkrum vafa um að hún á rétt á sér. Ef vel tækist til um þá tilhögun, þá held ég að það væri oft hægt að komast hjá mistökum sem hafa orðið í sambandi við samningsgerð og framkvæmdir einmitt um samskipti okkar sem þjóðar og einstaklinga við erlenda aðila, eins og til að mynda er að ræða um í sambandi við afgreiðslu þess frv. sem hér er til umr.

Herra forseti. Að öðru leyti hef ég ekki meira um þetta mál að segja, en lýsi því yfir að ég styð afgreiðslu þessa frv. eins og mælt er með í áliti meiri hl. hv. iðnn.