13.05.1976
Efri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4164 í B-deild Alþingistíðinda. (3501)

7. mál, almenningsbókasöfn

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessu frv. sem hæstv. menntmrh. hefur nú mælt fyrir. Ég fagnaði því mjög þegar frv. um almenningsbókasöfn kom fram í haust. Það var mjög til bóta og því var viða fagnað. Áhugamenn víðs vegar um land sáu nú hilla undir langþráðan draum sinn um eðlilegan styrk til bókasafna. Mig minnir að aðalefni frv. væri þess eðlis að fjárframlög ríkisins til almenningsbókasafna væru stórlega hækkuð, markið væri sett í þrem áföngum, og mig minnir að samkv. áætluninni hafi verið reiknað með á þessu ári 23 millj. af hálfu ríkisins, 46 á næsta ári og síðan 69. Eitthvað um það bil voru þessar tölur.

Ég endurtek ekki ævilok þessa þáttar frv., þessa merkasta þáttar frv., ég tíundaði þau hér í vetur og ég tel að þar hafi orðið slæm skipti þegar þetta verkefni var fært yfir á sveitarfélögin. Ég tel það m.a. vegna þess að þegar þetta verkefni var fært yfir á sveitarfélögin með því að hækka framlag til þeirra úr Jöfnunarsjóði, þá náði það framlag ekki einu sinni marki fyrsta ársins. Mig minnir það vera 20 millj. í stað þó þeirra 23 sem áttu að fást fram á fyrsta árinu. Við verðum að vona að þetta fáist lagfært á þann veg í þeirri endurskoðun, sem nú stendur yfir varðandi verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, að það verði þannig að þetta mark náist, sem upphaflega var sett í frv.í haust, og ekki verði látið sitja við þessa upphæð sem var gengið frá í vetur, heldur megi ná því marki að þrefalda ríkisframlagið, þ.e.a.s. fá það framlag úr Jöfnunarsjóði á þessum þremur árum, þessu og tveim þeim næstu.

Ég vek athygli á því að það er staðreynd, því miður, að áhugi sveitarfélaganna á þessum efnum er mjög misjafn. Ég þekki t.d. tvö dæmi um það austan úr mínu kjördæmi hve gerólíkt þar er staðið að bókasafnsmálum, þar sem annað sveitarfélagið heldur sífellt í framlögin til bókasafnanna, en hitt sveitarfélagið gerir mjög vel við sitt bókasafn, enda sýna bókasöfnin auðvitað þess glögg merki.

Ég vil einnig nefna það varðandi breytinguna sem varð á þessu í vetur með bandorminum svokallaða að það var langt í frá að öll sveitarfélögin stæðu þá við þá ótvíræðu skyldu að nota framlagið úr Jöfnunarsjóði til þess að hækka framlögin til bókasafnanna. Ég veit um dæmi þess að þetta var vanrækt við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 1976, og það sýndi að áhugi sveitarfélaganna á þessu máli var misjafn. Sums staðar var þetta tekið inn og ríflega það, en annars staðar alls ekki. Það var þó auðvitað samkv. þessum lögum, sem við settum hér rétt fyrir jólin, skylt, og mér telst svo til að það hafi verið réttmætt fyrir hvert bókasafn og framlag sveitarfélagsins til þess að margfalda ríkisframlag þeirra með svona 21/2, þá hefði rétt tala átt að koma út, því að styrkur ríkisins til almenningsbókasafna mun hafa verið 8 millj. á árinu 1975, en Jöfnunarsjóðsframlagið var 20 millj.

Mér þykir miður að hæstv. ráðh. skyldi þurfa að víkja svo frá þessu höfuðatriði þessa frv. sem raun bar vitni að það er nú ekki nema svipur hjá sjón frá því sem var þegar hann mælti fyrir því í Nd. í ágætri ræðu sem ég hlustaði á. Bókasöfnin eru nefnilega þess eðlis að auðvitað er það mikils virði að áhugi heimamanna sé ríflegur, en þau eru einnig þess eðlis, að ég tel sjálfsagt, eins og ég veit að hæstv. menntmrh. er líka sannfærður um í hjarta sínu, að ríkið komi þar til móts og örvi áhugann þar sem eitthvað vantar á hann. Annars skapast þarna óeðlilegur mismunur vegna þess hve áhugi sveitarfélaganna er misjafn. Ríkið á þarna að koma til örvunar, og það gerir það ekki á annan hátt betri en þann sem hæstv. ráðh. lagði til í upphaflegri gerð frv. Ég þykist vita að hæstv. ráðh. hafi gert það nauðugur að lóga þessu frv. í þeirri mynd sem það var og þurfa nú að bera það fram í þessari mynd.

Ég hef ekki kynnt mér nægilega vel þessar breytingar. E.t.v. er nægilega tryggilega frá því gengið nú að sveitarfélögin sinni þessari skyldu sinni gagnvart bókasöfnunum. Það verður örugglega svo að vera, því að eins og ég sagði áðan, ég þekki of mörg dæmi þess að sveitarfélögin svíkist um þessa skyldu sína gagnvart bókasöfnunum og hef þar um dæmi hreinlega úr minni heimabyggð sem eitt gleggsta dæmi þess, þar sem við höfum æ ofan í æ orðið í minni hl. í sveitarstjórn með sæmilegt framlag til bókasafns þar.

Ég sá einu sinni leikrit sem mér þótti býsna skemmtilegt. Það hét „Vængstýfðir englar.“ Það er með þetta frv. sem hér er, þó að ég vilji nú ekki líkja því kannske við engil í upphafi, þá dettur mér þetta leikrit í hug nú þegar þetta frv. kemur í þessari breyttu mynd, svona vængstýft hingað inn til okkar aftur. Og ég hefði sannarlega óskað þess, að hæstv. ráðh. hefði getað flutt frv. í sinni upphaflegu mynd og ríkið hefði komið þarna eins myndarlega til móts við bókasöfnin og hans meining var og eins og hann hafði barist fyrir.