13.05.1976
Efri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4168 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

275. mál, stofnlánasjóður vörubifreiða

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. hefur rætt frv. til l. um stofnlánasjóð vörubifreiða á flutningaleiðum og leggur til að frv. verði samþ. með þeirri breyt. að 2. töluliður orðist þannig:

„Árlegt framlag úr ríkissjóði eins og það er ákveðið með fjárlögum. Þó skal það framlag aldrei nema hærri fjárhæð en árlegt framlag sjóðsfélaga samkv. 1. lið þessarar gr.

Það, sem í þessu felst, er það að nm. telja eðlilegt að miða við framlag sjóðsfélaga, en hins vegar ákveði Alþ. við gerð fjárlaga hverju sinni hvort þessu hámarki verður náð eða ekki, þar sem við teljum að slíkt sé eðlilegri skipan mála.

Við 1. umr. málsins í gær var rætt um efni frv. og sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það nú. Fjarverandi við afgreiðslu málsins í samgn. var Eggert G. Þorsteinsson, en Stefán Jónsson ritar undir með fyrirvara.