13.05.1976
Efri deild: 109. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4170 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

271. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er um breyt. á lögum nr. 13 13. apríl 1973, um Happdrætti Háskóla Íslands. Efni frv. er það, að ákveðið er í frv. að dráttur í Happdrætti Háskóla Íslands fari fram í Reykjavík undir eftirliti n. sem dómsmrh. skipar, og þess er getið í athugasemdum að Happdrætti Háskóla Íslands ásamt Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og Vöruhappdrætti fyrir Samband ísl. berklasjúklinga hefur farið fram á heimild til að nota tölvu við drátt í happdrættinu og til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að breyta lögum happdrættisins.

Fyrir hv. d. liggja einnig frv. til l. um breyt. á Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og Vöruhappdrætti fyrir Samband ísl. berklasjúklinga. Þessi frv. eru öll um sama efni og samhljóða að öðru leyti en því að mismunandi happdrætti eru nefnd í hinum ýmsu frv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda lengri ræðu um þetta mál, en tel að með þessum fáu orðum hafi ég gert grein fyrir efni allra þriggja frv. Að lokum vil ég aðeins geta þess, að allshn. varð sammála um að mæla með samþykkt allra þessara frv.