13.11.1975
Sameinað þing: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst lýsa yfir eindregnum stuðningi Samtaka frjálslyndra og vinstri manna við þá till. sem hér hefur verið lögð fram af hv. þm. Ragnari Arnalds. Flm. hefur í ítarlegri framsöguræðu gert grein fyrir efnisatriðum þessarar till. og þeim rökstuðningi sem að baki hennar liggur. Ég held að það sé engin þörf á því að bæta þar sérstaklega við. Hitt held ég að sé vert að hugleiða, hve áhugalítill þingheimur virðist vera um þetta mál. Þegar þessi till. var tekin hér til meðferðar og meginþorra þess tíma, sem hv. flm. gerði grein fyrir máli sínu, voru aðeins fáeinir þm. hér viðstaddir, og af þeim 42 þm., sem standa að baki þessarar ríkisstj., voru meginþorra tímabilsins aðeins 5–6 þm. sem léðu eyra þessum málflutningi. Hér er á ferðinni að mínum dómi einn alvarlegasti gallinn í fjármála- og siðgæðiskerfi íslenska þjóðfélagsins.

Flm. fór um þáltill. nægilega skýrum orðum, og ég þarf ekki að bæta við í þeim efnum. En það kann að vera talið bæði nú og síðar talandi tákn fyrir í senn pólitískan vilja og framtíðarstefnu og siðgæði þeirra flokka, sem að þessari ríkisstj. standa, að þegar hér er gerð grein á þennan hátt fyrir skattleysi hundraða fyrirtækja í Reykjavík sem velta milljörðum kr., þá skuli aðstandendur þessarar ríkisstj. ekki sjá neina sérstaka ástæðu til þess að ljá því eyra og enginn hæstv. ráðherra vera viðstaddur. Það er yfirlýsing sem ég tel tala nægilega skýru máli um það, að hæstv. ríkisstjórnarmeirihluti hér á Alþ. ætlar sér að láta þessa till. sem vind um eyru þjóta, og það sem meira er, hann ætlar sér ekki á yfirstandandi þingi að gera neinar úrbætur í þessum efnum. Hann ætlar að halda áfram að láta það líðast að hundruð fyrirtækja í þessu landi geti velt fjármunum upp á tugi milljarða án þess að gjalda af því nokkurt gjald til samfélagslegra þarfa. Þurfum við frekari vitna við um hvers konar þjóðfélag það er sem þessi ríkisstj. vill festa í sessi á Íslandi? Hundruð fyrirtækja geta komist hjá því að leggja til samfélagslegra þarfa þjóðfélagsins, á sama tíma og ríkisstj. hefur boðað að hún ætli að halda áfram að skerða lífskjör alþýðuheimilanna í landinu. Hæstv. forsrh. hefur boðað í stefnuskrárræðu sinni að það sé engra kjarabóta von, og hæstv. fjmrh. hefur boðað að hann ætli að skerða almannatryggingarnar í landinu og ýmsar af þeim réttindabótum sem alþýða þessa lands hefur haft.

Flm. till. benti rækilega á það að ríkissjóður er nú rekinn með meiri halla en dæmi eru til áður. Þessi ríkisstj. íhaldsins í landinu, sem hefur til skamms tíma talið sér til ágætis að vera einn helsti postuli stöðugrar fjármálastjórnar á Íslandi, hefur eftir eitt ár á valdaferli sínum afrekað það að skila ríkissjóði með meiri halla en nokkurn hefur dreymt um að yrði þolað áður. Það mætti því ætla að það væri einhver vilji af hálfu þeirra manna, sem eru í forsvari fyrir þessa ríkisstj. og telja sig a. m. k. á stundum vera boðbera heilbrigðrar fjármálastefnu, að reyna að nálgast það fjármagn, sem til er í landinu, til að rétta við þennan halla, þótt ekki væri nema til þess að reyna að hamla gegn verðbólgunni með því að reka ríkissjóð hallalaust. Einu tilburðirnir, sem þeir sýna í þá átt, er að ganga enn frekar að alþýðuheimilunum í landinu. En þessi hundruð fyrirtækja eingöngu á Reykjavíkursvæðinu, — ætli það yrði ekki yfir þúsund ef allt landið væri tekið, — það væri fróðlegt verkefni fyrir n., sem fær þessa till. til meðferðar, að kanna hvað þessi fyrirtæki eru mörg á öllu landinu. Ég hugsa að þau mundu nálgast þúsundið, ef ekki fara þar yfir. Og ætli það væru ekki orðnir 30–40 milljarðar sem þessi fyrirtæki hefðu velt án þess að greiða af því krónu til samfélagslegra þarfa? En við þessu ætlar ríkisstj. peningaaflsins á Íslandi sér greinilega ekki að hreyfa.

Ég er þess fullviss að verkalýðshreyfingin á Íslandi mun taka eftir því hver viðbrögðin hafa verið í dag gagnvart þessari þáltill. og það er athyglisvert að þeir menn úr liði stjórnarstuðningsmanna hér á Alþ., sem teljast til forustumanna fyrir verkalýðsfélögum, jafnvel fyrir verkalýðsfélögum sem vilja telja sig til láglaunaverkalýðsfélaga, hafa a. m. k. ekki enn séð ástæðu til þess að tjá sig um það hróplega ranglæti í íslensku þjóðfélagi sem þessi þáltill. gerir glögga grein fyrir og flm. ítrekaði enn frekar í sinni framsöguræðu. Verða þeir menn teknir alvarlega sem fulltrúar láglaunafólksins á Íslandi, eins og t. d. hv. 6. landsk. þm., Guðmundur H. Garðarsson, og aðrir þeir í stuðningsliði þessarar ríkisstj. sem telja sig fulltrúa láglaunafólksins á Íslandi, ef þeir ætla að láta þetta hneyksli viðgangast nánast stundinni lengur, ef þeir ætla að láta þetta Alþ. líða til enda án þess að það geri gagngerar breytingar í þessum efnum? Það verður prófsteinn, sem láglaunafólkið á Íslandi mun taka eftir, hvernig fulltrúar þess, eins og þessi hv. þm. og aðrir, bregðast við þessari till. Og ég er viss um að verkalýðshreyfingin á Íslandi, sem mun ganga til kjarasamninga innan tíðar, mun hafa það í huga hver viðbrögð ríkisstjórnarmeirihlutans hafa hér verið við þessari þáltill.

Það er alltaf erfitt að fullyrða hver sé vilji þjóðarinnar, og það ber að vara við því að menn taki sér það oft í munn að þjóðin sé þessarar skoðunar eða hinnar. En ég held þó að megi fullyrða það af viðbrögðum fjölda fólks síðustu vikur í heilum byggðarlögum að þau skattalög og sú staðreynd, sem þáltill. þessi greinir frá í fylgiskjali og er grundvölluð á, þverbrýtur gegn siðgæðisvitund þjóðarinnar. Almenningur í þessu landi er örugglega sammála um að þessi skattalög, þessi skattfríðindi hundraða fyrirtækja, séu hneyksli. Og það þarf meira en litla óskammfeilni af hálfu ríkisstj. að ætla sér að koma á næstu mánuðum til alþýðunnar í landinu og krefjast enn meiri fórna af hennar hálfu ef hún ætlar að láta þessi hundruð fyrirtækja halda áfram að moka til sín tekjum af þessum milljörðum án þess að leggja nokkuð til samfélagslegra þarfa.

Ég átti satt að segja von á því — það hefur ef til vill verið dálítið ungæðislegt — að þegar þessi till. kæmi hér til umr., þá mundu af hálfu ríkisstj. hæstv. fjmrh. og ýmsir aðrir fulltrúar og forsvarsmenn ríkisstj. taka alvarlega þátt í þessum umr. Mig óraði ekki fyrir því að öll, — ég undirstrika: öll hæstv. ríkisstj. yrði fjarverandi þegar þessi till. kæmi hér til umr., hún virti ekki einu sinni þetta mál viðlits, það væri slíkt aukaatriði að hæstv. ráðh. gætu verið fjarverandi. Það væri fróðlegt fyrir þingheim og almenning í landinu að fá að vita hver væru þau skyldustörf, sem að þeirra dómi væru það mikilvæg að þeir þyrftu ekki að vera hér til þess að hlýða á eða taka þátt í þessum umr.

Það hefur verið gagnrýnt, eins og þingheimi er kunnugt, að þm. sinntu ekki nægilega vel sínum störfum, ríkisstj. væri jafnvel ekki vandanum vaxin, menn tækjust ekki af nægilegri alvöru á við störf sín hér á Alþ. Mér þykir þetta dæmi, sem við höfum horft hér upp á í dag, þegar þetta mál hefur verið tekið til umr., fyllilega sýna að þessar gagnrýnisraddir almennings í landinu eru á rökum reistrar. Þær eru á rökum reistar. Löggjafarstofnun, sem fæst ekki til þess að ræða í alvöru um það að hundruð fyrirtækja, sem velta tugum milljarða, greiði ekkert til samfélagslegra þarfa, löggjafarstofnun, sem fæst ekki til þess að ræða það í alvöru, rís ekki undir nafni. Það er engin furða þó að almenningur í landinu segi í viðtölum við fjölmiðla að þetta sé leikhús, þetta sé ekki alvörustofnun, það skipti engu máli hvað hér sé sagt, meðan fólkið í landinu horfir upp á eigendur þessara fyrirtækja taka til sín stórgróða á ári hverju í krafti þessarar löggjafar.

Herra forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs fyrst og fremst vegna þess að herra forseti var á leiðinni að slita umr. í krafti þess að það hefði enginn kvatt sér hljóðs fyrir utan framsögumann um þetta mál. Mér fannst það slík hrópleg ábending um hvar Alþ. íslendinga væri komið í umfjöllun um málefni þjóðarinnar að það væri ekki hægt að leiða það hjá sér. Ég vona satt að segja að þetta upphaf á umr. um þessa staðreynd, skattfrelsi þessara fyrirtækja, verði ekki varanleg ábending um að Alþ. það, sem nú situr, muni ekki vilja í alvöru tekast á við að breyta þessum skattalögum.

Ég vil svo að lokum ítreka það að minn flokkur lýsir yfir eindregnum stuðningi við þá till., sem hér hefur verið lögð fram, fagnar því sérstaklega að þetta mál skuli hafa komið hér til umr. á Alþ. og vonar fastlega að þeir fulltrúar í stjórnarandstöðu og í stjórnarflokkum einnig, sem sérstaklega vilja telja sig tengda láglaunafólkinu í landinu, sýni nú af sér manndóm og taki höndum saman við stjórnarandstöðuna um að breyta skattalögunum í þessu efni og samþykki þá till. sem hér hefur verið lögð fram.