13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4176 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

262. mál, Iðnþróunarsjóður fyrir Portúgal

Dómsmrh, (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Á ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu 6. nóv. 1976 var ákveðið að mynda sérstakan sjóð á vegum samtakanna til aðstoðar við Portúgal sem er eitt af aðildarríkjunum. Var talið að slík sjóðsstofnun mætti stuðla að eflingu lýðræðis og atvinnulífs í landinu og hún væri í samræm við óskir Portúgals. Þá var unnið að málinu á vegum samtakanna, og á fundi ráðs samtakanna 7, apríl s.l. var gengið frá lögum fyrir sjóðinn. Er gert ráð fyrir því að sjóður þessi taki til starfa þegar aðildarríkin hafa gengið frá nauðsynlegum staðfestingum.

Ég leyfi mér, herra forseti, að öðru leyti að vísa til aths. þeirra, sem fylgja með frv., um fyrirkomulag á þessum sjóði. En ég vil aðeins taka það fram, að mér finnst Ísland hafa alveg sérstaka ástæðu til þess að styðja að því að þessi sjóðmyndun komist á þegar litið er á hin hagstæðu viðskipti sem við höfum haft og eigum við Portúgal. Á árinu 1975 nam útflutningur okkar til Portúgals 5 milljörðum 584 millj. kr., en innflutningur þaðan 34S millj. Árið áður eða 1974 voru þessar tölur: útflutningur 3 milljarðar 389 millj. kr. og innflutningur 216 millj. kr. Vöruskiptajöfnuður gagnvart Portúgal hefur því verið okkur mjög hagstæður og hefur svo verið um langt árabil og líklega hagstæðari en gagnvart nokkru öðru landi. Þessi sjóður, sem hér er hugsað til að stofna, er í raun og veru mjög sniðinn eftir hugmyndinni um Iðnþróunarsjóð Norðurlanda.

Ég leyfi mér að æskja þess að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og til hv. fjh: og viðskn. Ég tek fram að frv. hefur þegar verið afgreitt í hv. Ed. samhljóða.