13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4178 í B-deild Alþingistíðinda. (3579)

270. mál, ábúðarlög

Frsm. minni hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta og frv. til jarðalaga eru nátengd hvort öðru og er rétt að líta á þau sem eina heild til að átta sig á efni þeirra. í þessum frv. eru annars vegar sett miklu strangari ákvæði en áður hafa gilt varðandi jarðasölu, og tel ég það í sjálfu sér vera til mikilla bóta því að ekki veitir af að reyna að hafa hemil á hinn sívaxandi jarðabraski í landinu. Frv. voru fyrst flutt fyrir tveimur árum og hafa verið endursamin síðan, eins og hv. frsm. meiri hl. n, gerði grein fyrir. Virðist mér að þær breytingar, sem gerðar hafa verið, séu mjög til bóta því að þær munu bæta hlutskipti leiguliða frá því sem verið hefur. Er vissulega rík ástæða til að gefa því gaum hvernig farið hefur verið með leiguliða á jörðum undanfarna áratugi.

Mál þessi snerta svo mjög grundvallaratriði varðandi eignarrétt lands að ég sem fulltrúi Alþfl. kemst ekki hjá því að flytja rökstudda dagskrá og leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj, í trausti þess að hún láti semja nýtt frv. sem byggist á þeim meginatriðum að landið verði eign ríkis og sveitarfélaga, nema bújarðir sem verði í eigu bænda áfram ef þeir kjósa, og nokkrum viðbótaratriðum sem leiðir af þessu meginatriði.

Að lokum vil ég eins og fyrir tveimur árum lýsa yfir, þó að ekki verði það talið neitt veigamikið efnisatriði, að það fer mjög í taugarnar á mér að við skulum nú á þessu ári vera að afgreiða löggjöf þar sem talað er um landsdrottin — þetta er eins og furðufyrirbrigði úr miðaldasögu — og leiguliða. Mér finnst raunar að það sé allt of mikið gert úr því hver teljist eigandi landsins, en minna úr því hverjir hagnýta það. Við eigum að hætta að kenna menn við eignartengsl þeirra við landið. Bóndi er bóndi hvernig sem því er farið, og við skulum dæma hann eftir einhverju öðru. Ég tel að það væri skynsamlegt og viðeigandi að hætta notkun þessara orðtækja frá grárri forneskju vegna þess að þau bera ríkan vott um stéttaskiptingu sem er löngu liðin hér á landi enda þótt leifar stéttaskiptingar séu hér vissulega fyrir hendi enn þá.