13.11.1975
Sameinað þing: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil mótmæla því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að Alþ. vilji ekki ræða þetta mál. Ég held að það hafi einmitt reynt á það, þetta mál er á dagskrá og er til umr. Það á að vísa því í þn. Það á að fá þá meðferð sem mál hér almennt fá. Hitt er annað mál, og ég vil undirstrika það, að meðan málefnalausir menn, sem hafa ekki hundsvit á því, sem þeir eru að tala um, standa hér upp á Alþ. og halda slíkar ræður, þá held ég að það sé fyllilega undirstrikun á því, sem fólk segir stundum, að Alþ. sé hálfgert leikhús. Ef hv. síðasti ræðumaður heldur að hann hafi eitthvað gert í þá átt að hreinsa Alþ. af þessari fullyrðingu fólks, þá er það þveröfugt. Og það, að ríkisstj. er öll fjarverandi, bendir í mínum huga bara til þess að ráðh. hafa öðrum hnöppum að hneppa, og það kemur mér ekkert á óvart, vitandi hvaða dagur er í dag t. d. og vitandi líka að þetta mál kemur hér aftur til umræðna á öðru stigi eftir að hafa hlotið þá meðferð sem eðlileg er og þingmál almennt fá.

En það er undarlegt að það eru yfirleitt þeir menn, sem eru dæmigerð manntegund um þá sem hafa búið síg undir það lífsstarf að tala, en ekki vinna á þeim almenna vinnumarkaði, sem tala í þessum tóni um þá sem almennt eru kallaðir máttarstólpar þjóðfélagsins. Það fer ekkert á milli mála að atvinnureksturinn almennt á Íslandi telst til máttarstólpa þjóðfélagsins. Það fer heldur ekkert á milli mála að síðasti ræðumaður hefur búið sig undir að tala um ævina, en ekki vinna á þann hátt sem hann þykist vera talsmaður fyrir. Hann þarf ekkert að vera að draga hér forustumenn verkalýðshreyfingarinnar upp í stólinn, hvort sem þeir eru úr Sjálfstfl. eða öðrum, til að svara slíkum fullyrðingum sem hér komu fram áðan, að þeir hugsi ekki um hag sinna umbjóðenda. Það væri fróðlegt hvað út úr því kæmi ef síðasti ræðumaður kynnti sér af eigin raun, hvað er að standa í atvinnurekstri, og talaði svo á eftir.

Það er nefnilega staðreynd að þeir, sem hafa atvinnurekstur og reka fyrirtæki í landinu, og fólkið, sem vinnur þar, þeir standa undir þeim sem hafa búið sig undir lífið á opinberum launum eingöngu. Það fer ekkert á milli mála. Annars fengju þessir opinberu aðilar ekki sín laun greidd reglulega. Og það er ekki neinum blöðum um það að fletta að það hráefni, sem síðasti ræðumaður hefur til að móta úr sínar manntegundir, þeir nemendur njóta og hafa notið og koma til með að njóta styrkja, sem nú er gerð krafa um að verði 2000 millj. kr., vegna þess að atvinnureksturinn er rekinn í landinu af frjálsum aðilum ekki síður en opinberum aðilum.

Um till. sjálfa vil ég segja það, að ég tel ágætt að hún skuli hafa komið fram. Mér finnst það vera ábyrg till., og ég lít svo á að engin lög séu sett þannig að þau séu endanlegur árangur í einhverju. Ég álít að það sé rétt að endurskoða öll lög og allar reglur reglulega og það er fyllilega tímabært að athuga það þegar einhver tekur það upp. Nú hefur hv. þm. Ragnar Arnalds, 5. þm. Norðurl. v., gert það, og ég álít að það sé mjög gott. En það eru ýmsar fullyrðingar sem hann lét fylgja þessari annars ágætu till. úr hlaði sem ég vil gera athugasemdir við.

Það er alls ekki rétt hjá flm. að flest atvinnufyrirtæki séu keypt fyrir lánsfé. Það eru mörg atvinnufyrirtæki keypt fyrir lánsfé, það er ekkert óeðlilegt við það, en ég held að flest séu þau byggð upp af miklum dugnaði og þrautseigju. En miðað við afkomu margra þeirra er engu líkara en eigendurnir hafi bókstaflega verið þjóðnýttir. Fyrirtækin standa ekki lengur undir þeim byrðum sem á þau eru lögð. Það er staðreynd. Það verður ekki hrakið. Afrakstur þeirra er afskaplega lítill og það eru engin merki um mikinn tekjuafgang eða háar tekjur eða gróða þótt veltan geti verið mikil, það getur verið taprekstur á fyrirtækjunum. En þessi fyrirtæki eru yfirleitt þannig stödd að þau geta ekki einu sinni hætt þó að þau vildu, vegna þess að veltufé plús það lánsfé sem hægt er að spýta inn í fyrirtækin af og til, heldur þeim gangandi. Þetta er staðreynd og það vita allir sem koma nálægt rekstri. Ég held að flm. hafi þarna talað af ókunnugleika á rekstri, en ekki af neinni vonsku hvað þá mannvonsku út í þá sem eru sjálfstæðir atvinnurekendur. Ég held að við séum ekki komnir það langt í kommúnisma enn þá að það sé af hreinni mannvonsku sagt þó að leiðin sé kannske í þá átt.

Ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir vil sjálfa till., sem hér liggur fyrir. En það er c-liðurinn. Hann er náttúrlega hættulegur, að einstaklingum, sem hafa tekjur sínar af eigin rekstri, verði framvegis áætlaðar ákveðnar lágmarkstekjur hvort sem reksturinn skilar bókhaldslegum hagnaði eða ekki. Það verður að vera, ef reksturinn og einstaklingurinn eru skattlagðir saman, eftir útkomunni á hverjum stað, og við verðum að treysta að þær opinberu stofnanir, sem hafa eftirlit með bókhaldi fyrirtækja við uppgjör árlega, gegni skyldu sinni. Það er ekki hægt að segja við mann, við skulum segja verkamann: Þú hafðir þessar tekjur í fyrra og þú átt að borga það sama næsta ár — hvort sem maðurinn hefur unnið eða unnið ekki, hefur legið veikur eða af öðrum ástæðum ekki haft atvinnu. Það eru bara áætlaðar lágmarkstekjur. Ég er á móti því að áætla tekjur á nokkurn mann. Það verður að vera raunhæft, það sem við gerum.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að ég hef ekkert á móti þessari till. í sjálfu sér. Það er ágætt, að hún verði grandskoðuð. Ég vil aftur á móti draga í efa að það hafi átt sér stað, eins og flm. benti á, að eigendur skipa hafi haft skipaskipti bara til þess að braska með eignir, ég skal ekki fullyrða um það. Ef svo er, þá er það dæmi sem ég þekki ekki. En hitt er annað mál, að það er í mínum augum og huga furðulegt að á Alþ. skuli vera bent á leiðir til að fara fram hjá lögunum og í kringum þau. Það er alveg furðulegt. Ég hef ekki orðið var við að þetta hafi verið gert, en nú er alþm. og það forustumaður stjórnmálaflokks á Alþ. búinn að benda mönnum á leið til að fara löglega í kringum lögin. Það er út af fyrir sig merkilegt. Ég sem sagt ætla ekki að lýsa neinum sérstökum stuðningi við þessa þáltill. á þessu stigi, en hún fer í n. og kemur aftur og verður frekar til umr. Hvort það kemur út úr því að fyrningarreglum eða afskriftarreglum fyrirtækja verði breytt á þann hátt sem hér senir eða ekki, ég skal ekki segja um það. Ég held að þessi till. fái fullkomlega þá meðferð sem önnur mál fá hér á Alþ. og ástæðulaust að gefa í skyn að hún fái það ekki.