13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4181 í B-deild Alþingistíðinda. (3588)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Þegar tekin er afstaða til frv. til l. um námslán og námsstyrki, þá verður að hafa tvennt í huga: Stuðlar frv., ef að lögum verður, að jafnrétti einstaklinga til náms, og er það í samræmi við þarfir menntakerfisins í heild? Það hefur orðið niðurstaða mín eftir athugun á frv. að það stuðli að auknu misrétti, þar sem lánin verða mjög óaðgengileg fyrir þá sem ekki eiga von á hálaunastörfum að námi loknu og mikil hætta er á að ásókn verði meiri í þær greinar sem skila af sér miklum tekjum að námi loknu. Svo hörð eru endurgreiðslukjörin sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Breytingar þær, sem hv. Ed. hefur gert, breyta engu um þessa meginstefnu frv.

Í lögum frá 1967 um námslán og námsstyrki var kveðið svo á að stefnt skyldi að því að aðstoð hins opinbera við námsmenn nægði til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefði verið tekið til tekna, fjölskyldustærðar og fleiri atriða. Síðan eru liðin 9 ár og á þessum tíma hefur mjög þokast í þessa átt. Þegar lögin voru sett árið 1967 mun um 43% af umframfjárþörf námsmanna á þeim tíma hafa verið fullnægt, en á árinu 1974 var þessi prósentutala komin nokkuð yfir 80%. Síðan hefur hún staðið í stað og nú á þessu ári gengið verulega til baka.

Borið er við peningaleysi, að sjóðurinn eigi í miklum erfiðleikum og hafi ekki efni á því að lána námsmönnum fé til að þeir geti framfleytt sér meðan þeir eru við nám, þess vegna yrði að herða endurgreiðslukjörin til þess að lagfæra fjármál sjóðsins. Vegna þessarar röksemdafærslu Alþ. og fjárveitingavaldsins og ríkisstj. tóku námsmenn jákvæða afstöðu til þess að endurgreiðslur yrðu hertar, og lögðu þeir þegar fyrir tveim árum fram till. um endurgreiðslukerfi sem laut að því að námslán mundu endurheimtast í raungildi að verulegum hluta, en þó þannig að endurgreiðslur kæmu réttlátlega niður og yrðu engum greiðanda óhófleg byrði. Með þessum till. sínum um endurgreiðslur töldu námsmenn að væri rutt úr vegi öllum hindrunum fyrir því að námslán gætu orðið fullnægjandi. Því settu þeir á oddinn þá kröfu að sjóðurinn fullnægði algerlega umframfjárþörf námsmanna. Þetta hefur ekki gerst. Á þessu hefur engin breyting orðið í meðferð menntmn. Ed., en hins vegar hefur meiri hl. þeirrar hv. n. sannarlega ekki talið eftir sér að herða endurgreiðslukjör.

Samkv. frv., eins og það nú er, munu milli 70 og 90% af lánunum skila sér aftur í fullu raungildi. Þrátt fyrir þetta stendur enn eftir í frv. þetta orðalag: „stefnt skal að“, og engin fyrirheit gefin um fulla brúun umframfjárþarfar enda þótt það væri höfuðkrafa námsmanna, eins og ég tók fram áðan. Það fer ekki á milli mála að í þessum efnum sýnir Alþ., ef frv. þetta verður að lögum, furðulega ósvífni í garð námsmanna. Námsmenn komu sjálfir fram með ábyrgar og sanngjarnar till., og ég hef trú á því að unnt hefði verið að ná góðu samkomulagi við námsmenn ef ríkisvaldið hefði sýnt samstarfsvilja. En það hefur ekki gerst. Endurgreiðslukjör eins og frv. gerir ráð fyrir eru með þeim hætti að námsfólki verða eftirleiðis boðin lán með langtum lakari kjörum en gerist hjá bönkum, fjárfestingarsjóðum eða yfirleitt nokkurri annarri innlendri lánastofnun.

Nú er það svo, eins og hæstv. menntmrh. tók fram áðan, að lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna hafa hingað til fremur verið styrkir en lán. Hafa allir verið sammála um að gera yrði ráðstafanir til þess að sjóðurinn eyddist ekki í verðbólgubáli. Efling sjóðsins var því nauðsynleg, bæði til þess að lánakerfið gæti náð til fleiri námsmanna og til þess að umframfjárþörf yrði brúuð og svo til þess að spara ríkinu þá fjármuni sem lagðir hafa verið til þessa sjóðs. En fyrr má nú rota en dauðrota. Hingað til hafa lánin skilað sér að verðgildi 7% til baka, en nú er ætlunin að milli 70 og 90% af lánunum skili sér aftur í fullu raungildi. Það liggur í augum uppi að þessi lán verða svo óhagstæð, að þeir einir, sem eiga von á hálaunastörfum, munu treysta sér til að taka þau; en hundruð námsmanna, sem eiga eftir að ganga inn í störf sem metin eru til meðaltekna eða lágtekna, munu ekki treysta sér til að taka þessi lán. Þessi hópur fólks mun því standa í sömu sporum og námsfólk almennt stóð áður en Lánasjóðurinn var stofnaður. Ef fólkið gefst ekki hreinlega upp við nám hlýtur það að tefjast vegna þess að það tekur frekar þann kostinn að vinna með námi en taka óhagstæðustu lán sem um getur á Íslandi. Hér er um svo hörmulega afturför að ræða að það er nánast ótrúlegt að það skuli vera knúið fram á hv. Alþ. Ef frv. þetta verður að lögum mun það auka verulega misréttið í þjóðfélaginu, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, og þá munum við fjarlægjast verulega það mark að skapa jafnrétti til náms.

Það er frá mínu sjónarmiði ekkert óeðlilegt þótt hátekjumönnum sé gert að endurgreiða námslán með verðtryggingu. Það er líka skoðun námsmanna sjálfra. En það hefur hins vegar verið algert skilyrði af þeirra hálfu að væru lánakjörin hert með verðtryggingu, þá yrðu skýr mörk dregin milli þeirra, sem lenda í hópi hálaunamanna, og hinna, sem ekki njóta efnahagslegra ávinninga af námi sínu. Það er því misskilningur, sem stundum hefur verið haldið fram, að námsmenn hafi fallist á verðtryggingu. Þeir hafa fallist á verðtryggingu eingöngu gagnvart hátekjumönnum og alltaf lagt áherslu á að lágtekjumönnum og fólki með miðlungstekjur verði hlíft. Lágmarksendurgreiðsla í formi fastrar upphæðar, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, með fullri verðtryggingu mun koma harðast niður á þeim sem lægstu launin hafa og skemmstan námstíma eiga að baki. Það er ekki nema að hálfu leyti rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að endurgreiðslur væru miðaðar við efnahag. Það gildir eingöngu um aukaafborganir, en alls ekki um þessar lágmarksendurgreiðslur sem eru 40 þús. kr. samkv. frv. eftir meðferð Ed. Sú upphæð á enn fremur að hækka árlega í samræmi við breytingar á framfærsluvísitölu. Upplýst er af Þjóðhagsstofnun að sé miðað við meðallán í þeirri úthlutun, sem nú er nýlokið, mun þessi fasta lágmarksendurgreiðsla skila sjóðnum 62% af raungildi veittra lána. Þegar aukaafborganir bætast við má búast við að 80–90% lánanna skili sér aftur.

Till. kjarabaráttunefndar námsmanna, þar sem endurgreiðsla er miðuð við efnahag fólks að loknu námi, er mér fyllilega að skapi. En til þess að reyna samkomulag til hins ítrasta mun ég taka upp till. minni hl. menntmn. Ed. í trausti þess að stjórnarsinnar í þessari hv. d. sjái betur en meiri hl. hv. Ed. hvílíkt ranglæti er verið að fremja ef þetta verður samþ.

Aths. við aðrar gr. mun ég geyma mér þar til menntmn. hefur fjallað um þetta og gera þeim betur skil við 2. umr., en ég get þó að sinni ekki stillt mig um að benda á 11. gr. og það sem í henni felst. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námslána skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga.“

Þetta er svo furðulegt ákvæði að mann rekur í rogastans þegar maður les það í frv., og enn furðulegra er að hv. Ed. skyldi ekki hafa breytt þessu. Þeir, sem samþykkja þetta ákvæði, það er engu líkara en þeir geri ráð fyrir því að hér sé ekki við fólk að eiga, heldur glæpamenn sem eigi nú að herða að hvað sem það kostar. Þetta þýðir að ef lánþegi getur af einhverjum ástæðum ekki borgað í eitt eða tvö skipti, þá er öll skuldin fallin í gjalddaga. Þetta eru svo harðir kostir að með ólíkindum er. Hér er að mínu viti sjálfsagt að beita svipuðum reglum og beitt er við álagningu skatta. Ef menn geta ekki staðið í skilum með skatta er talið nægilegt að leggja dráttarvexti á það sem áfallið er. Ætti slíkt fyrirkomulag að vera sjóðnum alveg nægileg trygging.

Herra forseti. Ég hef bent á þau atriði, sem ég tel alvarlegust og fráleitust í þessu frv., og mun gera nánari grein fyrir afstöðu minni við 2. umr.