13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4193 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get verið stuttorð. Það kom fram í máli hv. 9. þm. Reykv. áðan að formaður þingflokks Alþb. hefði gert samkomulag um að þm. flokksins tækju ekki framar til máls um z-frv. ef kvöldfundur yrði ekki haldinn í gærkvöld. (GÞG: Mundu ekki beita málþófi.) Ég veit ekki — það kann vel að vera að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hafi notað þetta orðalag og sjálfsagt er það rétt, en ég geri hans orð ekki að mínum. Það, sem í þessu felst, er að hann fullyrðir að formaður þingflokks Alþb. hafi lofað því að við mundum takmarka ræðutíma okkar ef við tækjum til máls um z-frv. Er fullnægjandi fyrir hv. 9. þm. Reykv. að taka svo til orða? — Þetta er öldungis rangt hjá hv. 9. þm. Reykv. Ekkert slíkt loforð var gefið, og mér er ekki kunnugt um að það hafi einu sinni komið til tals varðandi samkomulag um að kvöldfundur yrði ekki haldinn í gærkvöld.

Ástæðan til að þess var farið á leit að kvöldfundur yrði ekki í gærkvöld var einfaldlega útvarpsumr. Það var búið að ákveða fund í d. í dag, og það var því augljóst að þeir, sem áttu að taka þátt í þessum útvarpsumr., höfðu engan annan tíma til undirbúnings en kvöldið í gærkvöld. Hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, formaður þingflokks Alþb., bauð að í staðinn skyldi þingflokkur Alþb. fallast á kvöldfund á föstudagskvöldið. En þingflokkur Sjálfstfl. hafnaði því, hann þyrfti allur í heild að sitja veislu. Þetta er meginástæðan fyrir því að ekki verður fundur á föstudagskvöld. Það á hins vegar að knýja fram næturfund núna um þmfrv. Gylfa Þ. Gíslasonar o.fl. Auðvitað er þessi ringulreið, sem hér hefur borið á góma utan dagskrár, vegna þess hversu mjög hefur verið knúið á um þetta frv., knúið fram með afbrigðum til 3. umr., varið til þess þegar einum næturfundi og tveim eftirmiðdögum að hál.u. Það liggur í augum uppi að það er rétt sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði hér áðan að þetta hlýtur að koma niður á þeim frv. ríkisstj. sem hún hefur lagt áherslu á, að næðu fram að ganga. Og það er ekki vegna þess að stjórnarandstaðan sé að bregða fæti fyrir þau, heldur einfaldlega er það takmörkum háð hverju þm. geta unnið að fram á þriðjudagskvöld. En á þriðjudagskvöld hefur forsrh. farið þess á leit að yrðu þingslit.

Ég held, hæstv. forseti, að ég hafi gert rækilega grein fyrir því að frestun kvöldfundarins í gærkvöld var vegna þess að menn þurftu tíma til að undirbúa sig fyrir útvarpsumr. og fyrirsjáanlegt var að þeir höfðu ekki þennan eftirmiðdag til þess. Þingflokkur Alþb. bauð enn fremur fund á föstudagskvöldið en vegna veisluhalda gat þingflokkur Sjálfstfl. ekki sótt þingfund þá.

Ég vil að lokum lýsa því yfir að mér finnst mjög ósæmilegt að hv. 9. þm. Reykv. skyldi gefa svona villandi upplýsingar og beinlínis rangar þegar hvorki hv. þm. Lúðvík Jósepsson var við né heldur hv. þm. Magnús T. Ólafsson. Ég sé að hv. þm. Magnús T. Ólafsson er kominn í salinn, en ég treysti því fyllilega að hv. 2. þm. Austurl. muni staðfesta það sem ég hef nú sagt.