13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3597)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Aths. skal vissulega vera örstutt. Ég vil aðeins taka það fram að ég heyrði og tók þátt í samtali hæstv. forseta og formanns þingflokks Alþb. varðandi ósk hans um að fundir yrðu ekki í gærkvöld, heyrði hann í því sambandi segja að það væri ekki gert í því skyni að tefja framgang frv. um stafsetningu og af hálfu Alþb. mundi ekki verða beitt málþófi í málinu. Það taldi ég drengilega mælt af hans hálfu, sérstaklega vegna þess að af hálfu málsvara SF er verið að beita málþófi í málinu.

Ég vil einnig leiðrétta þann skilning hv. þm. Karvels Pálmasonar að í framhaldi af því að hann gat um stuttan þingferil sinn, þá sagði ég í mínum fáu orðum áðan að á 30 ára þingferli mínum hefur það örsjaldan gerst, — ég sagði ekki aldrei, auðvitað hefur það gerst — örsjaldan gerst — að gerðar hafi verið tilraunir til að beita málþófi til að koma í veg fyrir framgang þingmáls með eðlilegum hætti.

Að síðustu vil ég segja að ég held að hv. þm. Karvel Pálmason hefði ekki átt að nefna síðasta dæmið um þetta sem var afgreiðsla grunnskólafrv. fyrir nokkrum árum. Þetta var eitt merkasta frv. sem fyrrv. hæstv. menntmrh. flutti. Það kom til lokaafgreiðslu á síðustu dögum þingsins og hæstv. ráðh. hafði ekki meiri hl. í stjórnarflokkunum fyrir samþykkt frv. Það þurfti aðstoð Alþfl. til að frv. næði samþykki, og sú aðstoð var fúslega veitt. Þessa mættu þessir hv. þm. gjarnan minnast í sambandi við afgreiðslu þessa máls.