13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3598)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Hvernig stendur á því að þegar ég bið í fyrsta skipti um orðið, þá skuli vera tekið fram að ég geri örstutta aths.. Að sínu leyti skal ég þó fara að þessu. En ég vil geta þess út af því, sem hv. þm. Karvel Pálmason vitnaði til, að ég hefði málþófi beitt á sínum tíma, þá var það nú ekki — og hann hefur fylgst illa með ef hann hefur ekki tekið eftir því — vegna grunnskólafrv. sem hv. þm. Magnús Torfi hirti upp úr öskutunnu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar og gerði að sínu frv. Það var út af allt öðru máli. Það var út af þeirri framferð að vinstri stjórnin fyrrv. neitaði að taka til umr. áskorun um vantraust sem 31 hv. þm. hafði þá skrifað undir. Þetta var aðalinntakið. Að vísu þurfti ég að ræða skólalöggjöfina í bland, eins og menn muna, og gera úttekt á henni, sér í lagi af því að ég hef komist að því að grunnskólalögin höfðu að mestu verið samin upp úr pésum sem gefnir voru út í Svíþjóð fyrir 25 árum og hétu „Gott at veta om grunnskolan, bra at veta om grunnskolan“. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að fara ekki að ræða um grunnskólafrv.) Ég kann þessu vel, að hér verði málþóf nokkurt um þetta mál, og sýnir betur og í sjónhendingu hversu þetta snertir menn innilega, og eftir þetta allt skoðun mína á því að hér þurfa menn að leggjast djúpt og fá nógan tíma til þess að ræða þetta vandamál sem er íslensk tunga og ritun hennar, og mun ekki verða sparaður tíminn. Enda þótt hæstv. forsrh. hafi nefnt í framhjáhlaupi að hann óskaði þess að það yrði þriðjudagur, lokadagurinn, þá kann að líða vikan svo, ef menn þurfa á því að halda, til þess að útlista bæði á íslensku og latínu innihald og þýðingu hinnar íslensku tungu.

Menn hafa rætt um að hér væri farið fram með hinu mesta offorsi og lastað þann framgang. Hv. þm. Magnús Torfi, hinn kurteisasti maður, sagði, að þetta væru næstum því myrkraverk, og óskaði eftir því eitt kvöld að málið yrði tekið fyrir í dagsbirtu. (Forseti hringir.) Og skekur nú enn forseti skellu að mér sem hef ekki talað hér um langa hríð í þessum máli, og þykir mér hart við að búa. En ég skal verða við þessari áminningu og ljúka máli mínu.

Við hv. þm. Svövu Jakobsdóttur vil ég segja þetta, að ég skil ekki turnan hennar í stafsetningarmáli, af því að ég fæ alls ekki séð hvaða fjárhagslegan ávinning hún getur af því haft. En svo skal hún spyrja hv. þm. Lúðvík Jósepsson að því hvað fór okkar í milli um það, þegar ég beitti mér fyrir því eftir neitun hæstv. forseta og virðulegs um að hafa ekki kvöldfund í gær og hæstv. forsrh., þegar ég fékk því framgengt. Nú þarf hún að taka upp ný sambönd við hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, að ganga úr skugga um það um hvað var samið og talað, því að mig væntir að hún muni engu ráða um framhaldið ef hann talar þá það sem hann talaði við mig á liðnum degi. En vissulega mun verða gefinn, gnægur tími til þess að ræða hið þýðingarmesta mál sem hér hefur borið á góma, sem er íslensk stafsetning. Enginn ætlar að draga úr því að mönnum gefist kostur á að útiista sitt mál þann veginn að við komumst að réttlegri niðurstöðu í framhaldi af því sem þing hefur áður gert tvívegis ályktanir þar um, bæði varðandi z og ályktun um að ríkisstj. sjálf semji frv. til l. um íslenska stafsetningu, hvað hún hefur ekki gert og við nokkrir þm. tókum af henni ómakið um. Ekki mun til þess draga að sparaður verði við þá tíminn þótt til loka sauðburðar standi.