13.11.1975
Sameinað þing: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það voru ekki sérlega þungvægar aths., sem fram voru fluttar af hv. þm. talsmönnum Sjálfstfl., þm. Guðmundi H. Garðarssyni og Albert Guðmundssyni. Hv. þm. Albert Guðmundsson ræddi einkum um atvinnufyrirtækin sem máttarstólpa þjóðfélagsins, og sá ég ekki að það væri í sjálfu sér neitt gilt svar við þeirri till., sem ég hef hér lagt fram. Hann hafði reyndar ekki miklar aths. við hana að gera að svo stöddu, vefengdi fátt sem þar stendur, en hélt því þó fram að það væri rangt að flest atvinnufyrirtæki væru byggð upp fyrir lánsfé. Hér er að sjálfsögðu erfitt að leggja sönnunargögn á borðið. En ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á, að ekkert fyrirtæki í sjávarútvegi er í dag byggt upp án þess að meiri hl. fjárfestingarinnar og það mikill meiri hl. sé fenginn fyrir lánsfé. Ekkert fyrirtæki í fiskiðnaði er í dag byggt upp án þess að meiri hl. og það mikill meiri hl. sé fenginn fyrir lánsfé. Ég þori að fullyrða að mikill meiri hl. iðnfyrirtækja, sem reist eru hér á landi, er byggður að meiri hl. fyrir lánsfé. Þá eru að vísu eftir allmörg önnur fyrirtæki, en þetta eru samt sem áður þrír stærstu flokkar fyrirtækja hér á landi og því mjög líklegt að þessi orð mín nægi til þess að færa rök fyrir þeirri staðhæfingu minni að flest fyrirtæki séu byggð upp fyrir lánsfé. Það má að sjálfsögðu nefna fyrirtæki, sem ekki eru byggð upp fyrir lánsfé, og það eru þá einkum ýmis verslunarfyrirtæki, vegna þess að verslunin býr ekki yfir miklum stofnfjársjóðum. En sú fullyrðing mín að þetta gildi um meiri hl. fyrirtækja er áreiðanlega rétt.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hélt því fram, að forsendur þessarar till. væru gallaðar og niðurstöður hennar ýktar. En hann gerði ekki hina minnstu tilraun til þess að vefengja eitt einasta atriði sem í till. stendur. Hann hélt því reyndar fram að í till. væri aðallega fjallað um skattsvik. Þótti mér koma úr hörðustu átt að þessi hv. þm. skyldi halda hér fram að annar þeirra, sem í ræðustólinn komu á undan honum, talaði um þetta mál af einhverri vanþekkingu, því að það var bersýnilegt að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafði ekki hugmynd um hvað till. fjallar um. Hún fjallar ekki fyrst og fremst um skattsvik. Það er hinn mesti misskilningur. Það er einmitt skýrt fram tekið, bæði í grg. og í framsöguræðu með till., að hím fjallar um breytingar á lögleyfðum leiðum til undandráttar frá skatti. Þetta er því stórkostlegur misskilningur frá upphafi til enda hjá hv. þm. — Ef hann hefur ekki heyrt það sem ég var að segja, þá var ég einfaldlega að segja að till., sem hér um ræðir, fjallar alls ekki um skattsvik fyrirtækja, — alls ekki, það er mesti misskilningur. (Gripið fram í.) Já, það hlýtur hins vegar að byggjast á því að hv. þm. hefur alls ekki lesið till. eða hlustað á þá ræðu, sem hér var flutt áðan, og er því kannske ekki heppilegasti maðurinn til að áfellast aðra fyrir að vera ókunnugir þessum málum.

Það eina, sem fram kom hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, var að hann nefndi dæmi þess, að um væri að ræða fyrirtæki sem ekki væru rekin með það í huga að þau skiluðu miklum hagnaði, og átti þá við að um væri að ræða þess háttar móðurfyrirtæki sem fyrst og fremst væru rekin í þágu fyrirtækja sem að þeim stæðu. Þetta er út af fyrir sig rétt. En ég vona, að allir hv. þm. skilji að þegar gerður er listi þar sem tekin eru öll félög, sem ekki greiða tekjuskatt á árinu 1975 og hafa yfir ákveðna lágmarksveltu, þá er ekki hægt að fara að fella úr eitt og eitt fyrirtæki sem menn gætu hugsanlega haldið fram að ekki væri alveg nákvæmlega eins ástatt um og önnur fyrirtæki á listanum. Það verður að sjálfsögðu að taka öll fyrirtækin með. En varðandi það atriði, að það sé óeðlilegt að reikna með því að þessi ákveðnu fyrirtæki, sem hann nefndi, borgi tekjuskatt, þá vil ég nefna það hér að ég þori að fullyrða það, þótt ég hafi að vísu ekki skattskrá 1974 fyrir framan mig, en ég þori að fullyrða það að þau fyrirtæki, sem hann nefndi, borguðu tekjuskatt á árinu 1974, þó að þau geri það ekki nú. Það er því ljóst að þau hafa tekjur og geta haft miklar tekjur og hafa greinilega a. m. k. á s. l. ári greitt skatt af þeim.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar aths. Þær voru nánast eins fátæklegar og hugsast gat. Ég verð bara að lýsa vonbrigðum mínum með að einn af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar hér á landi, einn af þeim sem á að heita að sé í fyrirsvari fyrir láglaunastéttirnar, hann skuli telja það skyldu sína að koma hér upp í ræðustól til að grípa til varnar fyrir það hneyksli að yfir 400 fyrirtæki í Reykjavík greiða engan tekjuskatt á þessu ári. Hann veit það að sjálfsögðu jafnvel og aðrir að ef þessi fyrirtæki hefðu ekki haft allar þessar lagaheimildir til þess að komast hjá skattgreiðslum, þá væri fjárhagur ríkissjóðs með allt öðrum hætti og ekki hægt að færa nein rök fyrir þeim síauknu skattaálögum sem ríkisstj. stendur nú fyrir, t. d. stórfelldri söluskattshækkun á undanförnum 12 mánuðum eða síðan hún kom til valda. Ég verð sem sagt að segja það, að mér finnst hörmulegt til þess að vita að hv. þm., einmitt hann, sem átti að heita í fyrirsvari fyrir láglaunafólk, skyldi telja það skyldu sína að grípa hér til varnar fyrir atvinnurekstur sem kemst undan því að borga tekjuskatt.