13.05.1976
Neðri deild: 108. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4211 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

261. mál, laun starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til að lögbundin þóknun til innheimtumanna ríkissjóðs fyrir innheimtu ríkissjóðstekna verði felld niður, en þeim verði þess í stað ákveðin laun fyrir þessi störf með reglugerð. Er efni frv. þessa hliðstætt 3. mgr. 7. gr. frv. til l. um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er nú liggur fyrir þinginu. Þeir innheimtumenn, sem frv. þetta nær til, eru bæjarfógetar, sýslumenn, lögreglustjórarnir í Reykjavík, á Keflavíkurflugvelli, í Hafnarhreppi, tollstjórinn, yfirborgardómarinn, yfirborgarfógetinn og yfirsakadómarinn í Reykjavík. Núverandi skipan á greiðslum fyrri innheimtu er sú að innheimtumenn fá ákveðinn hundraðshluta af því sem þeir innheimta og fer hann stiglækkandi eftir því sem upphæðirnar eru hærri. Þannig greiðast nú t.d. 1% innheimtulaun fyrir fyrstu 200 þús. kr. sem innheimtar eru, en 1/40/00 af því sem innheimtist umfram 10 millj. kr. Samkv. núgildandi reglum eru innheimtulaun hins vegar á engan hátt miðuð við það hversu mikið fé innheimtumenn hafa til innheimtu eða hversu háan hundraðshluta af því fé tekst að innheimta. Innheimti tveir innheimtumenn því jafnmargar krónur fá þeir nú jafnhá innheimtulaun enda þótt annar þeirra hafi innheimt allt það sem til innheimtu var hjá honum, en hinum hafi aðeins tekist að innheimta helming af því sem á var lagt í hans umdæmi. Laun innheimtumanna hafa því fram að þessu ráðist af því hversu stór umdæmi þeirra eru, en hlutfallslegur árangur við innheimtuna hefur ekki verið metinn sem skyldi. Hafa innheimtumenn í stærstu umdæmunum því haft óeðlilega mikil innheimtulaun, en innheimtumenn í hinum smærri hafa lítið borið úr býtum, enda þótt þeir næðu mjög góðum árangri við innheimtu.

Með bréfi, dags. 27. okt. 1971, skipaði þáv. fjmrh. n. til að gera till. um breytt fyrirkomulag á greiðslu aukatekna sýslumanna, bæjarfógeta og sambærilegra embættismanna. Nm. voru þeir Baldur Möller ráðuneytisstjóri, Björn Fr. Björnsson sýslumaður, Björn Hermannsson, nú tollstjóri, og Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti. Skilaði n. till. sínum 19. júní 1972 og gerði till. um allróttækar breytingar á núv. aukatekjureglum. Till. n. miðuðu að því að gera innheimtulaunakerfið að hvata til bætts innheimtuárangurs jafnframt því að jafna hlut innheimtumanna frá því sem verið hefur. Þykir eðlilegt að nýjar reglur um innheimtulaun þessara embættismanna verði settar með reglugerð. Bæði er það í samræmi við 3. mgr. 7. gr. frv. um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og eins í samræmi við það að föst laun sýslumanna eru nú ákveðin einhliða af ráðh. í samræmi við ákvæði 2. mgr. 4. gr. l. nr. 46/1973. Virðist því eðlilegt að ákvörðunarvald um önnur kjör þeirra verði einnig í höndum ráðh. svo að unnt sé að ná heildarsamræmi við ákvörðun kjara þessa hóps ríkisstarfsmanna.

Þau meginatriði sem taka verður tillit til við setningu reglugerðar um aukatekjur innheimtumanna ríkissjóðs, eru annars vegar að útgjöld ríkissjóðs vegna greiðslna innheimtulauna aukist ekki frá því sem nú er og hins vegar að innheimtulaunin verði innheimtumönnum virkur hvati til bætts innheimtuárangurs, en því marki má ná með því að tengja fjárhæð innheimtulauna þeim hundraðshluta af álögðum gjöldum sem innheimtist árlega hjá hverjum manni. Þá er eðlilegt að stefna að því með reglugerðinni að mest sé greitt fyrir þau gjöld sem erfiðust eru í innheimtu, en minna og jafnvel ekkert fyrir hin auðveldustu þeirra, t.d. eins og tolla.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.