13.05.1976
Neðri deild: 109. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4213 í B-deild Alþingistíðinda. (3623)

115. mál, íslensk stafsetning

Frsm. minni hl. (Magnús T. Ólafsson) [frh.]:

Hæstv. forseti. Svo þénanlega stóð á í máli mínu þegar ég gerði síðast málhvíld að ég var kominn að kaflaskilum og þarf því ekki að rekja til neinnar hlítar né endurtaka það, sem ég hafði áður sagt, til þess að þræði sleppi ekki í þessu máli. (Gripið fram í. — Forseti: Ég bið hv. þm. að gera svo vel að taka ekki fram í fyrir ræðumanni.) Ég hafði lesið bréf formanns stafsetningarnefndar með till. þeirra nm. (SvH: Hvaða nm.?) í stafsetningarnefnd (SvH: Í hvaða stafsetningarnefnd?) að gerð yrði sú breyting þegar á stafsetningu að tilkynnt væri að numin væri brott skylda til að kenna z í skólum. Þetta bréf varð til þess að þetta mál var tekið til sérstakrar athugunar og afgreiðslu. (Gripið fram í.) Getur hæstv. forseti tryggt mér málfrið? (Forseti; Ég vil vekja athygli hv. þdm. á því að skylt er þdm. að lúta fyrirmælum forseta í hvívetna um reglu á fundinum.) Þetta bréf stafsetningarnefndar, sem ég las í lok máls míns í síðasta kafla þessarar tölu, fjallaði, eins og ég sagði, um að tekin yrði þegar afstaða til þessarar till. n. að fella niður z úr gildandi stafsetningu. Eftir athugun þessa máls var við þessari till. orðið og gefin út sú auglýsing um afnám z í íslensku ritmáli sem mjög hefur orðið um rædd síðan. En vegna þess að það hafa komið fram aðdróttanir um það að þessi till. n. um afnám z úr íslensku ritmáli hafi verið eftir pöntun frá mér, þá vil ég taka það skýrt fram að hvorki þetta atriði stafsetningar né önnur ræddi ég við einstaka nm.n. alla, heldur fékk hún erindisbréf þar sem hlutverk hennar var fyrst og fremst skilgreint þannig að hún skyldi athuga þær stafsetningarbreytingar sem helst horfðu til einföldunar (SvH: Hvaða n. var þetta?) og samræmingar á íslenskum stafsetningarreglum.

Síðan má nú fara nokkuð fljótt yfir sögu því að það hefur áður borið á góma í þessum umr. í hv. d. að nokkrir þm. urðu til þess að bera fram þáltill. um að hnekkt skyldi þessari ákvörðun um afnám z. Hún hlaut hér meðferð og var að lokum samþykkt, eins og áður hefur verið rakið, með eins atkv. mun og úrslitum réð að hún hlaut slíkt samþykki, en féll ekki á jöfnum atkv., að einn hv. þáv. þm. gerði þá grein fyrir hjásetu sinni við atkvgr. að hann vildi með henni sýna að þingheimur ætti að fjalla um önnur verkefni en stafsetningu, hún væri illa fallin til meðferðar á hv. Alþ. Ég hafði lýst þeirri afstöðu minni skýrt og skorinort áður en atkvgr. fór fram að þar sem þál. væru ekki bindandi og það væri óumdeilt að hingað til hefði stafsetningarmálum ævinlega verið skipað með reglugerð ráðh., eins og ég hafði gert, þá gæti ég ekki tekið tillit til afgreiðslu á þessari þáltill. við þessa stafsetningarákvörðun né aðrar.

Síðan leið fram til vors 1974 að fram kom frá stafsetningarnefnd álitgerð hennar, allmikið rit, þar sem fjallað var um fjölmörg stafsetningaratriði. Voru þau tekin til athugunar og síðan afgreidd með auglýsingu þeirri um íslenska stafsetningu sem menntmrn. gaf út og ber töluna nr. 132 frá 3. maí 1974.

Var nú enn kyrrt um hríð þangað til það gerist að menntmrh.- skipti verða, og þá hefst undirskriftasöfnun sú sem prófessor Þórhallur Vilmundarson beitti sér fyrir og ég hef áður lýst í fyrri köflum þessarar ræðu og reyndar vikið að í öðrum tölum um þetta mál. Þar kemur svo að þetta mál er flutt á ný inn í þingsalinn og þá í nýrri mynd, sem ég ætla ekki að rekja heldur, og síðan hafa umr. og deilur um þetta efni staðið af og til þangað til nú hefur orðið önnur langvinn hríð skömmu fyrir þinglausnir á þessu vori.

Áður en lengra er haldið vil ég taka skýrt fram að ég veit ekki til að á það hafi verið bornar brigður að ákvarðanir mínar, sem teknar voru um stafsetningarefni í tvennu lagi, haustið 1973 og vorið 1974, hafi verið í fyllsta samræmi við þær venjur og reglur sem gilt höfðu frá því að tekið var að skipa íslenskri stafsetningu með opinberum gerningum. Það hefur enginn, svo að ég viti, með neinum rökum reynt að vefengja að þar hafi verið rétt að verki staðið eftir þeim reglum fyrst og fremst hefðarreglum, sem komist höfðu á. Hefði því mátt ætla að svipaður friður yrði a.m.k. fyrst í stað um þessa ákvörðun eins og varð á opinberum vettvangi, — ég á við af hálfu alþm. og annarra opinberra aðila, eftir þá ákvörðun sem tekin var 1929 þegar næst áður voru settar stafsetningarreglur. En það reyndist öðru nær. Upp risu nokkrir áhugamenn um að ánýta það sem gert hafði verið til að breyta stafsetningunni frá 1929. (Forseti: Ég vil skýra hv. ræðumanni frá því, að ég hef fengið mjög eindregin tilmæli um að gefið verði örlítið kaffihlé vegna þeirra sem þurft hafa að sitja hér fund í kvöld, og ég sé mér ekki annað fært en verða við því og verður gefið hlé til 23.30 svo að hv. þm. fær enn nokkra málhvíld.) Ég mótmæli því, hæstv: forseti, að mál mitt sé rofið á þennan hátt. Þeir, sem eru kaffiþyrstir, geta gjarnan slökkt þorsta sinn þó ég tali. (Forseti: Já, þetta var hugsað ekki síst með tilliti til hv. þm. sem tók hér einnig þátt í umr. í kvöld, en fyrst hann sjálfur vill ekki notfæra sér það hlé, þá mun hann fá að halda áfram máli sínu og ég mun ekki finna að því þótt að þm. taki sér örlítið kaffihlé aðrir.) Ég þakka þessa einstæðu tillitssemi.

En þar var ég síðast að fjalla um stafsetningarmál, en ekki kaffidrykkju, sem virðist ofarlega í huga sumra manna hér, að ég var að víkja að því að upp risu sérstakir áhugamenn um að vega að þeim stafsetningarbreytingum sem ég hafði undirskrifað í tvö skipti. Sérstaklega hafa tveir hv. þm., hv. 3. þm. Austurl. og hv. 9. þm. Reykv., beitt sér mjög í þessu máli. Ég vissi auðvitað frá fyrra fari að hv. 3. þm. Austurl. var mjög óánægður með þá breytingu sem átti sér stað með auglýsingunni um að nema brott z úr ritmáli. En það var ekki fyrr en nokkru siðar að ég komst að raun um að a.m.k. jafnbrennandi áhugi bærðist í brjósti hv. 9. þm. Reykv. fyrir því að hnekkja þeim ákvörðunum sem teknar höfðu verið um breytingar á stafsetningunni frá 1929. En ég furða mig satt að segja á því að hv. 9. þm. Reykv. skuli svo mjög hafa gengið fram fyrir skjöldu í þessu máli, vegna þess að ég veit með vissu að hann, sem var fyrirrennari minn í embætti menntmrh., hugleiddi, ég held a.m.k. tvívegis, hvort rétt væri að gera stafsetningarbreytingar. Að vísu hvarf hann ekki að því ráði, en tvímælalaust sýndu verk hans þá að hann var sannfærður um að menntmrh. hefði að hefð og venju fullan rétt til þess að breyta stafsetningunni frá 1929, þó hann sjái nú ekki sólina fyrir henni og vilji festa hana í lög. En samkvæmni hefur nú aldrei verið eitt af einkennum þess hæfileikamikla þingmanns.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á það, að um hefur verið að ræða samtök harðsnúins hóps sem hefur einsett sér að reyna að hrinda þeim stafsetningarbreytingum sem ég gerði. Ég skal ekki segja hvað fyrir hverjum og einum vakir. Ég skil langbest og hef fengið greinarbest rök fyrir afstöðu hv. 3. þm. Austurl., enda hefur hann aldrei farið í neina launkofa með sína afstöðu. En þegar ég hafði fyrir nokkru látið af menntmrh.embætti og annar maður var kominn í það sæti, þá kemur allt í einu fram í dagsljósið undirskriftaskjal 100 manna, sem hér hefur áður verið lýst, manna af ýmsum starfsgreinum og ekki nema lítill hluti þeirra sérstaklega til fallinn vegna starfs eða menntunar að fjalla af sérþekkingu um stafsetningarmál, og lýstu yfir algerri andstöðu við þær stafsetningarbreytingar, sem ég hafði gert, og skoruðu á eftirmann minn að nema þær hið skjótasta úr gildi.

Nú brá svo við að á þessum lista var fjöldi manna sem ég hafði í menntmrh.- tíð minni mjög náin samskipti við og áttu til mín erindi oft og tíðum vegna starfa sinna eða stofnana sem þeir stjórna. Og mér er eiður sær að nokkur þessara manna hafi nokkru sinni í öll þau mörgu skipti sem víð hittumst, hvort heldur var embættislega eða sem kunningjar, ýjað að því að fá mig til þess að hætta við til að mynda niðurfellingu z eða aðrar þær stafsetningarbreytingar sem þessir menn eins og aðrir áttu að vita, eftir að erindisbréf stafsetningarnefndar var gefið út og tilkynning birt um að störf hennar væru hafin, að hlytu að koma til álita.

Ég geri engum manni upp hvatir í þessu efni, en því hefur verið haldið fram í grein í Morgunblaðinu s.l. sumar, þar sem fjallað var nokkuð um þetta mál, að einhverjir úr þessum hópi væru að reyna að koma höggi á Magnús Torfa. Ég hef auðvitað ætíð gert mér grein fyrir því að menn, sem hafa einhver afskipti af opinberum málum, hljóti að eignast óvildarmenn, og það er ekki endilega víst að þeir gefi sig beinlínis fram meðan slíkir menn eiga eitthvað undir sér. En þegar þeir hverfa úr áhrifastöðum, þá koma þeir gjarnan fram í dagsljósið og reyna að svala huga sínum. En ég geri engum þessara manna upp slíkar hvatir, mér dettur það ekki í hug, enda skil ég ekki hvernig það mætti ske að það ætti að koma einhverju sérstöku höggi á mig með því að hnekkja stafsetningarbreytingum sem ég undirritaði.

Nei, þeir, sem verið er að reyna að koma höggi á með þessu uppþoti gegn stafsetningarbreytingunum frá 1973 og 1974, eru þeir kennarar og málvísindamenn sem undirbjuggu þær breytingar, það eru þeir kennarar í skólum um allt land sem tóku þeim breytingum fagnandi, það eru þeir nemendur í skólunum í þúsundatali sem fannst að þeir væru leystir af klafa, sérstaklega þegar z-kennslunni var hætt. Þessi afstaða kom mjög skýrt í ljós þegar vorið 1974 í bréfi sem stjórn Sambands ísl. barnakennara sendi mér. Það er dags. 4. apríl 1974 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Sambands ísl. barnakennara leyfir sér hér með að vekja athygli yðar á eftirfarandi till. sem samþ. var á fundi stjórnarinnar 2. þ.m.:

Stjórn Sambands ísl. barnakennara beinir þeim eindregnum tilmælum til menntmrh. og Alþ. að halda fast við ákvörðunina um að fella z niður úr íslensku ritmáli. Rittákn þetta hefur alltaf verið óþarft í íslensku og engin málfræðileg rök hníga að notkun þess, eins og stafsetningarnefndin hefur sýnt fram á með ljósum rökum í grg. sinni. Stjórn Sambands ísl. barnakennara leggur áherslu á að gífurlega löngum tíma hefur verið eytt í að kenna z-reglurnar í efstu bekkjum skyldunámsins og í framhaldsskólunum, dýrmætum tíma sem þarfara hefði verið að verja til raunhæfs málnáms. Stafsetningin er ekki málið sjálft, heldur búningur þess í riti. Með því að einfalda stafsetninguna að skynsamlegu marki er verið að gefa kennurum tækifæri til þess að sinna betur málinu sjálfu og notkun þess.“

Undir bréfið ritar Ingi Kristinsson skólastjóri, formaður Sambands ísl. barnakennara.

Hér er látin í ljós í mjög stuttu og skýru máli afstaða heildarsamtaka íslenskra barnakennara. Og því lengra sem frá hefur liðið, því skýrar hefur komið í ljós að hér talar stjórn Sambands ísl. barnakennara svo sannarlega fyrir hönd yfirgnæfandi meiri hl. félagsmanna sinna, og svipuð er afstaða annarra kennarahópa eftir því sem mér er um kunnugt. Þess vegna var það all andkannalegt að ekki skyldi leitað álits slíkra samtaka og aðila frekar en gert var áður en í það var ráðist af flm. frv. á þskj. 140 að leggja til að kollvarpað væri stafsetningarbreytingunum og upp tekin á ný og lögfest stafsetningin frá 1929.

Þeir tala um það, forsvarsmenn þess frv., að þeir séu að vinna að því að varðveita festu í stafsetningarmálum og hindra glundroða. Þetta er algert öfugmæli. Miðað við meðferð stafsetningarmál í tímans rás hefði verið eðlilegt að sú stafsetning, sem ákveðin var með auglýsingum 1973 og 1974, fengi að reyna sig í skaplegan tíma eins og hinar fyrri sem settar voru 1918 og 1929. Sú frá 1929 hafði staðið í tæplega hálfa öld og hafði fengið tækifæri til að reyna sig, sýna hverja getu hún hefði til að festast í skólum og máli. Og það kom í ljós í afstöðu hinna reyndustu manna á þessu sviði, hinna fróðustu manna, málvísindamanna annars vegar og móðurmálskennara hins vegar, að þeir töldu að þessi tæplega fimm áratuga reynsla hefði sýnt að það væri borin von að z-stafsetningin næði þeirri festu, fengi þá útbreiðslu sem stafsetning þarf að hafa til þess að gegna hlutverki sínu eins og til er ætlast og eðli málsins krefst.

Það eru því fyrst og fremst frumkvöðlar upphlaupsins gegn stafsetningunni frá 1973 og 1974 sem eru að efna til glundroða. Það eru þeir sem hafa gert þetta að átakamáli. Það eru þeir sem eru með málatilbúnaði sínum að efna til ófriðar í skólunum, þar sem hin nýja stafsetning frá 1973 og 1974 hefur fengið hinar bestu undirtektir. Ég vil þessu máli mínu til sönnunar vitna í bréf sem hæstv. menntmrh. hefur látið dreifa hér til alþm. í dag. Það er bréf til hæstv. menntmrh. frá starfsmönnum skólarannsóknadeildar menntmrn. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna frv. til l. um íslenska stafsetningu, flutts af Gylfa Þ. Gíslasyni o.fl., sendum við undirritaðir starfsmenn skólarannsóknadeildar menntmrn. yður, herra menntmrh., eftirfarandi áskorun með ósk um að henni verði komið á framfæri við Alþ. og menntmn. þess:

Við undirritaðir skorum á Alþ. að fella frv. Gylfa Þ. Gíslasonar o.fl. um íslenska stafsetningu og færum eftirtalin rök fyrir þeirri áskorun. Samþykkt frv. mundi torvelda að unnt verði að ná þeim markmiðum sem móðurmálsnáminu eru sett samkv. námsskrá fyrir grunnskóla sem verið er að búa til prentunar, hafa alvarlegar félagslegar afleiðingar í för með sér og skapa óánægju og jafnvel glundroða í starfi skólanna, eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

Í námsskrá er áhersla lögð á að móðurmálsnám eigi fremur að vera fólgið í að efla málskilning og auðga málnotkun en að eyða tíma nemenda í þarflausa glímu við formsatriði. Eðlileg þróun stafsetningar felst í einföldun. Megineinkenni þeirra breytinga, sem gerðar voru á stafsetningu með auglýsingu frá menntmrn. frá 4. sept. 1973, var einföldun gerð að ráði n. er skipuð var sérfræðingum og kennurum. Meðan reynt var að kenna ritun z í skyldunámsskólum tókst aðeins litlum hluta nemenda að læra hana að gagni og miklum tíma og fjármunum var einnig eytt til einskis í þá kennslu í framhaldsskólum á kostnað þarfari viðfangsefna. Krafa um, að ritun z skuli kennd í skólum og z skuli notuð í kennslubókum og opinberum plöggum, felur því í sér kröfu um að skólar og opinberir aðilar stuðli að menntunarlegri stéttaskiptingu í landinu, skiptingu í minni hluta, sem kann hina opinberu stafsetningu, og meiri hluta, sem ýmist kann hana ekki eða kærir sig ekki um að nota hana. Lög, sem fela í sér að z skuli kennd í skólum, mundu dæma meiri hluta nemenda í skyldunámi til að tapa í glímu sinni við viðfangsefni sem þeir hvorki geta né vilja tileinka sér. Það kann að hindra útgáfu góðra námsbóka ef Alþ. samþykkir að skylda námsbókahöfunda og aðra, sem semja þau gögn sem gefin eru út á vegum ríkisins til að nota stafsetningu sem þeir telja úrelta og vilja ekki nota. Allar líkur eru á að á næstu árum fjölgi ört þeim höfundum sem ekki nota z, hvað sem lagasetningu á Alþ. líður, Það hlýtur einnig að valda óánægju og gæti valdið glundroða í starfi skólanna ef Alþ. samþykkir lög er fyrirskipa kennurum að kenna stafsetningu sem mörgum þeirra er þvert um geð að nota og þeir telja hafa skaðleg áhrif á árangur og áhuga nemenda sinna. Stefnt er að því í starfi grunnskóla að tekið verði sem mest tillit til þroska, áhugaefna og viðhorfa nemendanna. Lög, sem fela í sér að nemendum verði fyrirskipað að læra það sem þeir vilja ekki læra, geta skapað neikvæð viðhorf nemenda til skólastarfsins og skaðað eðlileg og ánægjuleg samskipti nemenda og kennara.

Reykjavík, 12. maí 1976.

Hörður Bergmann.

Baldur Ragnarsson.

Ólafur Snorrason.

Guðmundur Ingi Leifsson.

Kristin H. Tryggvadóttir.

Reynir Bjarnason.

Ingunn Tryggvadóttir.

Njáll Sigurðsson.

Hrólfur Kjartansson.

Ragnhildur Bjarnadóttir.

Anna Kristjánsdóttir.

Guðný Helgadóttir.

Elín Skarphéðinsdóttir.“

Þetta er starfsfólk skólarannsóknadeildar menntmrn., flest kennarar af yngri kynslóðinni sem tekist hafa á hendur það vandasama verkefni að endurnýja námsefni í skólum, hafa um það frumkvæði og umsjá að námsefni skólanna sé þannig úr garði gert að það sé bæði tímabært í samræmi við kröfur tímans og höfði sem beinast til áhuga nemenda og geri námið lífandi og árangursríkt.

Ég þarf í rauninni ekki að fjölyrða mjög um það efni sem í þessu bréfi felst. Það er svo skýr staðfesting sem hugsast getur á þeirri skoðun minni að verði að því ráði horfið að taka nú um lögboðna stafsetningu frá 1929 aftur, þá muni skapast í skólum landsins mjög erfitt og hættulegt ástand, hættulegt fyrir móðurmálsnámið, bæði í bráð og lengd. Og þeir alþm., sem stuðla að slíku, taka á sig þunga ábyrgð sem ég efast stórlega um að margir þeirra hafi gert sér ljóst hver er. Það eru þeir, sem vilja kollvarpa breytingum sem gilt hafa 2–3 kennsluár og hlotið furðugóðar undirtektir, miðað við það að nýjungar þurfa alltaf tíma til að festast, sem eru frumkvöðlar að glundroða í þessum efnum. Og það er grundvallarstaðreynd, sem aldrei má missa sjónar á, að stafsetningin er aldrei nema hluti af búningi ritaðs máls. Stafsetningin er ekki málið. Og í móðurmálskennslu er það illa farið ef torveld, torlærð og flókin stafsetning verður til þess að draga tíma og athygli nemenda og kennara frá meginþáttum móðurmálskennslunnar og móðurmálsþjálfunarinnar, notkun málsins, málskilningnum, orðaforðanum, þjálfun í beygingakerfinu og þeirri vitneskju sem nauðsynleg er um undirstöðuatriði hljóðkerfisins. Því miður hefur raunin orðið sú á því tímabili, sem z-stafsetningin gilti, að margt af þessu hefur orðið að þoka allt of mikið um set fyrir annars vegar stafsetningaratriðum og þá fyrst og fremst z, hins vegar afar flókinni og óhentugri greinarmerkjasetningu sem að vísu var aldrei fyrirskipuð á sama hátt og stafsetningin frá 1929, en viðhöfð var þó lengst af því tímabili sem sú stafsetning gilti. En þeim greinarmerkjareglum, sem þar voru viðhafðar, var gersamlega kollvarpað með þeim reglum sem settar voru með stafsetningarreglunum frá 1974.

Það hafa fleiri látið til sín heyra um þau efni, sem nú eru efst á baugi í hv. d., af málræktarmönnum heldur en kennarar í skólarannsóknadeild menntmrn. Ég er hér með í höndum bréf frá Árna Böðvarssyni cand. mag. sem ekki þarf að kynna fyrir neinum þeim sem einhverju lætur síg skipta íslenska tungu, málrækt og málnotkun með vönduðum hætti. Árni er eins og kunnugt er höfundur íslensku orðabókarinnar sem Menningarsjóður hefur gefið út. Hann kom á rekspöl þættinum um daglegt mál í Ríkisútvarpinu, einhverju besta málræktarstarfi sem unnið hefur verið um áraraðir hér á landi, og hann hefur í bréfi, dags. í gær og stíluðu til menntmn. Ed. Alþ., en sendu mér og fleirum í afriti, tjáð sig um þetta mál. Ég tel einsýnt að þetta ítarlega og eindregna bréf þessa ágæta málræktarmanns komi fyrir eyru alþm. Árni Böðvarsson segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir fréttum frá hinu háa Alþ. undanfarna daga að dæma virðist líklegt að frv. til l. um íslenska stafsetningu, þar sem lagt er svo fyrir að stafsetningarreglur frá 3. maí 1974 skuli niðurfelldar og m.a. tekin upp aftur z, komi nú alveg á næstunni til meðferðar í menntmn. Ed. Alþ. Í því sambandi tel ég mér rétt og skylt sem málfræðingi að vekja athygli hv. þn. á nokkrum atriðum sem ég er ekki viss um að komi nógu skýrt fram ella.

Stafsetningarbreytingarnar 1973–1974 horfðu flestar í þá átt að gera stafsetningarnám einfaldara, fljótlegra og þar með aðgengilegra þorra manna. Munaði þar mestu um niðurfellingu z sem í raun er að flestu leyti ekki annað en viðurkenning ritmáls á því sem gerðist í talmáli forfeðra okkar fyrir 1000–2000 árum. Nú hefur z-laus stafsetning verið kennd í skólum landsins í þrjá vetur. Í upphafi heyrðust nokkrar óánægjuraddir vegna afnáms z úr löggiltri stafsetningu, en ánægjuraddir nemenda og kennara voru þó miklu fleiri og fáar óánægjuraddir heyrast nú orðið, engar meðal nemenda. Ýmsum þeim, sem lagt hafa vinnu í að læra z-reglurnar til hlítar, finnst þeir hafa kastað þeirri vinnu sinni á glæ ef þeir eiga svo ekki að nota sér þessa kunnáttu og krefjast hennar af öðrum. Jafnvel er það til að mönnum finnist sem þeir séu sviptir íslenskukunnáttu ef þeir eiga ekki að skrifa að öllu leyti eftir stafsetningarreglum sem þeir hafa lært, svo sem að skrifa z eða tz, m.ö.o. mönnum finnst kunnátta í móðurmálinu vera að verulegum hluta kunnátta í gildandi ritreglum.

Þetta er háskalegur misskilningur. Ég varð fyrir þeirri reynslu, er ég annaðist útvarpsþætti um daglegt mál fyrir nokkrum árum, að aftur og aftur afsökuðu sumir ritfærustu bréfritararnir sig með því að þeir kynnu illa íslensku, þeir hefðu aldrei lært að skrifa z. Og þess verður oft vart að vel ritfært fólk þorir ekki að stinga niður penna af ótta við að verða sér til skammar vegna vankunnáttu í stafsetningu. Það veit að það kann ekki þá stafsetningu sem kennd er í skólum og íslenskueinkunn nemenda hefur of oft byggst að verulegu leyti á. Þetta vekur þann ugg að hætta sé á að annaðhvort spretti upp einhvers konar almúgastafsetning, þá trúlega ósamræmd samhliða löggiltri skólastafsetningu, eða öllu heldur að ritfært fólk leggi með öllu niður að skrifa ef stafsetning verður á ný gerð flóknari en hún hefur verið nú um þriggja ára skeið.

Ég hygg að öllum, sem til þekkja, sé vel ljóst að í skólum yrði veruleg andstaða gegn því að gera stafsetningu flóknari á ný með því að taka upp aftur z. Sú andstaða kæmi ekki aðeins frá nemendum sem sæju engan tilgang með þessu námi, heldur einnig frá öllum þorra kennara sem væru skyldaðir til þess að kenna notkun þessa stafs gegn betri vitund, því að þessi þriggja ára z-laus reynslutími hefur nægt til að sýna flestum þeim, sem í upphafi voru hikandi við afnám z, hversu lítið notagildi þess stafs er.

Sem dæmi um það viðhorf kennara til afnáms z get ég nefnt samþykkt sem gerð var af kennurum og nemendum Menntaskólans við Hamrahlið á vordögum 1974 og send hinu háa Alþ. Þar lögðust langflestir kennarar skólans, m.a. allir íslenskukennarar hans, gegn því að taka z upp á ný.

Málfræðileg rök hafa verið færð fram til stuðnings z í stafsetningu. Það er rétt að með því að nota þann staf má sýna vissan þátt í uppruna orða, svo sem íslenzkur, dregið af lend, en ég hygg að tilhneiging sé til að ofmeta þennan þátt verulega. Á sama hátt mætti og krefjast þess að mismunandi uppruni æ væri sýndur í stafsetningu, eftir því hvort upphaflega hljóðið er á og skrifað þá æ eða ó, skrifað æ. Þá mundi stafsetningin sýna að glæpur er komið af glópur, en ekki glápa. Nafnorðið ær um sauðkind, sbr. á, er allt annað orð en ær, sama sem vitlaus, sbr. órar. En síðan Halldór Kr. Friðriksson leið og stefna hans varð undir fyrir síðustu aldamót mun engum hafa í alvöru komið til hugar að krefjast tvenns konar æs eftir uppruna í íslenskri stafsetningu, er mundi þó óneitanlega gera málið gagnsærra. Mönnum hefur ekki heldur hugkvæmst að láta skrifa x inni í orðum þar sem uppruni sýnir að gs eða ks koma saman, en hvorki er skrifað g né k, t.d. í franskur af frankskur, sbr. Frankaríki, eða enskur af eng-viðbætt -skur, sbr. England, sem þá ætti að skrifa franxkur og enxkur væri þessari kröfu haldið til streitu. Þetta mundi þó óneitanlega gera ritmálið gagnsærra.

Það er rétt að stafsetning af þessu tagi gerir samband milli skyldra orða sýnilegra á pappír.

En almennt mun þó litið svo á að hlutverk stafsetningar sé ekki að sýna uppruna orða, heldur að skapa ritmálinu nothæfan búning. Og hér er á það að líta að í eðlilegri málnotkun hugsum við yfirleitt ekki um það af hvaða stofni þetta eða þetta orð er þegar við notum það, heldur hitt, að hefðbundin notkun þess í samfélaginu er slík að það færi lesandanum, áheyrandanum þá hugmynd sem við ætlumst til. Ef okkur skortir hins vegar orð til að klæða hugsanir okkar í búning getum við myndað nýyrði, kannske óafvitandi, en kunnátta í z eða öðrum stafsetningarreglum hjálpar fólki ekkert til að orða hugsun sína né til að hugsa skýrt, þar kemur önnur kunnátta og þjálfun til greina.

Þeirri röksemd hefur verið hreyft að ekki sé unnt að semja íslenskar orðabækur meðan stafsetningarmálin séu í óvissu og þess vegna verði að taka ákvörðun strax, en frv. menntmrh., sem nú liggur fyrir Alþ., skjóti málinu á frest. Það er að vísu rétt, að ekki er unnt að ganga frá stafsetningarorðabók né kennslubók í stafsetningu meðan yfirvofandi eru breytingar á þeim reglum sem á að kenna. En nú hafa reglurnar frá 3. maí 1973 verið í gildi í 3 ár og hluti þeirra um einum vetri betur, og hitt er rangtúlkun, að óvissa um stafsetningu komi í veg fyrir samningu íslenskrar orðabókar. Til marks um það er orðabók Sigfúsar Blöndals, stærsta íslenska orðabókin sem til þessa hefur komið út, en í henni er skrifað s, en ekki z, je, ekki é, einfaldur samhljóði á undan öðrum samhljóða, kennsla af kenna og raðað saman i, í og y og ý. Úr mínu eigin starfi við endurskoðun á orðabók Menningarsjóðs, sem ég ritstýrði og fyrst kom út 1963, get ég staðhæft að ákvörðun um z eða s mundi sáralítil áhrif hafa á þá vinnu. Ég hef gert könnun á síðustu spöltunum sem ég fékk í próförk. Á einum spalta, rúmum tveim síðum, í orðum sem byrja á ís þyrfti að setja z í 4 línur alls, en í öðrum spalta, kal, á hvergi að vera z samkv. reglunum frá 1929. Óhagræði af breytingunni s í z eða ts yrði fyrst og fremst í þeim uppflettiorðum þar sem z er tiltölulega framarlega og hefur áhrif á röðunina. Þannig mundi neyzla með samsetningu færast aftur fyrir neyta, neytanda, en neysla er fyrir framan neyta í z-lausri stafsetningu. En hér er um fá orð að ræða.

Af því, sem hér hefur verið rakið, tel ég mér skylt að vara eindregið við því að lögbjóða z í íslenskri stafsetningu eða taka aðrar skjótráðnar ákvarðanir um einstök atriði í búningi ritaðs máls, ákvarðanir sem óhjákvæmilega hefðu í för með sér sterka andúð flestra nemenda í íslenskum skólum og sóun á mörgum starfsdögum allra íslenskukennara landsins öll skólaár sem þær væru í gildi, án nokkurs árangurs fyrir kunnáttu þjóðarinnar í móðurmálinu, nema þá til að fæla menn frá því að skrifa það.

Virðingarfyllst,

Árni Böðvarsson.“

Þessir tveir vitnisburðir, annar frá einum manni, sem sérstaklega hefur fengið það hlutskipti að fjalla um íslenskt mál bæði sem orðabókarhöfundur og þáttstjóri í Ríkisútvarpinu, og hinn frá kennarahópi í skólarannsóknadeild menntmrn., eru að mínum dómi tvímælalaust rétt mynd af þeim hug sem ríkir meðal yfirgnæfandi meiri hluta kennarastéttarinnar til þess máls sem við erum að fjalla um. Því ítreka ég það, að það eru þeir, sem vega að stafsetningunni frá 1973 og 1974, sem eru að efna til glundroða, sem eru að efna til upplausnar í íslenskri móðurmálskennslu, sem eru að efna til vandræða í skólum landsins, og þeir mættu leiða meira hugann að því en þeir hafa gert hingað til.

Þess mun áreiðanlega gæta í þeim umr., sem eftir eiga að fara fram um þetta mál, að þær umr., sem orðið hafa hér á Alþ. um það, hafa orðið til að vekja þá menn til umhugsunar og aðgerða sem hafa hlotið það starf að kenna æsku landsins móðurmálið, sem hafa tekið sér það hlutverk að sinna málræktar- og málþróunarstarfi. Þess vegna er það afar brýnt að þetta mál sé rækilega rætt, að það sé leitt fram í dagsljósið hvað það hefði í för með sér að hlaupa nú til og ónýta teknar ákvarðanir, annaðhvort af hótfyndni eða meinfýsi, því að heil brú er ekki í þeim rökum sem á öðrum grundvelli hafa fyrir þessu máli veríð færðar.