13.05.1976
Neðri deild: 109. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (3624)

115. mál, íslensk stafsetning

Til þess að skýra mál mitt enn frekar um afgreiðslu okkar í n., þá ætla ég að leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér nál. okkar. Það hljóðar svo:

„Á fundi menntmn. 7. þ. m. felldi meiri hl. nm. till. um að n. tæki til afgreiðslu auk þessa máls einnig 194. mál, frv. menntmrh. til l. um setningu reglna um íslenska stafsetningu. Minni hl. telur að þessi afstaða meiri hl. sé í alla staði óeðlileg. Frv. tvö fjalla um sama efni, en með svo gerólíkum hætti að sú aðferð, sem lagt er til í öðru frv. að viðhöfð sé um meðferð stafsetningarmála, útilokar í reynd þá málsmeðferð sem till. er gerð um í hinu. Mælir því bæði eðli máls og sanngirni með því að d. fái tækifæri til að fjalla um frv. jöfnum höndum.

Þetta mál gerir að verkum, ef samþykkt verður, að sá háttur er upp tekinn að Alþ. ákveði einstök atriði stafsetningar og setji stafsetningarreglur með löggjöf. Frv. menntmrh. kveður aftur á móti á um fyrirkomulag og meðferð á setningu reglna um stafsetningu, með þeim hætti að endurskoðun gildandi reglna og tillögur um breytingar á þeim sé í höndum menntmrn. Skal rn. um það efni leita till. n. sem skipuð sé mönnum með sérþekkingu á málvísindum og reynslu af móðurmálskennslu. Áður en rn. setur reglur þannig undirbúnar skal það samkv. frv. afla til þess heimildar sameinaðs Alþingis í formi þál.

Fram til þessa hefur stafsetningarmálum verið skipað á þann veg að menntmrn. hefur sett stafsetningarreglur að fengnum till. málvísindamanna og móðurmálskennara. Eðlilegt er, eftir þær deilur sem síðasta ákvörðun um stafsetningarreglur hefur vakið, að settar séu lagareglur um meðferð stafsetningarmála og afgreiðslu og beri stafsetningarreglur að lokum í heild undir Alþingi.

Allt annað mál er að löggjafinn fjalli um einstök atriði stafsetningar út af fyrir sig, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Gylfa Þ. Gíslasonar o.fl. Sé farið út á þá braut verður ekki aftur snúið því að slíkt fordæmi opnar gáttir fyrir togstreitu þing eftir þing um þau atriði stafsetningar sem deilum kunna að valda hverju sinni, og gætu úrslit orðið sitt á hvað eftir breyttri skipan Alþ. Ekki er um það deilt að hæfileg festa í stafsetningu er eftirsóknarverð, en jafnljóst er hitt, að breytingar hljóta á henni að verða í rás tímans. Ber því að hugleiða afleiðingar mismunandi starfsaðferða við ákvörðun stafsetningar, en ekki líta einvörðungu á einstök stafsetningaratriði sem menn vilja hnekkja eða hefja til gildis.

Það er því till. okkar, sem skipum minni hl. menntmn., að málið, sem hér liggur fyrir, verði afgreitt með svo látandi rökstuddri dagskrá:

Þar sem ákvæði þessa máls fela í sér lagasetningu um einstök atriði stafsetningar, en fyrir d. liggur einnig frv. um meðferð stafsetningarmála í heild sem gerir ráð fyrir lokaákvörðun Alþ. um stafsetningarreglur í formi þál., tekur d. þetta mál af dagskrá, en tekur í staðinn á dagskrá fyrsta fundar næsta fundardag 194. mál, frv. menntmrh. til l. um setningu reglna um íslenska stafsetningu.“

Það er skemmst að segja, herra forseti, að þessi till. okkar var felld með nafnakalli og kom þá í ljós, að tveir stjórnmálaflokkar höfðu gert þetta að flokksmáli, að innleiða z-una og ákveða einstök stafsetningaratriði með löggjöf. Það voru Sjálfstfl. og Alþfl.

Hið alvarlega í þessu máli er auðvitað það, sem kemur fram í síðari hluta nál. okkar, að það fordæmi að löggjafinn fjalli um einstök atriði stafsetningar út af fyrir sig opnar gáttir fyrir togstreitu þing eftir þing um þau atriði stafsetningar sem deilum kunna að valda. Á það hefur verið bent að jafnvel þótt meiri hl. á þessu þingi kynni að geta knúið fram löggildingu z og fleira núna, þá liggur í augum uppi að á næsta þingi væri hugsanlega hægt að fella hana aftur burt og á þriðja þinginu væri hægt að taka hana inn aftur, á fjórða þinginu hægt að fella hana burt og þannig koll af kolli. Ef meiri hl. Alþ. telur að deilur af þessu tagi séu Alþ. til sóma, þá verður að hafa það og væri ansi fróðlegt að vita það. En hitt er annað mál, að ég persónulega get ekki staðið að því að Alþ. stuðli á þennan hátt að ringulreið og togstreitu og því óþolandi ástandi sem þetta mundi valda í skólum landsins, — kennurum, nemendum og almenningi öllum.

Þetta mundi auðvitað enda á einn veg: það væri í rauninni engin föst stafsetning til í landinu, hver mundi skrifa eftir sínu höfði og telja sig vera að skrifa rétt, og hugsanlega væri svo líka. Það væri í rauninni enginn orðinn fær um að dæma hvað væru lög í þessum efnum og hvað ekki. Ég er á því að með þessum vinnubrögðum sé Alþingi íslendinga að verða sér til skammar, — að Alþ. sé að verða sér til slíkrar skammar, ef það ætlar að fara inn á þá braut að lögfesta einstök stafsetningaratriði og láta það vera háð duttlungum meiri hl. hverju sinni hvaða stafsetning skuli gilda í landinu, að því verði vart jafnað við annað en þá háðung sem Alþingi íslendinga varð sér úti um árið 1941. Þá varð Alþingi íslendinga sér svo til skammar, að seint mun gleymast, enda komið í sögu þjóðarinnar. Þá samþykkti Alþingi lög sem voru síðan dæmd í Hæstarétti stjórnarskrárbrot. Þessi lög vorn sótt af miklu offorsi og þau lög hljóðuðu svo, með leyfi hæstv. forseta — þetta eru lög nr. 127 frá 9. des. 1941, um viðauka við lög nr. 13 frá 20. okt. 1905, um rithöfundarétt og prentrétt, — þau hljóðuðu svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. Þó að 50 ár eða meira séu liðin frá dauða rithöfundar má ekki birta rit hans breytt að efni, meðferð eða málblæ ef breytingunum er svo háttað að menning eða tunga þjóðarinnar bíði tjón af. Eigi má heldur sleppa kafla úr riti nema þess sé greinilega getið í útgáfunni.

2. gr. Hið íslenska ríki hefur eitt rétt til þess að gefa út íslensk rit sem samin eru fyrir 1400. Þó getur rn. það, sem fer með kennslumál, veitt öðrum leyfi til slíkrar útgáfu og má binda leyfið því skilyrði að fylgt sé samræmdri stafsetningu fornri. Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar hefur hið íslenska fornritafélag heimild til útgáfu fornrita.

3. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum, 100–10000 kr., og óheimil rit skulu gerð upptæk nema brot sé smávægilegt.

4. gr. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið gætir þess að lögum þessum sé framfylgt. Með mál út af broti á lögum skal farið sem almenn lögreglumál.

5. gr. Lög þessi öðlast gildi þegar í stað, og taka fyrirmæli þeirra til allra rita sem út verða gefin eftir gildistöku þeirra.“

Þannig hljóðuðu lögin og þau voru samþykkt á aukaþingi haustið 1941.

Ástæðan til þess, að Alþ. rauk upp til handa og fóta, var sú að frést hafði að Halldór Laxness ætlaði að gefa Laxdælu út með nútímastafsetningu, en fyrst reyndi á þessi lög þegar þrír menn gáfu út Hrafnkötlu með nútímastafsetningu. Þessir þrír menn voru Halldór Kiljan Laxness, Ragnar Jónsson og Stefán Ögmundsson. Bókin kom út enda þótt lögin væru gengin í gildi, og 17. sept. 1942 er birt frétt í Morgunblaðinu um málshöfðun sem höfðuð hafði verið á hendur þessara þriggja manna fyrir brot á þessum lögum. Meint lagabrot þeirra var í því fólgið að þeir höfðu gefið söguna út með lögboðinni stafsetningu íslenska ríkisins. Hæstaréttardómurinn hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta, — ég bið hæstv. forseta afsökunar, það er fréttin úr Morgunblaðinu sem ég neyðist til að lesa, ekki hæstaréttardómurinn sjálfur. Hún hljóðar svo:

„Niðurstaða Hæstaréttar varð sú, að lögin um útgáfu fornrita, sem ákæran byggðist á, brjóti í bág við prentfrelsisgrein stjórnarskrárinnar, 67. gr. Voru hinir ákærðu því allir sýknaðir, en þeir voru Halldór Kiljan Laxness rithöfundur, Ragnar Jónsson forstjóri Víkingsútgáfunnar og Stefán Ögmundsson prentari. Það eru tveir af dómurum Hæstaréttar, þeir Þórður Eyjólfsson og Ísleifur Árnason prófessor, í stað Einars Arnórssonar, sem standa að þessum dómi. Þriðji dómarinn, Gizur Bergsteinsson, hafði sérstöðu. Hann taldi hina ákærðu brotlega við fyrrnefnd lög og vildi dæma þá í 400 kr. sekt hvern. Prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar ætti ekki við hér.

Í forsendum dóms hinna tveggja dómara segir svo m.a.:

Samkv. 67. gr. stjórnarskrárinnar skal vera prentfrelsi hér á landi, en þó svo að menn verða að bera ábyrgð á prentuðu máli fyrir dómstólum. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða. Ákvæði greinarinnar takmarkast að vísu af því að áskilja má mönnum höfundarrétt að ritum og meina öðrum útgáfu ritanna meðan sá réttur helst. En rök þau, sem að því hníga og byggjast á nánum persónulegum hagsmunum höfundar, liggja ekki til grundvallar fyrirmælum 2. gr. l. nr. 127 1941. Þau fyrirmæli eru sett til þess fyrir fram að girða fyrir það að rit, sem greinin tekur til, verði birt breytt að efni eða orðfæri, eftir því sem nánar getur í lögunum. Með því að áskilja ríkinu einkarétt til birtingar rita þessara og banna á þann hátt öðrum birtingu þeirra nema að fengnu leyfi stjórnarvalda hefur verið lögð fyrirfarandi tálmun á útgáfu ritanna sem óheimil verður að teljast samkv. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Verður refsing því ekki dæmd fyrir brot á ákvæðum 2. gr. l. nr. 127 1941.

Samkvæmt framansögðu eiga hinir kærðu að vera sýknaðir af kæru valdstjórnarinnar í máli þessu. Allan sakarkostnað, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, ber að greiða úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun kærðu í héraði, kr. 300, og laun skipaðs sækjanda og verjanda fyrir Hæstarétti, kr. 500 til hvors.“

Hæstv. forseti. Ég hef ekki haft tíma til að færa þessar upphæðir til gildandi verðlags og get því ekki frætt hv. þingheim á því hvað það kostaði ríkissjóð mikið fé að þessi lög voru keyrð í gegn með offorsi en ég bendi á að stóraukin ríkisútgjöld geta verið afleiðing þess að Alþ. hagar sér á þennan veg. Það liggur auðvitað í augum uppi að ef á að fara að prenta allar námsbækur upp aftur á hverju einasta ári skiptir það milljörðum. En ef svo færi að einhverjir kennarar neituðu að taka það upp lítur að kenna z-una eftir að hafa fellt hana niður í tvö ár, þá hlýt ég að benda á að það vantar í frv. hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar refsiákvæði, — hvað á að gera við slíka kennara og hvernig á að refsa nemendum sem neita að læra z-una? Fer þá hugurinn nokkuð að hneigjast aftur að dómsmálunum sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á. Það er spurning um hvort við höfum nægilega margar fangelsisbyggingar ef kennarastéttin reynist mjög erfið viðfangs í þessu og dæmist öll lögbrjótar, allt að því í heild eftir þeim bréfum að dæma sem hv. Alþ. hafa borist í dag. Mér finnst því að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og hans meðflm. verði eiginlega að koma hér upp á eftir og gera okkur grein fyrir þessu, hvaða refsiákvæði þeir hafa hugsað sér.

Bókin kom út, Hrafnkatla kom út, og á titilblaði útgáfunnar stendur: „Hrafnkatla. Halldór Kiljan Laxness gaf út með lögboðinni stafsetningu íslenska ríkisins, Reykjavík 1942. Ragnar Jónsson, Stefán Ögmundsson.“ Í formála Halldórs Laxness stendur á þess leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Hrafnkatla er hér með örfáum undantekningum prentuð samkv. hinni sígildu útgáfu Konráðs Gíslasonar Kaupmannahöfn 1847, og færð til lögboðinnar stafsetningar íslenska ríkisins í sérstakri minningu um stjórnarskrárbrot það sem þjóðfífli íslendinga tókst að fá Alþingi til að drýgja í fyrra með setningu skoplaga þeirra gegn prentfrelsi á Íslandi þar sem íslendingum var gert að skyldu að nota danska 19. aldar stafsetningu kennda við Wimmer á íslenskum fornritum.“

Svo mörg voru þau orð. Skáldin finna alltaf leiðir til þess að ná sér niðri á jafnvel Alþ. ef með þarf.

Í lesbók Morgunblaðsins 1. júní 1968 var gerð grein fyrir þessu máli og blaðamaðurinn átti viðtal víð Ragnar Jónsson og að ég hygg Stefán Ögmundsson, og það er næsta fróðlegt að heyra víðbrögð þessara manna þegar þeir fóru að rifja mál þetta upp. Í þessu viðtali sagði Ragnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Það var litið á okkur sem hálfgerða landráðamenn og talið algert sáluhjálparriði að stöðva þessa útgáfu okkar, fyrst með lögum, en síðan með málshöfðun. Ég minnist þess ekki að hafa í annan tíma heyrt ofstækisfyllri málflutning en þegar verið var að ræða á Alþ., frv. sem stefnt var gegn Laxdælu. Ég man enn hvað minn ágæti vinur, Sigurjón A. Ólafsson, var ofsalega reiður og hann varaði þingið sérstaklega við okkur. Þegar við gáfum Hrafnkötlu út voru lögin gegn útgáfu fornritanna með nútíðarstafsetningu í gildi og við urðum því að fara varlega. Við bjuggumst hálft í hvoru við því að verkið yrði stöðvað á hverri stundu og því reið á að hafa hraðar hendur við prentun og dreifingu. Bókin var prentuð að nóttu til og við rótuðum út eins miklu af upplaginu og mögulegt var áður en dagur rann. Við vildum tryggja að upplagið yrði komið út um land áður en reynt yrði að gera það upptækt. Upplagið var mjög stórt og tvær prentanir. Í annarri þeirra voru nokkrar teikningar eftir Gunnlaug Scheving.“

Síðan segir Ragnar Jónsson um ástæðuna fyrir því, að hann réðst í þessa útgáfu, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæðan var sú, að við vorum sannfærðir um að þessi tiltölulega litla lagfæring á stafsetningu mundi opna fólki leið til þessara bókmennta. Það er alltaf góður mælikvarði á listir hve oft og lengi maður getur notið hvers listaverks, og hindra ber allt sem stendur í vegi fyrir því. Sumar bækur er hægt að lesa endalaust. Ég les Njálu t.d. á hverju ári og alltaf mér til óblandinnar ánægju. Það eru miklir töfrar yfir fornum. bókmenntafjársjóði okkar. Það voru heimsborgarar sem skrifuðu Íslendingasögurnar. Að útgáfunnar hálfu töldum við það næga tryggingu að Halldór Laxness tók að sér að gefa sögurnar út.

Nú hefur það mál, sem við börðumst fyrir, unnið algeran sigur,“ heldur Ragnar áfram. „Nú þykir sjálfsagt að prenta Íslendingasögurnar með lögboðinni stafsetningu. Ég vil geta þess að nú í haust, þegar 25 ár eru liðin síðan hæstaréttardómurinn var kveðinn upp í þessu máli, er Grettissaga væntanleg hjá Helgafelli. Útgáfan verður tileinkuð 50 ára afmæli fullveldisins. Halldór Laxness gefur söguna út sem verður skreytt myndum eftir Þorvald Skúlason og Gunnlaug Scheving. Þá er Konungsskuggsjá væntanleg í útgáfu Jóns Helgasonar, einnig með nútímastafsetningu.“

Síðan spyr blaðamaður hvað Ragnari sé minnisstæðast þegar hann hugsi til þessara atburða, og kempan Ragnar Jónsson svarar, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta eru skemmtilegustu dagar sem ég hef upplifað.“

Það var einnig talað við Stefán Ögmundsson og hann beðinn að lýsa þessum dögum. Og það er sagt frá því á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hafði verið á vakt frá kl. 8 um morguninn. En þegar síðdegisvaktin hófst kl. 5 var mér afhent til setningar handrit að Hrafnkelssögu,“ segir Stefán Ögmundsson. „Þegar ég stóð upp kl. 7 morguninn eftir hafði ég lokið setningu á sögunni og 1. próförk var tilbúin. En þá var ég þreyttur. Að því er mig minnir hafði stafsetning ekki verið samræmd á öllu handritinu sem ég setti eftir og þurfti ég því að breyta henni jafnóðum. Varð ég fyrir þá sök að einbeita mér meira en ella og þess vegna var setningin erfiðari.“

Síðan segir Stefán Ögmundsson, með leyfi hæstv. forseta, að verkinu hafi verið hraðað eftir föngum og bókin hafi verið prentuð næstu nótt.

Stefán segir enn fremur, þegar hann er spurður að því hvort hann hafi ekki haft áhyggjur af því að vera að brjóta lög með þessu verki, og ég bið hv. þingheim að taka eftir því, það gæti verið nokkur vísbending um það hver virðing kennarastéttin bæri fyrir þeim lögum sem hér er verið að knýja fram nú, en þessu svarar Stefán Ögmundsson á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Nei, ég hafði engar áhyggjur af því. Ég held að okkur hafi þótt skemmtileg tilbreyting að standa í þessum framkvæmdum. Svo vorum við ekki bara að stríða yfirvöldunum með þessu, heldur vorum við þess einnig fullvissir að við værum að auðvelda fjölda manna að lesa Íslendingasögurnar. Ég held að það sé ekkert efamál að með nútímastafsetningu verði sögurnar aðgengilegri fyrir allan þorra manna.“

Þetta sagði Stefán Ögmundsson. Þessir menn voru brautryðjendur og börðust gegn íhaldssömum öflum sem vildu festa í lög að íslensku fornsögurnar yrðu aldrei gefnar út með þeirri stafsetningu sem nútímafólk tileinkaði sér, heldur skyldi vera ákveðið af Alþ. íslendinga að þar skyldi ævarandi standa veggur á milli. Kannske hefur þessum þm. gengið gott eitt til. En það er ekki alltaf nóg ef skynsemina skortir. Ég held hæstv. forseti, að til þess að geta upplýst það, réttara sagt, til þess að ég hafi nú þessa menn ekki fyrir rangri sök, en geti sannfært bæði sjálfa mig og aðra hv. þm. um að mönnunum hafi gengið gott eitt til, þá sé rétt að ég leyfi hv. þm. að heyra hér þær ræður sem fluttar voru á 22. fundi í Nd. 18. nóv. er margumrætt frv. var tekið aftur til 2. umr., það hafði verið tekið af dagskrá 21. fundar. Frsm. talaði vitanlega fyrstur, en það var Bjarni Bjarnason. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar þetta mál var til 1. umr. var vísað til 2. umr. með því samkomulagi að menntmn. athugaði málið dálítið nánar með tilliti til hugsanlegra breytinga. Aðeins 4 af menntmn.— mönnum þessarar hv. d. eru hér nú staddir, en við gátum ekki náð saman fundi nema þrír og erum við flm. þessarar brtt. á þskj. 55, en fjórði nm., hv. þm. Dalasýslu, hefur nú séð till. og telur sig þeim samþykkan.

Um verulegar breytingar á frv. er ekki að ræða aðra en þá, sem um getur í 2. gr., að íslenska ríkið eitt hafi rétt til að gefa út íslensk rit sem samin eru fyrir 1400. 1. gr. frv. er að vísu dálítið breytt að orðalagi og 2. gr. er felld víð í okkar brtt., og vænti ég þess að hv. þdm. geti fallist á að þetta fari betur saman. Við flm. þessarar brtt. væntum þess enn fremur að það þyki rétt að koma í veg fyrir að einstakir menn taki fornritin okkar og gefi þau út í því formi sem þeim sýnist. En með ákvæðum í 2. gr., ef að lögum verður, er loku fyrir það skotið að einstakir menn geti tekið fornritin og gefið þau út á eigin kostnað og sjálfum sér til hagnaðar. Þó er gert ráð fyrir að kennslumálaráðuneytið geti veitt leyfi til slíkrar útgáfu og enn fremur gert að skilyrði að fylgt sé samræmdri stafsetningu fornrita. Þá er og undantekning frá þeirri reglu að hið íslenska ríki eitt hafi rétt til að gefa út íslensk rit sem samin eru fyrir 1400. Hún er gerð gagnvart Hinu íslenska fornritafélagi sem er nú, eins og kunnugt er, að gefa út Íslendingasögurnar og önnur fornrit. N. taldi ekki rétt að þetta félag þyrfti að sækja um leyfi til framhaldsútgáfu fornritanna né að skertur yrði að nokkru leyti sá réttur sem það nú hefur.

Um brtt. sjálfar tel ég ekki ástæðu að fara fleiri orðum. Það getur vel verið að eitthvað komi fram í umr. um þær, sem verða kunna á eftir. og má þá skýra þær nánar. Mér finnst hins vegar rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál í heild. Og vil ég þá fyrst segja það sem mína persónulega skoðun, að mér finnst ástæða til að athuga hvort látið skuli óátalið að einstakir menn hafi það að féþúfu að taka fornritin okkar og gefa þau út. Í því felst auk þess sú mikla hætta að þau verði þynnt út. Á það sjónarmið í uppeldismálum að ráða sem vinnur að því að tyggja í æskuna? Væri ekki vænlegra að láta hana stæla krafta sina, andlega og líkamlega, á verkefnum þar sem úrlausnin er árangur eigin snilli samfara eljusemi, hugviti eða skerpu? Hvert einasta barn getur stafsetningar vegna lesið Íslendingasögur, það ætla ég að leyfa mér að fullyrða. Ég tel skömm að því að eyða tíma í að kenna börnum erlend mál, en letja þau samtímis þess að lesa fornsögurnar á samræmdu máli af því að sá lestur sé of erfiður. Þó skal ég geta þess, að ég tel ekki aðalatriðið hvort þau eru gefin út með normalíseraðri eða lögboðinni stafsetningu á hverjum tíma.

Æskan les með minna móti nú. Það er ókyrrð í þjóðlífinu og á henni alið á margan hátt. Landið hefur á fáum árum opnast fyrir umheiminum. Þjóðin var óviðbúin og þurfti sinn tíma til að þroskast í hinu nýja umhverfi. Við þetta bætist hernámið og þær afleiðingar sem af því hlýtur að leiða. Það er hættulegt nú að kappkosta að telja fólki trú um að það eigi ekki að reyna á sig, það sé t.d. of mikill þrældómur að lesa fornsögurnar með samræmdri stafsetningu. Mér þykir ekki ósennilegt að unnið sé að því nú að skólabörn verði látin heimta fornsögurnar með nýju stafsetningunni.

Það er vitanlega ósannað mál að almenningur vilji ekki lesa fornsögurnar með fornri stafsetningu. Það sýnir fornritaútgáfan þegar Alþ. hefur séð sóma sinn í því að stilla svo til að hægt sé að selja bækurnar ódýrar. Nýlega bárust t.d. um 100 áskoranir úr einni sveit á Vestfjörðum um það að selja bækurnar svo vægu verði að fólk gæti keypt þær. Þeir menn, sem hafa áhrif á það hvað fólk les, ættu að vinna að því að koma fornritunum inn á hvert heimili í landinu. Reynslan sker svo úr því hvort þörf er á að reyna aðrar leiðir en nú eru farnar með fornritaútgáfuna.

Nýlega er kominn fram á sjónarsviðið nýr bókaútgefandi, kaupmaður hér í bænum sem hefur auðgast mikið á að selja almenningi „margarín.“ En vegna verðlagseftirlits gat hann ekki lengur auðgast á því. Hann fékk því í lið með sér sæmilega vinnufæra menn sem meta það mikils að fá erfiði sitt allvel borgað. Þeir fóru að gefa út bækur og völdu sér Íslendingasögur til þess samkv. lýsingu sem ég hef einhvers staðar lesið um fyrirhugað fyrirtæki í þessu sambandi. Þessir menn vinna nú aðeins á fyrsta stigi þess skemmdarverks að telja ungu fólki trú um að það eigi ekki að lesa fornmálið, heldur þær bækur sem birtar eru með þeirri stafsetningu sem lögboðin er á hverjum tíma. Undantekningar megi þó gera ef til séu móðins rithöfundar, þrátt fyrir það að þeir afskræmi málið. Ég skal síðar koma að því hvernig framhaldið verður.

Nútímastafsetning er góð og blessuð. En að einstakir menn hafi leyfi til að taka fornritin og versla með þau, því mun ég leggja á móti. Þrátt fyrir það að liðnar séu 7 aldir síðan Íslendingasögur voru ritaðar eru margar þeirra hrein sígild listaverk, bæði að efni og búningi, fagur og fágætur vottur fornrar, þjóðlegrar menningar sem ástæða er til að miklast af. Mætti í þessu sambandi nefna sögur eins og Egilssögu, Njálssögu, Gunnlaugssögu ormstungu og síðast en ekki síst Laxdælasögu. Sú bók er nú upp gengin hjá fornritaútgáfunni. Halldór Kiljan Laxness er fenginn til að snúa henni í form nútímastafsetningar. Bókin er komin á markaðinn og er nú borin út í stórum stöflum sem gjafabók. Bókin átti að skreytast með myndum. Ég hygg að Tryggvi Magnússon hafi átt að yrkja söguhetjurnar í myndum. En mikið lá við. Myndunum varð að fleygja og að prentun var látið vinna nótt og dag af ótta við að Alþ. gripi inn í og kæmi í veg fyrir braskið. Hví varð Laxdæla fyrir valinu? Að líkindum vegna þess að hún var uppseld hjá fornritaútgáfunni og þess vegna meiri líkur fyrir eftirspurn og þar með vitanlega hagnaði.

Ég get ekki stillt mig um að geta þess, að ég hef á a.m.k. tveim stöðum heyrt talað um að komin væri út ný skáldsaga eftir Halldór Kiljan Laxness og þetta væri ástarsaga þar sem bræður tveir hefðu barist um sömu konu. Þetta er dálítið ósennilegt, en á tveim stöðum hef ég orðið var við þetta. En þetta sýnir bara það hversu fákunnandi margt fólk í Reykjavík er í Íslendingasögum. En ég geri mér ekki miklar vonir um að þessi aðferð til að kenna fólki að lesa sögurnar verði svo farsæl að hún nái því marki sem útgefendurnir hafa látið í ljós að þeir ætluðu sér. Og þó skal ég enn einu sinni taka fram að ég tek þessa útgáfu ekki þannig að ástæða sé til að hefjast handa gegn henni. En þeir, sem renna grun í hvernig framhaldið verður, hljóta að stöðva þetta.

Nú er því haldið fram að þetta, að snúa Íslendingasögum á nútímastafsetningu, eigi að vera til þess að auðvelda fólki lestur þeirra og skýra sögurnar betur. Ég hef áður lýst skoðun minni á þessu og ætla ekki frekar út í það. En sami maðurinn, sem gefur út þessa sögu, segir svona í formálanum, með leyfi hæstv. forseta: „Er sem snillingurinn sé lengi að þreifa fyrir sér á hljómborðinu og kemur niður á ýmis lög og lagabrot, sum rismikil, önnur dulúðug eða skopleg, en í lausu orsakasambandi innbyrðis, stundum jafnvel engu, en slær aðeins endrum og sinnum nokkra kontrapunktíska tóna höfuðtemans sem ríkir þó leynilega yfir hug hans bak við öll önnur temu uns það brýst fram í seinni hluta verksins af óstöðvandi þunga og alhrífur höfund sinn.“ — Þetta stendur nú í formála þeirrar bókar sem á að vera enn þá skiljanlegri fyrir þann hluta manna sem misskilur fornritin á samræmdri stafsetningu. Þó þetta sé kannske ekki sérstaklega vitlaust, þá er það einkennilegt að vera að hrúga þarna saman orðum sem börn og unglingar vitanlega ekki skilja, fyrir utan það að þetta er ekki íslenskt mál sem þarna er flutt.

Þá ætla ég að koma að því, sem ég held að verði nr. tvö, en það er það að farið verður að endursegja sögurnar. Það verður næsta stigið og ég get sagt það hér með vissu að Grettissaga hefur verið tekin og endursögð í því formi að hún yrði aðgengilegri aflestrar fyrir börn og unglinga. En það var komið vitinu fyrir þá menn, sem að því stóðu, áður en bókin var prentuð og þeim sagt að það væri gott að fá þessa bók til þess að tæta hana svo í sundur að það kæmi ekki fyrir aftur. En verði útgáfan frjáls verður þetta næsta stigið. Og getur nokkrum manni fundist mikið vit í því að farið verði að gera íslendingasögurnar aðgengilegri fyrir þá ódómbæru, sem ekki þekkja þær í sinni upprunalegu mynd, með því að færa þær í einhvern ævintýrabúning?

Þá hefur það verið boðað af þeim, sem að þessu standa, að þeir mundu fella niður ýmsa kafla úr bókinni og ættartölur. Það þarf enga bókfróða menn til þess að líta á þetta sem fjarstæðu. Þetta bjóða fornsögurnar ekki. Þær bjóða nafn söguhetjunnar ásamt með ættartölum, og það er mjög mikils virði og á því illa við að sleppa ættartölum úr fornsögunum. Það er og óhætt að einstakir menn fái að fella úr kafla eftir eigin geðþótta, og máli mínu til sönnunar vil ég lesa hér — með leyfi hæstv. forseta — kafla úr formála Laxdælu eftir Halldór Kiljan Laxness. Hann segir á þessa leið: „Í þessari útgáfu, sem byggist á þeirri er dr. Einar Ól. Sveinsson hefur gert á grundvelli handritasamanburðar fyrir fornritafélagið, hefur verið sleppt nokkrum þeim þáttum og greinum sem fjærstar standa höfuðyrkisefni verksins og því líklegastar að torvelda almenningi ljósan skilning á bókinni og skemmtun af henni.“

Þarna er slegið föstu að Halldór Kiljan geti ákveðið hvað hann telji standa fjærst yrkisefninu, og er slíkt óþolandi því að lesendurnir sjálfir geta fellt burtu þá kafla sem þeim þykir ekki gaman að eða að þeirra dómi eru fjærstir yrkisefni bókarinnar. En að láta einstaka menn fá að ákveða slíkt nær engri átt. Bollaþætti er sleppt úr þessari nýju útgáfu, og þó það geri ekkert til eða lítið, þá er þetta þó bessaleyfi.

Skemmdarverk nr. þrjú verður þá að taka sögurnar og skrifa þær um eftir eigin geðþótta og þá hef ég gefið yfirlit yfir útþynningu þá sem er að hefjast: í fyrsta lagi að breyta málinn, fella úr kafla og ættartölur, í öðru lagi að endursegja sögurnar í barnslegu formi og í þriðja lagi að umskrifa þær í eigin formi þess sem það gerir. Ég vil taka dæmi sem að vísu er fjarskylt þessu, en sýnir það vel hvað ég é við með útþynningu.

Fyrir hér um bil 100 árum var kennari á Bessastöðum Sveinbjörn Egilsson, viðurkenndur bókmenntafræðingur. Hann tókst á hendur að þýða Ódysseifskviðu á íslensku, bæði í bundnu og óbundnu máli. Þetta rit er viða til hér á landi og er viðurkennt af öllum sem listaverk. Ýmsir höfundar úti í heimi hafa haft svipað verk með höndum og Sveinbjörn, og má þar nefna danska skáldið Henrik Pontopidan. Hann tók Ódysseifskviðu þó á annan hátt heldur en Sveinbjörn Egilsson, því að hann færði hana í ævintýralegan búning og endursagði hana við hæfi barna og unglinga. Langar leiðir eru milli þessarar Ódysseifskviðu og þeirrar er Sveinbjörn Egilsson þýddi, og er varla hægt að hugsa sér Ódysseifskviðu í fullkomnara formi en hjá honum.

Nú er búið að þýða bók Pontoppidans á íslensku og er hún komin út. Sá, sem hefur þýtt hana, er Steinþór Guðmundsson kennari. Á titilblaði bókarinnar stendur: „Ævintýralegar frásagnir úr Ódysseifskviðu Hómers, endursagðar við hæfi barna og unglinga.“ Og neðar stendur: „Víkingsprent“

Ég vil nú til gamans bera saman ýmsa kafla í þessum tveimur bókum, Sveinbjarnar og Pontoppidans, og geri það til frekari skýringar á orðinu útþynning, og ég óttast að þannig geti farið með íslendingasögurnar í framtíðinni.

Á bls. 272 hjá Sveinbirni Egilssyni stendur: „Skriður mikill var á skipinu, og renndi það á land upp mjög til hálfs, svo var því róið knálega.“ Hjá Steinþóri Guðmundssyni á bls. 152 lítur þetta þannig út: „Þangað stefndu þeir skipinu og reru því hálfu á þurrt land með því að skerpa dálitið róðurinn síðasta sprettinn.“

Á bls. 276 hjá Sveinbirni Egilssyni stendur svo: „Þó tregaði hann föðurland sitt og reikaði mjög harmþrunginn fram við strönd hins brimótta hafs.“ Hjá Steinþóri Guðmundssyni á bls. 153 er þessu snúið þannig: „Meðan hann var þannig að barma sér og gekk þungstígur um fjöruna.“

Hjá Sveinbirni Egilssyni á bls. 282 stendur á þessa leið: „Að því mæltu brá gyðjan burt hulunni og sást þá landið. Þá gladdist hinn raunamæddi Ódysseifur og þótti vænt um að sjá föðurland sitt. Hann kyssti hina kornfrjóu jörð.“ Hjá Steinþóri Guðmundssyni á bls. 155 er þetta þannig: „Meðan hún var að tala dreifði hún þokunni svo að Ódysseifur þekkti landið sitt, laut til jarðar og kyssti jarðveginn.“

Ég tel að með þessu sé að óþörfu verið að þrengja upp á æsku þjóðarinnar þvældri og afbakaðri þýðingu og vil spyrja: Á þetta lengi að halda svona áfram? Svo eru ýmsir menn, sbr. grein Arnórs Sigurjónssonar í Þjóðólfi um daginn, að segja að þessir menn séu að frelsa þjóðina með útgáfu rita sem slíkra. Vel má vera að þessir menn geti hrifið æsku landsins, en dettur nokkrum í hug að þessum mönnum sjálfum komi til hugar að þeim takist það á þennan hátt. Þótt þeim takist að koma sögnunum til lestrar, þá er þó ljótt til þess að hugsa hvaða aðferð þeir beita.

Ég vona að hv. þm. sjái að hér þarf að taka í taumana áður en lengra er farið og láta ríkið framvegis ráða útgáfu og meðferð hinna íslensku fornrita.“

Herra forseti. Ég held að það fari ekki á milli mála að þessi hv. þm., sem talaði á fundi í Nd. árið 1941, hafi talið sig vera í einlægni að vernda íslenska menningu. Það tóku fleiri til máls um þetta og meðal annarra Einar Olgeirsson, og ég held að til þess að við gætum fengið rétta mynd af umr., þá verðum við einnig að fá að heyra hvað hann hafði til málanna að leggja við þessar umr. Um útgáfu fornsagnanna og stafsetningu á þeim sagði Einar Olgeirsson, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég sé að hér liggur fyrir brtt. við þetta frv. og er ekki vanþörf á að sýna að viðkunnanlegra sé að reyna að hugsa á íslensku, því að þegar þetta frv. var samið, þá var það augsýnilega hugsað á dönsku, a.m.k. 1. gr. þess. Það er því að vissu leyti gott að þetta hefur verið þýtt á þolanlega íslensku. Ég vil fá hv. þm. til að athuga með mér hvað menn eiga við þegar þeir tala um vissa forna stafsetningu á íslendingasögum því að ég veit ekki betur en að handritin, sem Íslendingasögurnar eru ritaðar á, séu með stafsetningu þeirrar aldar sem um ræðir í hvert skipti. Þegar svo fornritafræðingar gáfu þessi rit út síðar, þá sköpuðu þeir stafsetningu sem þeim hverjum um sig fannst eiga best við. Ég hef gluggað í Íslendingasögurnar og Noregskonungasögurnar og séð að um mismunandi stafsetningu er bar að ræða, og prófessor Sigurður Nordal hefur staðhæft að þessi svokallaða gamla stafsetning sé útilokuð. Hvers konar stafsetning er þetta þá? Er það einhver sérstök stafsetning sem á að túlka fornmálið? Nei, það er hún ekki. Fyrir þá, sem nema fornmálið, er villandi að gefa fornsögurnar út á gamalli stafsetningu með því að setja hánum í stað honum og svo mætti lengur telja. Þessi stafsetning er því ekki rétt og hún villir okkur og er ekki samræmd í þeim útgáfum sem gefnar hafa verið út.

Ég vil svo víkja að því, hvort það sé nokkur goðgá að gefa fornsögurnar út með nútímastafsetningu. Þegar Njála var gefin út í fyrsta skipti hér á landi, í Viðeyjarklaustri árið 1844, þá var hún gefin út með stafsetningu þeirra tíma. Hún hefst þannig: „Mörður hét maður, er kallaður var gígja. Hann var son Sighvats hins rauða. Hann bjó á Velli á Rangárvöllum. Hann var ríkur höfðingi og málafylgjumaður mikill og svo mikill lagamaður að öngvir þóttu löglegir dómar nema hann væri í.“ — Á þessu sést að þeim, sem gáfu út Njálu þá, fannst sjálfsagt að gefa hana út á þeirra tíma stafsetningu, og var þetta þó á dögum Fjölnismanna sem börðust fyrir verndun tungunnar, enda er það rétt, því að það, sem prýðir hina fornu tungu, eru ýmis sérkennileg orð og málblærinn og því þarf það að haldast.

Um 100 ár eru síðan þessi Njála var gefin út. Enginn hefur reynt að sýna fram á að hún væri á nokkurn hátt skemmd á íslenskum fornbókmenntum. Fyrir síðasta stríð voru og ýmsir menn fullir áhuga á að gefa fornbókmenntirnar út á nútímastafsetningu. Eitt finnst mér líka mjög einkennilegt. Það er að hv. menntmn. Alþ. skuli ekki hafa snúið sér til neinna fræðimanna til að fá dóm þeirra um þetta frv. Árið 1939 kom fram frv. um að vernda nokkuð rétt íslenskra rithöfunda svo að þeir væru ekki órétti beittir. N. sendi þetta frv. til bókaútgefenda á landinu til að leita álits þeirra um þetta. Bókaútgefendur voru till. n. mótfallnir því að þeir sáu að ef Ísland gengi í Bernarsambandið, þá yrði þeirra hagnaður ekki sem áður. Þetta dæmi sýnir að þarna var leitað álits manna, en nú er ekkert gert til að kynna sér álit fróðra manna á þessu frv. sem hér liggur fyrir. Hvers konar frágangur er þetta? Er þetta vöndun á því sem þjóðinni er helgast. Mér finnst nauðsyn á því að leita álits fróðra manna um þetta. T.d. væri gaman að vita hvað prófessor Sigurður Nordal segði um það.

Svo vil ég víkja nokkrum orðum að orðum hv. 2. þm. Árnesinga. Hann sagði að ekki væri þörf á að tyggja íslendingasögurnar í æsku þjóðarinnar, og það er alveg rétt. Það er röng aðferð að haga sér þannig, en samt veit ég um einn mann sem hefur gert þetta. Það er Jónas Jónsson frá Hriflu. Hann hefur gefið út Íslandssögu og þar er tuggið á svívirðilegasta hátt í æskuna. Sagan er ekki einungis endursögn, heldur er einnig vitnað í fornsögurnar og það sett innan gæsalappa, en orðalaginu víða breytt. Það er alveg rétt hjá menntmn, að slíkt á ekki að láta líðast, en Íslandssaga Jónasar Jónssonar hefur verið kennd í skólum landsins um alllangt skeið og menntmn. hefur ekki reynt að laga þetta.

Hv. 2. þm. Árnesinga minntist á sem aðalatriði að íslenska ríkið ætti eitt að hafa rétt til að gefa út fornritin. Finnst hv. þm. að íslenska ríkið hafi staðið svo vel við útgáfu fornritanna að þetta beri að gera? Finnst hv. þm. betra að trúa ríkinu fyrir útgáfunum heldur en einstökum mönnum í þjóðfélaginu? Jónas Jónsson var einu sinni kennslumálaráðherra, og ég minnist þess ekki að hann sýndi nokkurn vilja í að vernda fornritin eða auka þekkingu landsmanna á þeim. Ritið „Verkin tala“ var sent og það gefins til þjóðarinnar, en ekki fornritin, nema þessi undarlega útgáfa af þeim í ritum hans sjálfs. Meðan menn eiga yfir höfði sér að svoleiðis maður eigi að vera kennslumálaráðh. álít ég að það sé ekki glæsilegt að eiga að einoka útgáfu fornritanna í höndum ríkisvaldsins.

Svo kom hv. 2. þm. Árnesinga með mjög svo skemmtilega sögu um mann hér í bænum sem farinn væri að fást við bókaútgáfu. Sumum mundi nú finnast ógeðfellt að vera með getsakir um menn sem ekki eiga þess kost að svara fyrir sig, — sumir hv. þm, stökkva upp á nef sér jafnvel á lokuðum fundi út af slíku, af því að þeim þykir það ógeðfellt. Það er annars skemmtilegt þegar staðhæfingar rekast svo gersamlega á eins og hjá hv. 2. þm. Árnesinga í ræðu hans áðan. Hann sagði að maður þessi hefði ekki hagnast mjög á smjörlíki, — en ég gæti nú samt hugsað mér að það væri mjög góður gróðavegur og betri heldur en bókaútgáfa, — og það væri að þakka verðlagsnefnd sem þó starfar að því að hækka verð á vörum. Ég veit ekki annað en verðlagsnefnd leyfi mönnum að leggja á vörur prósentvís, sem þýðir að því dýrara sem hráefni verða í innkaupi, því meira mega þessir menn, sem nota þau til framleiðslu, leggja á þau. Þessi verðlagsnefnd er því sköpuð til þess að gera mönnum, sem stunda slíka framleiðslu, mögulegt að leggja sífellt meira og meira á sína vöru. Sumir hafa viljað láta líta svo út sem þessi nefnd væri til þess sköpuð að lækka verð á vörum, en það er hreinasta bábilja. Þessi n. er gerð til þess að kúska menn til þess að kaupa hráefni þar sem það er verst og dýrast til þess að álagningin verði sem mest. Það stangast tvær fullyrðingar hjá þessum hv. þm. Svo talar hann um að þessi maður, sem hann nefndi, hafi gefið út Laxdælu og hún sé borin út sem gjafabók í bænum, en í hinu orðinu að það sé hagnaðarvonin sem þessum manni gangi til með útgáfunni. Ég á bágt með að skilja að þeir menn, sem vildu græða á bókaútgáfu, gerðu það með því að gefa mönnum stafla af þessum sömu bókum sem þeir gefa út. Ég held að þeir ættu að vera í ofurlítið meira samræmi við sjálfa sig þegar þeir deila á menn utan þings sem ekki hafa tækifæri til að svara fyrir sig sjálfir, svo að þeir eyðileggi ekki hverja setningu sem þeir tala.

Svo kom hv. 2. þm. Árnesinga inn á að tala um skemmdarverk, sem ætti að fara að vinna, og öll þau mismunandi stíg sem þau væru á. Það undarlega í þessu sambandi var að þessi hv. þm. varð að viðurkenna að þessi útgáfa, sem hann nú sérstaklega ætti við og í raun og veru hefði gefið tilefnið til lagasetningar þessarar, væri þannig að við hana væri í raun og veru ekkert sérstakt að athuga. Nútímastafsetningin var sem sagt ekkert aðalatriði í sambandi við það. Og þar sem stytting var á sögunni í þessari útgáfu, þar var sleppt köflum sem ekki var kannske svo mikil eftirsjón í. Nú skulum við athuga þetta skemmdarverkaspursmál út frá því sem hv. 2. þm. Árnesinga var að segja, hvort það sé þörf á að koma Íslendingasögunum út til fólksins. Hann sagði okkur skemmtilega sögu um að hann hefði heyrt að talað hefði verið um það á tveimur stöðum í bænum að Halldór Kiljan Laxness væri búinn að gefa út skemmtilega skáldsögu þar sem tveir bræður væru að berjast um sömu konuna. Þegar það kemur fyrir á tveimur stöðum í bænum þar sem hann þekkir til, að bar skuli ástandið vera þannig að fólkið hafi aldrei heyrst Laxdælu nefnda, og þegar hún kemur út, þá renni það ljós upp fyrir þessu fólki að þarna sé saga mjög spennandi um tvo bræður sem berjist um sömu konu, en sér svo í formálanum að þessi saga hafi gerst fyrir 800–1000 árum, — getur ekki hv. 2. þm. Árnesinga þá séð hvílíkt þarfaverk hér er verið að vinna með því að fá fólk til að byrja á að lesa fornsögurnar af því að það haldi að þær séu nútímasögur?

Svo segir hv. þm. Árnesinga að þessi Laxdæla sé ekki þannig að rétt sé að setja löggjöf út af henni út af fyrir sig, en svo bætti hann við: En þeir sem renna grun í framhaldið. — Já, þar liggur nú hundurinn grafinn. Ástæðan til þess, að þetta frv. er komið hér fram, er ekki sú að Njála var gefin út fyrir nærri 100 árum á nútímamáli, ekki heldur sú að hv. þm. Suður- Þingeyjarsýslu hafi gefið út Íslendingasögur eins og það var nú gert, heldur þessi Laxdæla sem þó er, úr því sem komið er, látin vera og ekki talin óhafandi, en þó sérstaklega þetta: Þeir sem renna grun í framhaldið. Svo kemur hv. þm. að skemmdarverkum nr. tvö, þegar farið verður að endursegja Íslendingasögurnar. Hann veit af því að einhverjir menn hér í þjóðfélaginu muni hafa ætlað að fara að endursegja Grettissögu, og þegar það vitnast er farið til þessara manna og þeim hótað að þessi Grettissaga, þegar hún komi út, skuli verða tekin svo fyrir að ekki standi í henni steinn yfir steini. Hvernig stendur á því að það var ekki þotið hér inn á hæstv. Alþ. þegar þessi Grettissaga var á ferðinni og sett lög um það að það mætti ekki gefa hana út? Þá var treyst á það að þegar væri farið að fara illa með Íslendingasögurnar, þá væru nægir menn í þjóðfélaginu til þess að fordæma það svo gersamlega að þær seldust ekki blátt áfram. Og þetta er það sem ég álít að eigi að gera. Hv. 2. þm. Árnesinga hefur frætt okkur um að þessi aðferð hafi reynst góð, hún hafi komið í veg fyrir að skemmdarverk nr. tvö hafi verið unnið, að endursegja Grettissögu. Og mér er ekki ljóst af hverju þessi ágæta aðferð gæti ekki dugað áfram. Ég endurtek það því, sem ég sagði við 1. umr., að ég álít að gagnrýni okkar þjóðar á þeim endursögnum, sem kæmu út af Íslendingasögunum, og áhugi hennar fyrir þeim mundi reynast næg vernd fyrir þær gagnvart þeim sem vilja skemma þær með slæmri meðferð í endursögnum. Vonast ég því til þess að hv. alþm. dragi af því réttar ályktanir sem hv. 2. þm. Árnesinga hefur tekið hér fram viðvíkjandi þessu atriði.

Ég vil benda á að með þessari brtt., sem hér liggur fyrir, er alls ekki komið í veg fyrir skemmdarverk. Það stendur í niðurlagi 1. gr., eins og lagt er til í brtt, að hún verði orðuð, með leyfi hæstv. forseta: „Eigi má heldur sleppa kafla úr riti nema þess sé greinilega getið í útgáfunni.“ Það má þannig sleppa kafla eða köflum úr fornritunum þegar þau eru gefin út ef þess er greinilega getið í útgáfunni.

Svo kemur þessi hv. þm. að skemmdarverkum nr. 3. þegar farið er að skrifa sögurnar um. Það er einmitt það stig skemmdarverkanna sem hv. þm. Suður-Þingeyjarsýslu, Jónas Jónsson frá Hriflu, gerði, og það er sannarlega nauðsynlegt að gera ráðstafanir gegn slíkum verknaði til þess að hann endurtaki sig ekki. En þær ráðstafanir er best að gera þannig að slík verk séu gagnrýnd, þegar þau koma fyrir, svo mikið að slíkt eigi sér ekki uppreisnar von. Frá mínu sjónarmiði er ekkert á móti því að setja lög í þá átt að ekki megi nota til kennslu í barnaskólum skaðskemmdar og rangsnúnar útgáfur af Íslendingasögunum, þannig að menn geti ekki gefið út kennslubækur í hagnaðarskyni, eða láta gefa slíkt út á ríkisins kostnað til þess að tyggja það í æskuna árum saman. Það þyrfti ekki meira til þess að koma í veg fyrir að slíkar bókmenntir væru tuggnar í æskuna en að kennslumálaráðuneytið væri dálítið vakandi.

Svo er eitt í sambandi við það sem hv. 2. þm. Árnesinga var að tala um, umskriftina á Íslendingasögunum og okkar fornritum yfirleitt. Nú langar mig til að spyrja þennan hv. þm. Getur það ekki komið fyrir að þeir menn, sem með framkvæmd laga þessara ættu að fara, væru svo þröngsýnir að þeir létu þess háttar lagabókstaf ná út yfir það sem alls ekki var upphaflega ætlast til með því að setja þessi lög, þannig að þau væru látin ná út yfir það sem sum af okkar bestu skáldum hafa lagt í, að búa til ný listaverk, t.d. leikrit, með efni úr okkar fórnsögum sem uppistöðu listaverksins? Það væru kannske til þeir menn sem mundu halda því fram að það væri að umskrifa fornsögurnar. Við getum t.d. í því sambandi nefnt að Jóhann Sigurjónsson hefur samið leikrit um sögulega viðburði og Matthías ort Grettisljóð. Yrkisefnin úr okkar sögum eru gullnáma fyrir okkar skáld. En það mætti kannske teygja bókstaf þessara laga nógu langt til þess að ná út fyrir að banna að taka yrkisefni úr okkar sögum og halda því fram að þar sé um að ræða umskrift á þeim. Það væri hins vegar algerlega rangt að hindra skáld í því að geta ausið af þeim brunni sem okkar fornsögur eru sem yrkisefni, og ég býst ekki við að sú hafi heldur verið meiningin með þessum lögum.

Hv. þm. vill ekki að það sé veríð að þrengja skáldsögum upp á æskuna, en að sérstök útgáfa verði gefin út fyrir börn af fornritunum og þá verði að gera þar algeran greinarmun á sjálfum upprunalegu ritunum og þessum endursögnum.

Það nær ekki nokkurri átt að gera kröfu til máls og stíls og annars slíks neitt í líkingu annars þegar verið er að gefa fornrit út fyrir börn. Meiningin með útgáfu bóka fyrir börn, þegar þær eru umskrifaðar fyrir þau, er sú að kynna börnunum efni þeirra til þess að reyna að laða þau til að lesa þær síðar á upprunalega málinu þegar þau vaxa upp. Ég geri ráð fyrir að þetta sé meining hv. þm. með útgáfu fornritanna fyrir börn. Og þetta hefur verið gert úti í heimi, t.d. um rit eftir Shakespeare. Hann hefur verið endursagður fyrir börn og þykja þær endursagnir með afbrigðum góðar og eru taldar með betri bókmenntum á 19. öldinni og fjöldi enskra barna, sem mundi gefast upp á Shakespeare ef þau ætluðu að lesa hann, les þessar endursagnir sem þá verða eins konar dyr fyrir þau til þess að ganga um inn í þennan helgidóm.

En í sambandi við þessar endursagnir vil ég vekja athygli á því, að hv. 2. þm. Árnesinga minntist ekkert á þær leiðinlegu endursagnir af íslenskum fornritum sem ég kom að í minni ræðu.

Ég sé ekki neina þá hættu á ferð í okkar þjóðfélagi sem gæti réttlætt það að slík löggjöf sem þessi er hér á ferðinni. Ég sé ekki betur en það sé hins vegar full ástæða til þess að vernda rétt núlífandi rithöfunda, hætta ofsóknum gagnvart þeim og hætta því að láta vera hægt að nota rit þeirra að þeim fornspurðum, eins og nú á sér stað. Ég fæ ekki betur séð heldur en einmitt það, sem hér hefur komið fram í umr. um þetta mál, staðfesti það að okkar þjóð sé fyllilega fær um að vernda sín fornrit með heilbrigðri gagnrýni, þannig að barátta gegn þeim tilraunum, sem hefðu orðið til að spilla þeim, hefur komið í veg fyrir að þeim hafi verið spillt með slæmum endursögnum. Og jafnvel þeir, sem halda með þessu frv., geta ekki annað en viðurkennt að stafsetningin sé ekkert aðalatriði. Jafnvel hefur ekki verið reynt að halda því fram að hin forna stafsetning sé vísindaleg eða hentug að einhverju leyti, enda er hún hvorugt. Það er sem sé þannig að ástæðan til þess, að þetta frv. hefur komið fram og er hér á ferðinni, er ekkert annað en firra og ákveðnir hleypidómar hjá ákveðnum manni. Og það væri hv. Alþ. ekki til sóma að fara að hlaupa eftir slíku.“

Herra forseti. Þetta var ræða sem Einar Olgeirsson flutti á Alþ. 18. nóv. 1941. Eins og hv. þm. hafa greinilega heyrt, þá var hér komið viða við, það var rætt um fornritin, útgáfur, barnasögur, verðlagsmál. En ég tel að það hafi komið skýrt og greinilega fram líka að þessi hv. þm., sem ég hef hér vitnað í, hefur talað af sannfæringu um það sem hann taldi íslenskri menningu til góðs, enda þótt ég verði að biðja hv. þm. afsökunar á því að ég hef ekki getað flutt þetta með þeim sannfæringarkrafti sem Einar Olgeirsson hefur örugglega gert meðan hann var að mæla þetta. En það er nú svo að það er annað að frumflytja en lesa upp.

Það eru margar ræður enn sem ég á eftir að lesa hér, hæstv. forseti. (Forseti: Ég vek athygli á því að það er ekki heimilt samkv. 39. gr. þingskapa að lesa upp prentað mál nema með leyfi forseta.) Ég bað leyfis. Ég var að enda við að segja eða ætlaði að fara að segja, þegar forseti hringdi bjöllunni, að það eru margar ræður hér fróðlegar ólesnar, og það sem ég ætlaði að segja ef hæstv. forseti hefði haft þolinmæði, — að vísu er nú nokkuð liðið nætur, — þá ætlaði ég að benda á það að aðalatriðið í þessum umr. væri vissulega stafsetningin á útgáfunni. Og það, sem Einar Olgeirsson bendir á að hafi ekki verið neitt aðalatriði, væri eiginlega fróðlegt að sannreyna. Ég held að það sé rétt, sem haldið hefur verið fram, að mismunandi stafsetning heyrist ekki í framburði, og þess vegna hef ég hér tvær útgáfur af Hrafnkelssögu Freysgoða. Önnur þeirra er gefin út af Jóni Helgasyni, það er 3. útgáfa, og hin er gefin út af Halldóri Kiljan Laxness í Reykjavík árið 1942. Ég held að ég lesi hér úr báðum útgáfunum, og þá munu hv. þm, geta sannreynt það sjálfir að þótt ég lesi sama texta upp mismunandi stafsettan, þá geti þeir vart greint neinn mismun í framburði. Í fyrri útgáfunni, þeirri með samræmdri stafsetningu fornri, þá hljóðar það svo, með leyfi forseta:

„Nú sitja þeir þar til er dómar fara út. Þá kveðr Sámr upp menn sína ok gengr til lögbergs; var þar þá dómr settr. Sámr gekk þá diarfliga at dóminum. Hann hefr þegar upp váttnefni ok sótti mál sitt at réttum landslögum á hendr Hrafnkatli goða, miskviðalaust með sköruligum flutningi. Þessu næst koma þeir Þjóstarsynir með mikla sveit manna; allir menn vestan af landi veittu þeim lið, ok sýndist þat at Þjóstarsynir váru menn vinsælir. Sámr sótti málið í dóm þangat til er Hrafnkatli var boðit til varnar, nema sá maðr væri þar viðstaddr er lögvöru vildi frammí hafa fyrir hann at réttu lögmáli. Rómr varð mikill at máli Sáms; kvazk engi vilja lögvörn fram bera fyrir Hrafnkel.

Menn hlupu til búðar Hrafnkels ok sögðu honum hvat um var at vera.

Hann veiksk við skjótt ok kvaddi upp menn sina ok gekk til dóma, hugði at þar mundi litil vörn fyrir landi; hafði hann- þat í hug sér at leiða smámönnum að sækja mál á hendur honum; ætlaði hann at hleypa upp dómum fyrir Sámi ok hrekia hann af málinu. En þess var nú eigi kostr. Þar var fyrir sá mannfjölði at Hrafnkell komsk hvergi nær; var honum þröngt frá í brott með miklu ofríki svá at hann náði eigi at heyra mál þeira er hann sóttu; var honum því óhægt at færa lögvörn fram fyrir sik.

En Sámr sótti málit til fullra laga, til þess er Hrafnkell var alsekr á þessu þingi. Hrafnkell gengr þegar til búðar ok lætr taka hesta sína ok ríður á brott af þingi ok unði illa við sínar málalykðir, því at hann átti aldri fyrr slíkar. Ríðr hann þá austr Lyngdalsheiði ok svá austr á Síðu, ok eigi léttir hann fyrr en heima í Hrafnkelsdal ok sezk á Aðalból ok lét sem ekki hefði í orðit.

En Sámr var á þingi ok gekk mjök uppstertr. Mörgum mönnum þykir vel þó at þann veg hafi at borizk at Hrafnkell hafi hneykiu farit, ok minnask nú at hann hefir mörgum ójafnað sýnt.

Sámr bíðr til þess at slitit er þinginu. Búask menn þá heim. Þakkar hann þeim bræðrum sína liðveizlu, en Þorgeirr spurði Sám hlæiandi hversu honum þættí at fara.

Hann lét vel yfir því.

Þorgeirr mælti: „Þykkisk þú nú nokkuru nær en áðr?“

Sámr mælti: „Beðit þykki mér HrafnkelI hafa sneypu er lengi mun uppi vera þessi hans sneypa, ok er þetta við mikla fémuni.“

„Eigi er maðrinn alsekr meðan eigi er háðr féránsdómr, ok hlýtr þat at hans heimili at gera. Þat skal vera 14 nóttum eptir vápnatak.“

En þat heitir vápnatak er alþýða ríðr af þingi.

„En ek get,“ segir Þorgeirr, „at Hrafnkell mun heim kominn ok ætli at sitia á Aðalhóli, get ek at hann mun halda mannaforráð fyrir yðr. En þú munt ætla at ríða heim ok setiask í bú þitt ef þú náir, at bezta kosti. Get ek at þú hafir þat svá þinna mála at þú kallir hann skógarmann, en slíkan ægishjálm get ek at hann beri yfir flestum sem áðr, nema þú hljótir at fara nokkuru lægra.“

„Aldrei hirði ek þat,“ segir Sámr.

„Hraustr maðr ertu,“ segir Þorgeirr, „ok þyki mér sem Þorkell frændi vill eigi gera endamiótt við þik. Hann vill nú fylgia þér þar til er ór slítr með ykkr Hrafnkatli, ok megir þú þá sitia um kyrt. Mun yðr þykkia nú vit skyldastir at fylgia þér, er vér höfum áðr mest í fengizk. Skulu vit nú fylgia þér um sinns sakir í Austfiörðu eða kantu nokkura þá leið til Austfiarða at eigi sé almannavegr?“

Sámr svaraði: „Fara mun ek ena sömu leið“ sem hann fór austan.

Sámr varð þessu feginn.“

Næst les ég með nútíma stafsetningu sömu kafla, og bið ég nú hv. þm. að taka vel eftir, hvort nokkur munur er á framburði, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú sitja þeir þar til er dómar fara út. Þá kveður Sámur upp menn sína og gengur til lögbergs; var þar þá dómur settur. Sámur gekk þá djarflega að dóminum. Hann hefur þegar upp vottnefnu og sótti mál sitt að réttum landslögum á hendur Hrafnkeli goða, miskviðalaust og með skörulegum flutningi. Þessu næst koma þeir Þjóstarsynir með mikla sveit manna; allir menn vestan af landi veittu þeim lið, og sýndist það að Þjóstarsynir voru menn vinsælir. Sámur sótti málið í dóm þar til er Hrafnkeli var boðið til varnar, nema sá maður væri þar við staddur er lögvörn vildi frammi hafa fyrir hann að réttu lögmáli. Rómur varð mikill að máli Sáms og spurt hvort enginn mundi lögvörn fram bera fyrir Hrafnkel.

Menn hlupu til búðar Hrafnkels og sögðu honum hvað um væri að vera.

Hann veikst við skjótt og kvaddi upp menn sína og gekk til dóma, hugði að þar mundi lítil vörn fyrir landi; hafði hann það í hug sér að leiða smámönnum að sækja mál á hendur honum; ætlaði hann að hleypa upp dóminum fyrir Sámi og hrekja hann af málinu. En þess var nú eigi kostur. Þar var fyrir sá mannfjöldi að Hrafnkell komst hvergi nær; var honum þröngt frá í braut með miklu ofríki svo að hann náði eigi að heyra mál þeirra er hann sóttu; var honum því óhægt að færa lögvörn fram fyrir sig.

En Sámur sótti málið til fullra laga, til þess er Hrafnkell varð alsekur á þessu þingi. Hrafnkell gengur þegar til búðar og lætur taka hesta sina og ríður í braut af þingi og undi illa við sínar málalyktir, því að hann átti aldrei fyrr slíkar. Ríður bann þá austur Lyngdalsheiði og svo austur á Síðu, og eigi léttir hann fyrr en hann kemur í Hrafnkelsdal og sest á Aðalból og lét sem ekki hefði í orðið.

En Sámur var á þingi og gekk mjög uppstertur.

Mörgum mönnum þykir vel þó að þann veg hafi að borist að Hrafnkell hafi hneykju farið, og minnast nú að hann hefur mörgum ójafnað sýnt.

Sámur bíður til þess að slitið er þinginu. Búast menn þá heim. Þakkar hann þeim bræðrum sína liðveislu, en Þorgeir spurði Sám hlæjandi hversu honum þætti að fara.

Hann lét vel yfir því.

Þorgeir mælti: „Þykist þú nú nokkru nær en áður?“

Sámur mælti: „Beðið þykir mér Hrafnkell hafa sneypu mikla er lengi mun uppi vera, og er þetta við mikla fémuni.“

Þorgeir mælti: „Eigi er maðurinn alsekur meðan eigi er háður féránsdómur, og hlýtur það að hans heimili að gera; það skal vera 14 nóttum eftir vopnatak.“

En það heitir vopnatak er alþýða ríður af alþingi.

„En ég get,“ segir Þorgeir, „að Hrafnkell muni heim kominn og ætli að sitja á Aðalbóli; get ég að hann mun halda mannaforráð fyrir yður. En þú munt ætla að ríða heim og setjast í bú þitt ef þú náir að besta kosti. Get ég að þú hafir það svo þinna mála að þú kallir hann skógarmann, en slíkan ægishjálm get ég að hann beri yfir aðra menn sem áður, nema þú hljótir að fara nokkru lægra.“

„Aldrei hirði ég það,“ segir Sámur. „Hraustur maður ertu,“ segir Þorgeir, „og þykir mér sem Þorkell frændi minn vilji eigi gera endamjótt við þig. Hann vill nú fylgja þér þar til er úr slítur með ykkur Hrafnkeli, og megir þú þar sitja um kyrrt. Mun yður nú þykja við skyldastir að fylgja þér, er vér höfum áður mest í fengist. Skulum við nú fylgja þér um sinns sakir í Austfjörðu, eða kanntu nokkra þá leið til Austfjarða að eigi sé almannavegur.“

Sámur kvaðst fara mundu hina sömu leið sem hann fór austan og varð hann nú þessu feginn.“

Gekk hann þá „mjög uppstertur“ af þinginu, stóð hér. Ég vænti þess að hv. þm. hafi eigi getað greint neinn þann mismun á máli mínu er gæfi til kynna hvor stafsetningin notuð væri í útgáfunum.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka þessu í bili

þó að margt sé enn ósagt sem ég mun koma að hér síðar þegar aðrir ræðumenn, sem bíða eftir því að taka hér til máls, hafa talað. Það er bara eitt atriði sem ég vildi víkja að í lokin. Það er sú staðreynd sem ég vildi benda á áður en ég fer úr þessum ræðustól, að það eru vissulega til margs konar setur í landinu. Orðið seta getur táknað vissa stellingu mannslíkamans, þ.e.a.s. þegar hann er hvorki lóðréttur, eins og hann er aðjafnaði þegar hann stendur, heldur ekki láréttur, eins og hann er að jafnaði þegar hann liggur, heldur er það sú stelling sem maðurinn er í þegar hann situr á stól. Og ef stóllinn er með hallandi baki, þá er stelling líkamans mjög lík því sem stafurinn z er formaður. Aðrar setur eru til. Það er þráseta og þaulseta af því tagi sem hæstv. forseti Nd. hefur iðkað svo myndarlega hér í nótt. Hv. þm. eru stundum sakaðir um þaulsetu og þá er nú ekki átt við það að þeir sitji mjög lengi í stólum sínum hér í þingsal, heldur að þeir gefi of oft kost á sér til framboðs og að það skorti þar nægilega endurnýjun, og ekki skal ég nú alveg taka fyrir að það séu einstaka menn heldur þaulsætnir í þessari merkingu.

Svo er til önnur seta sem tíðkast hér á Alþ., og það er hjáseta. Hún kemur fyrir þegar einhver þm. fæst ekki með nokkru mögulegu móti til að taka afstöðu í einhverju máli, hvorki með því né móti. Þá heitir það að hann iðki hjásetu.

Enn er sú tegund setu hér á landi sem heitir herseta og hefur staðið í eina þrjá áratugi. Um þá setu hafa verið meiri deilur en um þessa z að vísu, og enn er til baráttufólk gegn þeirri setu eins og gegn hinni z-unni. Það fólk ætlar sér í Keflavíkurgöngu á laugardaginn kemur. Þessi seta var líka mikið rædd á Alþ. á sínum tíma. Þær umr. urðu nokkuð langar og ég geymi mér þær til síðari ræðu, en ætla að gefa aðeins sýnishorn af því hvað sagt var þá. Þá sagði Einar Olgeirsson, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég skal nú ræða þennan samning sjálfan og þau rök sem færð hafa verið fram fyrir honum. Ég vil geta þess út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að Atlantshafssáttmálinn veitti ríkisstj. rétt til að gera þennan samning, að það fer mjög í bága við það sem segir í Morgunblaðinu 22. mars 1949 um yfirlýsingu ríkisstj. Þá segir hann:

„Við skýrðum rækilega sérstöðu okkar sem fámennrar og vopnlausrar þjóðar, sem hvorki gæti né vildi halda uppi her sjálf, og munum því aldrei samþykkja að erlendur hér né hérstöðvar væru í landi okkar á friðartímum.“ Og síðar: „Er því allur ótti um það, að fram á slíkt verði farið við okkur ef við göngum í bandalagið, gersamlega ástæðulaus.“

Ég vil minna á þetta af því að þau rök, sem notuð hafa verið hér á landi s.l. 5 ár, hafa alltaf verið þau að það eina, sem íslendingar gætu verið öruggir með væri að ekki yrði hér herstöð á friðartímum. En grímunni var kastað þegar þessi hersamningur var gerður. Þá var herveldi Bandaríkianna látið tala.

Rökin, sem færð eru fyrir samningnum, eru þau að útlitið í alþjóðamálum sé svo alvarlegt og staða Íslands slík að nú verði að kalla her inn í landið. Svo framarlega sem menn ætla að fara inn á það að telja ófriðarástand í heiminum af því að styrjöld er í Kóreu, þá vil ég spyrja: Hvenær eru þá friðartímar? Síðustu 100 árin hefur varla liðið svo heilt ár að ekki hafi verið háður ófriður einhvers staðar í veröldinni af englendingum, frökkum, hollendingum, belgum eða öðrum nýlenduríkjum. Það hefur varla liðið svo ár að eitthvert þessara ríkja hafi ekki átt í árásarstyrjöld sem þau hafa komið af stað í Afríku eða Asíu eða annars staðar í heiminum. Þau hafa átt í árekstrarstyrjöldum út um alla veröld með þeim afleiðingum og með það í huga að drottna í veröldinni. Ég get vel skilið að hæstv. ráðh. geri sér ekki grein fyrir þessum staðreyndum sögunnar. Það er ekki svo langt liðið síðan hann skoraði á mig hér á Alþ. að nefna þó ekki væri nema eitt dæmi um að lýðræðisríki hefði nokkurn tíma framið árásarstríð, og ég var neyddur til að gefa honum tíma í mannkynssögu hér á Alþ. Það er nokkuð undarlegt að slíkir menn skuli finnast hér á Alþ. Það er eins og hann hafi ekki minnstu hugmynd um nokkurn skapaðan hlut af því sem gerst hefur í sögu mannkynsins síðustu aldirnar og geti ekkert lært af þeirri reynslu sem sagan hermir okkur hvernig þessi lýðræðisríki Vestur-Evrópu hafa brotið undir síg heiminn á síðustu öldum.

Það, sem nú er að gerast í veröldinni, er sá atburður að þjóðir, sem búnar eru að vera nýlenduþjóðir, sumar um aldir, eru að rísa upp og heyja sina sjálfstæðisbaráttu á sama hátt og við íslendingar. Svo framarlega sem þær hafa ekki eins góða aðstöðu og við höfðum, þá verða þær að heyja hana með vopnavaldi, eins og Bandaríki Norður-Ameríku urðu að gera þegar þau risu upp á móti bretum. Sagan síðustu 150 árin hefur verið saga um uppreisnir þessara nýlenduþjóða móti þjóðum Vestur-Evrópu og móti lýðræðisríkjum heimsins. Þessar nýlenduþjóðir eru að berjast fyrir því að ráða yfir sínum auðlindum, og við íslendingar höfum haft samúð með þessum þjóðum allan þann tíma sem við höfum barist fyrir okkar frelsi. Ef hv. alþm., sem nú eiga að dæma um þetta mál, hefðu gert sér far um að lesa erlendar fréttir og íslensk tímarit undanfarna öld þá mundu þeir sjá að hjarta Íslands hefur ávallt slegið með þeim þjóðum sem barist hafa fyrir sínu sjálfstæði. Það hefur hver nýlenduþjóðin á fætur annarri risið upp á móti hinum voldugu menningar- og lýðræðisþjóðum Vestur-Evrópu, á sama hátt og íslendingar háðu sína sjálfstæðisbaráttu gegn dönum, og á sama hátt skiljum við að þessar þjóðir eru að berjast fyrir sínu frelsi og eru að því enn í dag. Og það, sem gerir þennan mun móts við það, sem gerðist fyrir öld, það er að þessar þjóðir eru stoltari í frelsisbaráttunni heldur en fyrr. Asíubúar eru að hrista af sér ok Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna og koma til með að hrista það af sér þótt hæstv. utanrrh. reyni að hræða íslenska þm. með því hvað það sé ægilegt að asíubúar skuli vera að gera kröfu til þess að eiga þessar ríku auðlindir. Það er hins vegar skiljanlegt að sá utanrrh., sem sjálfur slakar til og afsalar réttindum íslendinga í þeirra sjálfstæðisbaráttu og yfirráðum yfir landhelginni, ávíti persa fyrir að heimta réttinn yfir auðlindunum í eigin hendur. Svo framarlega sem þau rök eiga að standast að nú séu ófriðartímar af því að þjóðir Asíu eru að varpa af sér kúgun Bandaríkjanna, þá má búast við ófrið alla þessa öld. Þjóðir Afríku, sumar, eru líka að rísa upp og þjóðir Suður-Ameríku eru að hrista af sér gullok Bandaríkjanna. Það verður haldið þannig áfram, jafnvel í heila öld. Það getur tekið áratugi fyrir þessar þjóðir að varpa af sér okinu, og eigum við íslendingar að telja að allan þann tíma skuli amerískur her vera hér á Íslandi.

Ég vil vekja eftirtekt á því, að svo framarlega sem þau rök, sem hæstv. ríkisstj. færir fram, eiga að standast, þá þýðir það að hér eigi að vera amerískur her um ófyrirsjáanlegan tíma á friðartímum. Hér var það greinilegt þegar hæstv. utanrrh, flutti sitt mál að það er trúaratriði fyrir honum að það sé óhugsandi að þjóðir eins og Bandaríkin, Bretland, Holland og Frakkland heyi árásarstríð, það sé útilokað. Þó eru ekki meira en tvö ár síðan Sameinuðu þjóðirnar lýstu Holland árásarríki. En staðreyndir koma þessu máli ekkert við því að það er trúaratriði að þessi ríki séu ekki árásarríki. Þetta eru rök sem ætlast er til að þm. fallist á — og fallist á með þeim forsendum að utanrrh. lýsi yfir að þó að Alþ. kæri sig ekki um að samþykkja samninginn, þá hafi ríkisstj. fullan rétt til að gera hann og ríkisstj. mundi gera hann þó að Alþ. felldi hann, m.ö.o. ríkisstj. tæki ekkert tillit til þess sem Alþingi segði, því að hún semdi við herveldi Bandaríkjanna og gæti gert það sem henni sýndist. Það er hins vegar ekki úr vegi að minnast á það um leið, þegar rætt er um það hvort friðartímar eða ófriðartímar séu, að Alþ. íslendinga hefur áður en ríkisstj. gerði þennan samning tekið sínar ákvarðanir einróma um hvað gera skuli þótt ófriðartímar væru að áliti Sameinuðu þjóðanna. Þegar Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar, þá var það gert að meginskilyrði, með samþykki utanrmn. frá Íslands hálfu að Ísland væri ekki skyldugt til þátttöku í styrjöld sem jafnvel Öryggisráðið og þá stórveldin fimm væru sammála um að heyja. En í nál. utanrmn. segir:

Einna þýðingarmest ákvæðanna um skyldur og kvaðir er 43. gr. sáttmálans. Sú gr. áskilur meðlimum samningsrétt við Öryggisráðið um kvaðir samkv. gr., og leggur nefndin þann skilning í ákvæðið að engar slíkar kvaðir sé unnt að leggja á íslenska ríkið nema að fengnu samþykki þess sjálfs. Íslendingar eru eindregið andvígir herstöðvum í landi sínu og munu beita sér gegn því að þær verði veittar.“

Hæstv. forseti. Ég læt máli mínu lokið í bili. En ég get ekki farið úr þessum ræðustól að sinni nema ítreka afstöðu mína til z og hersetu, og gegn hvoru tveggja mun ég halda áfram að berjast.