13.05.1976
Neðri deild: 109. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4279 í B-deild Alþingistíðinda. (3628)

115. mál, íslensk stafsetning

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Ég mun nú ekki komast þar með tærnar sem fyrri ræðumenn hafa haft hælana að því er snertir lengd ræðu, og kannske grætur það nú enginn. Ég hef áður lýst andstöðu minni við þetta frv. og greint ástæður fyrir þeirri skoðun minni að Alþ. beri ekki að setja ritreglur, og ég skal ekki endurtaka það sem ég hef áður sagt um þetta atríði. En því til viðbótar bendi ég á þær umr. sem hér fara fram. Ég held að enginn geti sagt að þær séu æskilegur efnislegur undirbúningur að ákvörðun um ritreglur fyrir íslenska skóla, að ákvörðun um stafsetningu íslenskrar nútímatungu, eins og segir í frv. því sem hér liggur fyrir. Fylgismenn frv. munu telja að langar ræður andstæðinga þess beri vott um fáheyrðan mótþróa og þráa, mótþróa gegn því að frv. nái að ganga undir atkv. og hljóta endanlega afgreiðslu hér í hv. d. og þá um leið á Alþ. því er nú situr. Þetta er nú bæði og. Það hefur nefnilega ekki sjaldan borið við að þingmál hafi stöðvast á síðustu dögum þingsins hreinlega vegna tímaskorts, vegna þess að sýnt þótti að umr. yrðu svo langar að ekki rúmuðust innan þeirra tímamarka sem Alþ. hafði sett sér hverju sinni. Ég man eftir ýmsum dæmum um þetta, ég sé ekki ástæðu til að fara að rifja þau upp hér. Ég held að flestir hv. alþm. kannist við þau. Það má þó auðvitað alltaf deila um hvort um nákvæmar hliðstæður sé að ræða eða ekki.

Andstæðingar frv. undrast hins vegar að forseti skuli freista að þoka málinu áfram með svo löngum næturfundi sem raun ber vitni. En einnig þetta hefur oft til borið og oft tekist, en ekki ævinlega. Ég ætla ekkert að hrósa þeim vinnubrögðum sem kölluð hafa verið í þingsögunni málþóf og mér finnst nú að hér sé um hönd haft og eins og ég vék að áðan hefur oft áður verið reynt og stundum hótað, og það hefur nægt til þess að stöðva málin. En hér er náttúrlega um engin einsdæmi að ræða. 'Hv. þm. geta verið alveg rólegir þess vegna og minnugir orðanna að nóg er nóttin. En sem sagt, þessar umr. virðast mér styðja þá skoðun mína og það mjög eindregið að það sé ekki æskilegt að Alþ. setji sjálft stafsetningarreglur í einstökum atriðum, hitt sé fremur ráð, að Alþ. leitist við að tryggja með skynsamlegri rammalöggjöf rækilegan undirbúning sérhverrar ákvörðunar um íslenska stafsetningu, um búning ástkæra ylhýra málsins í rituðu formi, og að Alþ. taki sér þá ákvörðunarvald um það hvenær leyfa skuli breytingar á stafsetningu þeirri sem notuð er á opinberum plöggum og í skólabókum, því að það er nánast það sem um hefur verið fjallað í reglugerðum og ætlast er til með þessu frv. svo og því frv. sem ég lagði fyrir.

Þetta síðast nefnda, þ.e. málskot til Alþ. um það hvort leyfa skuli breytingu, helgast m.a. af því að sérhver breyting kostar hið opinbera heilmikla fjármuni sem Alþ. hlýtur að hafa forgöngu um að afla, og koma þó margar aðrar orsakir til sem eru að mínum dómi þyngri á metum heldur en fjármálahliðin. É`g tel það meginmistök hjá hv. flm. og öðrum fylgismönnum þessa frv., sem hér er verið að ræða, og þá sérstaklega hjá meiri hl. hv. menntmn., hversu seint þetta frv. er afgreitt frá n. Af því leiðir auðvitað hvort tveggja, að málið kemst í hálfgerða sjálfheldu vegna tímaskorts hér í þinglokin, og svo hitt, sem mér finnst ekki síður alvarlegt, efnislega, að fjölmargir aðilar, sem þetta mál varðar sérstaklega, kennarar og málvísindamenn og auðvitað ýmsir fleiri, fá vart ráðrúm til þess að kynna alþm. viðhorf sín, hvað þá að hv. þm. fái sæmileg tækifæri til þess að brjóta ályktanir þeirra og ábendingar til mergjar, vega bær og meta í einstökum atriðum.

Ég tel að um viðkvæmt mál og vandasamt eins og það mál sem hér er rætt skipti það alveg meginmáli að um það sé fjallað rækilega og af þeim aðilum sem áhugasamastir eru, og þá ekki síst þeim sem starfa að framkvæmd viðkomandi ákvæða laga eða reglugerða og í þessu tilviki að framkvæmd móðurmálskennslunnar á hinum ýmsu skólastígum fyrst og fremst. Ég er satt að segja dálítið undrandi yfir því að menntmn. þessarar hv. d. skuli ekki hafa séð ástæðu til að senda þetta frv. til umsagnar, svo sem titt er gert við ámóta kringumstæður og raunar einnig oft þótt um einfaldari mál sé að ræða heldur en þetta. En eftir því sem ég kemst næst, þá hefur málið ekki verið sent til umsagnar. Og ég hygg að einmitt þetta, að málið var ekki sent til umsagnar, hafi orðið til þess að margir áhugamenn um þessi efni hafi skoðað það sem vísbendingu um að þetta frv. yrði naumast tekið til fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi og af því leiði svo það, a.m.k. að verulegu leyti, að margir hafa orðið höndum seinni að koma ábendingum sínum og aths. á framfæri við alþm. og menntmn, sérstaklega. Sést það m.a. á því, að það er fyrst þessa allra síðustu daga sem ýmsir aðilar eru að koma ábendingum sínum á framfæri, Samband ísl. barnakennara, þeir sem vinna í skólarannsóknadeild rn. o.fl., o.fl.

Mér sýnist að eins og málum er nú komið væri í sjálfu sér skynsamlegast að láta hér staðar numið við meðferð frv. hv. 9. þm. Reykv. o.fl. Á vissan hátt væri í rauninni kannske æskilegt að skera úr þeirri þrætu eða þeim ágreiningi sem upp hefur komið á Alþ. í þessu máli. Og ég skal viðurkenna það að um skeið hugleiddi ég það í fullri alvöru hvort það væri ekki réttast að stuðla að því að svo mætti verða, að úr þessum ágreiningi yrði beinlínis skorið með atkvgr, hér á hv. Alþ. En þegar hvort tveggja kemur til, hversu hæpið og ég vil nú eiginlega segja óeðlilegt það er að mínum dómi að Alþ. semji ritreglur og setningarfræði, ef svo mætti segja, og svo hversu örðugt er um vik að brjóta málið til mergjar með viðunandi hætti á þeim tíma sem nú virðist vera til umráða hér á hv. Alþ., þá held ég að það sé réttast að láta útrætt um þetta frv. að sinni. Ég hefði vel getað hugsað mér það að frv. hefði verið vísað frá með rökstuðningi eitthvað á þá leið að bar sem er liðið mjög að þingslitum, eftir því sem best yrði séð, og þröng á dagskrá d. og að hér virðist torvelt vegna tímaskorts að brjóta til mergjar einstök atriði frv. og svo þær ábendingar sem fram koma, þá væri sem sagt málinu vísað frá. En ég mun ekki flytja neina slíka till.

Ég álít að það hefði verið æskilegt að afgreiða frv. mitt um meðferð stafsetningarmálsins. Mér er auðvitað ljóst að til þess vinnst ekki tími úr því sem nú er komið enda þótt það frv. sé stórum einfaldara en þetta frv. sem felur í sér fjölmörg atriði um stafsetninguna sjálfa. En þó er það auðvitað liðinn tími að það sé hægt að afgreiða það á þeim dögum sem talið er að eftir séu af þinginu. En þá er þess að minnast að íslensk stafsetning er ekkert dægurmál, svo að þegar á allt er litið geta aðgerðir að skaðlitlu beðið enn um sinn, beðið haustsins t.d.

Þetta vildi ég nú láta koma fram hér við 3. umr. málsins.