13.05.1976
Neðri deild: 109. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4281 í B-deild Alþingistíðinda. (3629)

115. mál, íslensk stafsetning

Frsm. minni hl. (Magnús T. Ólafsson):

Hæstv. forseti. Máske hafa einhverjir sýnt hér þráa, en ég vil nú, um leið og ég stíg í stól, ljúka lofsorði á það einstaka þolgæði sem hæstv, menntmrh. hefur sýnt að hlusta á þessar löngu umr. í þunnskipuðum sal. Ég vona að þótt þær máske valdi honum óþægindum og einhverjum fleirum —

(Gripið fram í.) — það kemur síðar, — þá hafi þær þó a.m.k. að einhverju leyti verið fróðlegar og til þess fallnar að vekja áhuga. Ég veit með sjálfan mig að eftir að hafa hlustað á þessar umr. hér á næturþeli er ég ýmiss vísari um þessi mál sem mér var ekki kunnugt eða svo ljóst áður sem nú er orðið.

Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, sem hér hefur verið á drepið, eða útlista það nánar. Aðeins vildi ég lýsa enn á ný yfir fylgi mínu við frv. hæstv. menntmrh., sem ekki fékkst afgreitt úr menntmn. En ég á von á að það rísi úr þeirri glatkistu sem reynt var að setja það í eins og fuglinn Fönix.

Ég tel aðeins ástæðu til að ítreka það, að ég hefði talið það stefna í mikið óefni þýðingarmiklu máli hefði Alþ. með skjótum hætti og eftir tiltölulega litla athugun og íhugun brugðið á það ráð að hverfa frá langri hefð um meðferð stafsetningarmála og gerast sjálft semjandi stafsetningarreglna. Það hefði að mínum dómi verið til ills, bæði fyrir Alþ. og þó enn frekar fyrir þá, sem þurfa að læra stafsetninguna, og þá, sem þurfa að kenna hana.

Ég vil svo, hæstv. forseti, leggja hér fram brtt. við það frv. sem fyrir liggur, 116. mál. Þessi brtt. er borin fram af mér og hv. þm. Ingvari Gíslasyni og hljóðar svo:

„Við 2. gr. Greinin falli niður.

Við 3. gr. Greinin falli niður.

Við 4. gr. Greinin falli niður.

Við 5. gr. Greinin falli niður.“

Eftir stæðu af frv. að þessari brtt. samþykktri 1. gr. og 6. gr. og er þá í frv. fólgin almenn regla, en ekki stafsetningarreglur með lagasniði.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja þessa brtt. fram og óska að afbrigða verði leitað. (Forseti: Óskar hv. ræðumaður að afbrigða verði leitað fyrir till. áður en hann heldur áfram ræðu sinni?) Já, ég óska þess að till. liggi fyrir til umr. áður en umr. er haldið lengra.