13.05.1976
Sameinað þing: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4299 í B-deild Alþingistíðinda. (3638)

Almennar stjórnmálaumræður

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Góðir íslendingar. Við eldhúsdagsumr. virðist sú venja hafa skapast að stjórnarandstaðan telur sitjandi ríkisstj. allt til foráttu og verk hennar hin verstu. Stuðningsmenn ríkisstj. hins vegar tíunda gerðir hennar og telja henni gjarnan allt til ágætis. Að sjálfsögðu er engin mynd af stjórnarstarfi svo einföld. Allar ríkisstj. hafa látið ýmislegt gott af sér leiða, en öllum hefur einnig mistekist á ýmsum mikilvægum sviðum.

Þann tíma, sem ég hef til umráða, mun ég ekki nota til þess að telja upp þau mörgu mál sem þessi ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Ég mun reyna að draga upp mynd af stöðunni eins og hún kemur mér fyrri sjónir á miðju kjörtímabili.

Þessi ríkisstj. var mynduð eftir að Framsfl. hafði gert ítrekaðar tilraunir til þess að koma á nýrri vinstri stjórn. Við töldum eðlilegt að slík stjórn yrði mynduð og héldi áfram því mikla uppbyggingarstarfi sem vinstri stjórnin hóf. Þetta mistókst, eins og alþjóð er kunnugt, vegna ósættanlegra sjónarmiða hinna svo kölluðu vinstri flokka sem þeir sjálfir gerðu grein fyrir í blaðagreinum á eftir, og mætti hv. þm. Garðar Sigurðsson, sem hér talaði áðan, fletta upp í Þjóðviljanum frá þeim tíma og sannfærast um það að ég fer hér með rétt mál. Framsóknarmönnum var ljóst að vegna hins alvarlega ástands í efnahgasmálum var ábyrgðarlaust að hafna myndun þingræðisstjórnar. Sjálfstfl. sýndi vilja til þess að takast af ábyrgð á við þjóðfélagsvandann. Þetta vildum við framsóknarmenn virða og því var mynduð sú stjórn sem nú situr.

Við þessa ríkisstj. voru bundnar miklar vonir, ekki síst vegna þess að hún hefur mikinn og sterkan meiri hl. að baki. Því get ég ekki neitað að ég hef orðið fyrir vonbrigðum. Þótt margt hafi verið vel gert hefur ríkisstj. ekki tekist nógu vel að ráða við stærsta vanda þjóðarinnar, efnahagsmálin. Þessi staðreynd á að vísu sínar skýringar. Í klofningsbrölti SF vorið 1974 tókst ekki að ná samstöðu um nauðsynlegt viðnám gegn verðbólgu sem formaður Framsfl. lagði fram till. um. Af þeim ástæðum voru efnahagsmálin stjórnlaus marga mánuði. Þá hófst sá hraði verðbólgunnar sem ekki hefur enn ráðist við. Þessi ríkisstj. setti sér þá meginstefnu að hægja á verðbólgunni, en halda þó fullri atvinnu, og e.t.v. kemur fram í þessu meginmunurinn á þeirri stefnu, sem Framsfl. hefur lagt áherslu á, og stefnu Alþfl. hins vegar sem þm. Sighvatur Björgvinsson virtist ekki gera sér grein fyrir áðan. Við viljum ekki taka upp stefnu Alþfl. sem fram kom í tíð viðreisnarstjórnarinnar og leiddi á árunum 1967–1968 til mesta atvinnuleysis sem yfir þessa þjóð hefur gengið lengi.

Við viðurkennum að þetta er vandrötuð braut. Eflaust hefði verið unnt að draga mjög úr verðbólgunni með því að takmarka atvinnuna. Þótt verðbólgan sé hið versta böl tel ég þó atvinnuleysi verra. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að meira hefði á unnist ef gætt hefði meiri festu í ýmsum aðgerðum ríkisstj.

Ekkert mál hefur tekið meiri tíma ríkisstj. og þm. en landhelgismálið. Um það bera vott langar og miklar umr. utan dagskrár sem stjórnarandstæðingar hafa knúið fram, en hafa satt að segja verið málinu til mjög lítils gagns, ef ekki til óþurftar. Stjórnarflokkarnir ákváðu að færa fiskveiðilögsöguna út í 200 sjómílur. Það var nokkuð djarft með tilliti til þess að 50 sjómílna fiskveiðilögsagan var ekki enn unnin og Hafréttarráðstefnan hafði ekki lokið sínum störfum. Í ljós kom þó fljótlega að hér var um rétta ákvörðun að ræða. Samdóma álít fiskifræðinga, ekki aðeins á Íslandi, heldur við allt Norður-Atlantshafið, sýnir okkur að ástand fiskstofnanna, einkum þorskstofnsins, er slíkt að við megum engan tíma missa ef þorskstofninn, þessi grundvöllur íslensks efnahagslífs, á ekki að hrynja.

Þótt um útfærsluna hafi verið full samstaða hafa að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir um einstök framkvæmdaatriði. Þótt ég viðurkenni að ekki beri að blanda um of saman þáttlöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og fiskveiðilögsögunni þykir mér ákaflega erfitt að þola það að við íslendingar sitjum í samstarfi við breta í þeim félagsskap á sama tíma og þeir beita okkur slíku ofbeldi á Íslandsmiðum að fáheyrt mun vera. Menn segja gjarnan: Það er mikill styrkur af því að vera í Atlantshafsbandalaginu, Ég spyr: Hver er þessi styrkur? Var það e.t.v. það sem reið baggamuninn að bretar sökktu ekki Tý um daginn? Ég á erfitt með að koma auga á styrkinn. Um hitt er ég sannfærður, að það vopn, sem andstæðingurinn veit að aldrei verður beitt, er til lítils gagns.

Ég er því fylgjandi að sendiherra okkar hjá Atlantshafsbandalaginu sé kvaddur heim. Þeirrar skoðunar eru fjölmargir framsóknarmenn. En um það hefur ekki náðst samstaða innan stjórnarflokkanna. Í staðinn hefur sendiherra okkar hjá bretum verið kallaður heim, en það er ekki fullnægjandi.

Eftir síðustu atburði á Íslandsmiðum, hótanir Nimrod-þotunnar, hlýtur mælirinn að vera orðinn fullur hjá fleirum en mér. Ef utanrrh. fer á fund NATO í næstu viku á það að vera til þess að tilkynna að við treystum okkur ekki til þess að taka þátt í því samstarfi lengur, eins og nú er ástatt.

Ég á einnig erfitt með að sætta mig við málsmeðferð eftir svar bandaríkjamanna við málaleitun okkar um hraðbáta. Það er ekkert annað en löðrungur í andlit okkar að utanrrh. Bandaríkjanna skuli fara úr leið, stansa í London til þess að leggja áherslu á það við stallbróður sinn þar að bandaríkjamenn muni ekki veita íslendingum aðstoð í fiskveiðideilunni. Þess á að krefjast að utanrrh. Bandaríkjanna komi hingað og gefi skýringar. Einnig á að gera honum grein fyrir því að aðstaða sú, sem bandaríkjamenn hafa hér á landi, er hvorki sjálfsögð né trygg og satt að segja full ástæða til þess eftir slíka framkomu að hún sé endurskoðuð. Eina skýringin á þessari framkomu er sú, að annað hvort sé bandaríkjamönnum sama um aðstöðuna eða þeir telja hana svo örugga að þeir geti leyft sér hvað sem er.

Um þessi atriði hefur ekki náðst samstaða. Sjálfstfl. hefur ekki veríð til viðræðu um það að blanda þessum málum og fiskveiðideilunni við breta saman á nokkurn máta. Út af fyrir sig er Sjálfstfl. að sjálfsögðu frjáls að hafa þá afstöðu. Utanrrh. og dómsmrh. hafa hins vegar hvað eftir annað sýnt í þessum málum stórum meiri festu þótt orð þeirra og aðgerðir hafi e.t.v. orðið máttlausari þar sem ríkisstj. hefur ekki í heild staðíð að baki.

Samningar við erlendar þjóðir um fiskveiðar hafa að sjálfsögðu verið mjög á dagskrá. Eftir upplýsingar fiskifræðinganna er ljóst að við höfum engin efni á því að heimila öðrum þjóðum veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu, og vafalaust vilja allir íslendingar forðast slíka samninga. Hins vegar verður einnig að viðurkenna það sjónarmið að við íslendingar höfum ekki fremur efni á því að erlendir aðilar veiði í íslenskri fiskveiðilögsögu án samninga, og í raun og veru hafa þeir mikið til síns máls sem segja: Þetta er bara reikningsdæmi. Við verðum að meta hvor leiðin veitir íslenskum fiskstofnum meiri vernd.

Samningarnir við vestur-þjóðverja eru langt frá því að vera góðir. En meiri hl. Alþ. komst að þeirri niðurstöðu að það væri skárra að gera samninga við vestur-þjóðverja en að eiga í stríði við breta og þá á sama tíma. Þjóðverjum hefur ekki tekist að standa við það atriði samningsins að fá niðurfelldan toll af innflutningi okkar í Efnahagsbandalagið. Út af fyrir sig get ég sætt mig við að þeir fái einhvern viðbótarfrest til að athuga málið. En ég fagna þeim ummælum utanrrh. að hann verði ekki langur. Ég legg á það höfuðáherslu að samningurinn við vesturþjóðverja verði niður felldur ef tollalækkunin kemur ekki til framkvæmda mjög fljótlega og í síðasta lagi áður en hólfið er opnað á Vestfjarðamiðum 1. júní n.k.

Landhelgisgæslan hefur staðið sig með miklum ágætum, satt að segja miklu betur en ég þorði að vona. Við eigum að halda baráttunni áfram ótrauðir. Ég hallast að því að rétt sé að fjölga togurum í gæslunni. Þeir hafa reynst sterkir og hættulegir þunnri skel freigátnanna. Það voru mikil vonbrigði að ekki náðist samstaða um fjármagn til Landhelgisgæslunnar án þess að sú fjáröflun kæmi í vísítöluna og sem launahækkun. Ég trúi því alls ekki að almenningur þessa lands standi að baki Birni Jónssyni í þeirri smánarlegu kröfugerð.

Ég get ekki tekið undir það með hæstv. sjútvrh. að rétt sé nú að semja við breta. Ég hef þann metnað að ég á erfitt með að við íslendingar setjumst niður með bretum og brosum eins og ekkert hafi gerst. Ég er sannfærður um að stutt er í það að við sigrum breta ef við höldum áfram baráttunni, sem við stöndum í við þá, ákveðnir og rólegir og stöndum saman.

Ríkisstj. hefur kosið að leggja höfuðáherslu á Hafréttarráðstefnuna. Þar hafa okkar fulltrúar unnið með stórum ágætum, og árangur, sem náðist á síðasta fundi, er ákaflega mikilvægur. Hann færir okkur stórt skref nær því lokatakmarki að fá viðurkenndan yfirráðarétt okkar yfir 200 sjómílunum. E.t.v. verður það í haust, og þá hygg ég að þjóðin geti sameinast um þá niðurstöðu að mjög vel hafi tekist í landhelgismálinu þótt við höfum ekki verið sammála um einstakar framkvæmdir.

En verkefnin fram undan eru mörg. Ég vil treysta því að sterk ríkisstj. taki á þeim með vaxandi festu. Ég bendi á efnahagsmálin sem nr. eitt. Lengur verður ekki þolað að við eyðum meiri gjaldeyri en við öflum. Það er leikaraskapur að tala um höft eða ekki höft í þessu sambandi. Ef við komum ekki í veg fyrir slíka eyðslu köllum við yfir okkur þau verstu höft sem hugsast geta, höft hins ófrjálsa manns sem stendur ekki undir vaxandi skuldabyrði, höft sem ollu gjaldþroti Nýfundnalands á sínum tíma. Hins ber þó að geta, að þeim lánum, sem hafa verið tekin, hefur í verulegu magni verið varið til framkvæmda sem munu færa okkur auknar gjaldeyristekjur á næstu árum. Við verðum einnig að vinda ofan af verðbólguþróuninni. En ég ætla þó ekki að ræða um efnahagsmálin, það gera aðrir, heldur fyrst og fremst um ýmsa aðra þætti sem þarfnast markvissra aðgerða á næstu árum. Þó vil ég lýsa þeirra skoðun minni að lausn á efnahagsmálum er ekki fundin með hugsjón Stefáns Jónssonar, hv. þm. sem talaði hér áðan, að hverfa aftur að kotbúskap og árabátaútgerð. Við þurfum fyrst og fremst að styrkja þær atvinnugreinar, sem eru samkeppnisfærar á erlendum mörkuðum, og afla okkur þannig meiri gjaldeyristekna.

Þegar við gengum í Fríverslunarbandalagið fyrir sex árum sagði Eysteinn Jónsson á þingi að taka þyrfti upp nýja búskaparhætti ef sú þátttaka ætti ekki að verða íslenskum iðnaði að falli. Þá lofaði viðreisnarstjórnin iðnrekendum ýmsum aðgerðum til þess að jafna þeirra aðstöðu við innfluttan iðnaðarvarning. Við þetta hefur því miður ekki verið staðið nema að mjög litlu leyti og stendur íslenskur iðnaður nú ákaflega illa í samkeppni við erlendan iðnað við lækkandi tollverð. Hins vegar er augljóst að iðnaðurinn er sú vaxtarstoð sem við verðum einna mest að treysta á. Hann verður að taka við meginþorra fjölgandi þjóðar ásamt þjónustugreinunum. Við eigum þarna gífurlega möguleika, á því er enginn vafi, m. a. í framleiðslu úr íslenskum hráefnum, eins og t.d. hráefnum landbúnaðarins. Í því sambandi vek ég athygli á nýsettum lögum, sem landbrh. hefur haft forgöngu um, um mat og flokkun á gærum og ull. Þau munu hafa ómetanlega þýðingu fyrir iðnað sem á þessum hráefnum íslensks landbúnaðar byggir. Möguleikar okkar eru einnig miklir á fjölmörgum sviðum þekkingar og tækni. Það er að mínu mati eitt af stærstu verkefnum næsta vetrar að stokka upp spilin, helst að stiga eins og þrjú ár til baka í samningum við Fríverslunarbandalagið og setja fram nýja iðnþróunaráætlun sem við er staðið.

Markviss stjórn í sjávarútvegi er ekki aðeins þörf, heldur nauðsynleg. Aðeins með því móti getum við komið í veg fyrir hrun okkar helstu fiskstofna. Sjútvrn. hefur í vetur aflað sér margs konar heimilda til þess að hafa stjórn á þessum málum, eins og hæstv. sjútvrh. lýsti hér áðan. Fiskveiðilagafrv., sem nú er til meðferðar, er spor í þá átt, einkum sú heimild sem í frv. felst til skyndilokana á svæðum þar sem smáfiskadráp er mikið. Þessi stjórnun verður hins vegar ákaflega viðamikil og ég efast stórlega um að hún eigi heima í rn. Ég tel, að það sé eitt af stærstu verkefnum næstu mánaða að skipuleggja þessa stjórnun, og bendi í því sambandi á skipulag það sem norðmenn hafa. Þeir hafa sjálfstæðan fiskveiðastjóra sem hefur þessi mál öll með höndum og hefur alræðisvald, þegar honum þykir nauðsynlegt, til þess að koma í veg fyrri ofveiði og tryggja viðgang og hámarksnýtingu fiskstofuanna. Ég held að það sé aldrei gott að hafa svo viðkvæm mál í pólitískum höndum.

Raforkumálin hafa mjög verið á dagskrá í vetur. Við olíuhækkunina í lok ársins 1972 ákváðu menn, e.t.v. meira af kappi en forsjá, að gera allt sem unnt væri til þess að tryggja innlenda orku í stað erlendrar. Sigölduvirkjun var hafin. Ákveðið var að ráðast í virkjun Kröflu, Bessastaðaár og Suður-Fossár, línu norður o.fl.

Eflaust eiga þessar framkvæmdir ýmislegt til síns ágætis. Hins vegar óttast ég að við þær allar hafi orðið meiri og minni mistök, en um það ætla ég ekki að ræða. Langsamlega stærstu mistökin verða rakin til þess að framkvæmdirnar eru allar á sitt hverri hendi, Landsvirkjun virkjar Sigöldu, en sérstakar nefndir, fjórar talsins, settar á fót til þess að virkja Kröflu, leggja linu norður, virkja Suður-Fossá og undirbúa virkjun Bessastaðaár. Nýlega hefur að vísu sumt af þessu verið fært til Rafmagnsveitna ríkisins.

Þessi glundroði í skipulagi raforkumála er ekki nýtt fyrirbæri, hann hefur verið að þróast árum saman. Það er t.d. orðið nokkuð langt síðan Raforkumálaskrifstofan var klofin í frumeiningar sínar, þrjár stofnanir. Síðan vinna Rafmagnsveitur ríkisins og Orkustofnun að sömu verkefnum á sitt hvorri hæð sömu byggingar og virðist þar nánast enginn samgangur vera á milli. Við þetta ástand verður alls ekki lengur unað. Því tók aðalfundur miðstjórnar Framsfl. þessi mál til sérstakrar meðferðar í byrjun þessa mánaðar. Eftir ítarlegan undirbúning gekk fundurinn frá samþykkt um skipulag raforkumála sem Framsfl. er ákveðinn í að berjast fyrir. Með leyfi forseta vil ég lesa samþykkt þessa:

„Stefnt skal að jöfnun orkuverðs um land allt. Í því skyni skal lögð áhersla á að tengja saman raforkukerfi einstakra landshluta og tryggja þannig sem hagkvæmastar framkvæmdir og rekstur með samkeyrslu allra orkuvera og dreifikerfa. Í þessum tilgangi skal stefnt að eftirgreindu skipulagi orkumála:

1. Unnið verði að því að koma á fót einu fyrirtæki sem annist alla meginraforkuvinnslu og flutning raforku milli landshluta. Ríkisstj. taki í þessu skyni upp samninga við Landsvirkjun, Laxárvirkjun, Andakílsárvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Rafveitu Vestmannaeyja, Rafveitu Siglufjarðar og aðrar rafveitur, sem eiga og reka orkuver, um sameiningu slíks rekstrar í einni landsvirkjun, Íslandsvirkjun. Aðilar að þessu fyrirtæki og stjórn þess verði ríkissjóður og landshlutaveitur. Eignarhluti ríkissjóðs skal aldrei vera minni en 50%. Fyrirtækið undirbýr virkjanir og lætur virkja.

2. Unnið verði að því að koma á fót landshlutaveitum sem annist alla dreifingu og sölu á raforku í viðkomandi landshluta. Landshlutaveitur þessar geti einnig annast rekstur hitaveitna. Þær sjái um framkvæmdir sem nauðsynlegar eru vegna viðkomandi rekstrar. Aðilar að slíkum landshlutaveitum og stjórnum þeirra verði sveitarfélög og væntanleg Íslandsvirkjun.

3. Orkustofnun verði ríkisstj. til ráðuneytis um orkumál og annist upplýsingasöfnun hvers konar um orkulindir þjóðarinnar og geri áætlanir um nýtingu þeirra og annist frumrannsóknir fyrir virkjanir. Orkustofnun veiti landsvirkjun og landshlutaveitum nauðsynlega þjónustu.“

Þarna hefur Framsfl. riðið á vaðið og markað ákveðna stefnu á þessu mjög svo mikilvæga sviði, — markað þá stefnu að öll meginraforkuvinnsla í landinu verði á einni hendi. Með þessu móti einu er unnt að tryggja að hagkvæmustu framkvæmdirnar verði valdar og raforka seld á sama verði um land allt, í heildsölu a.m.k. Jafnframt er þarna mörkuð sú stefna, að heimamenn verði virkir þátttakendur í þessu kerfi, þeir eigi sina landshlutaveitu sem annist dreifingu raforkunnar, rekstur hitaveitna o.fl., eins og þeir kunna að kjósa, og verði jafnframt þátttakendur í gegnum þessar landshlutaveitur í landsveitunni, Íslandsvirkjuninni.

Orkumálaráðherra hefur lýst því yfir á þingi að hann muni í sumar setja á fót n. til þess að skoða skipulag raforkumála. Þar munu þessar till. að sjálfsögðu verða lagðar fram. Það er von mín að samstaða náist um skipulag orkumála í anda þeirra till. sem ég hef nú lýst.

Mér hefur ekki unnist tími til að gera grein fyrir mikilvægum málum, t.d. á sviði landbúnaðar, eins og jarðalögum og ábúðarlögum, sem munu skipta landbúnaðinn miklu. Þarna eru einnig fram undan stór verkefni, ekki síst stóraukin innlend fóðurframleiðsla í heykögglaverksmiðjum sem fyrst og fremst nýti jarðhita, svo og endurskoðun laga um Stofnlánadeild og Framleiðsluráð.

Nýtt skipulag ferðamála hef ég ekki getað rætt um né um það stóraukna fjármagn sem nú á að verja til þeirra mikilvægu mála.

Ekki hef ég heldur getað gert grein fyrir ýmsu á sviði menntamála né þeim stórkostlegu verkefnum sem þar eru fram undan, m.a. að tengja verk- og tæknimenntun betur fjölbrautaskólakerfi því sem er að þróast í þessu landi. Það er gífurlega mikið og kostnaðarsamt verkefni og þarf að vinnast skipulega og vel. Það mál var því sérstaklega tekið fyrir á síðasta aðalfundi miðstjórnar Framsfl.

Dómsmálin hafa einnig verið mjög í sviðsljósinu. Hefur dómsmrh. lagt fram á þingi fjölmörg frv. sem öll miða að því að bæta og hraða meðferð slíkra mála. Að koma þeim nýmælum til framkvæmda er stórt og mikið verkefni.

Góðir íslendingar. Ég vona að mér hafi tekist að draga upp mynd af stjórnmálaástandinn eins og það er nú á miðju kjörtímabili, draga upp mynd af ríkisstj. sem lagt hefur höfuðáherslu á landhelgismálið og virðist ljóst að það mál muni fljótlega verða farsællega til lykta leitt. Það eitt út af fyrir sig er ekki lítið afrek. Hægar hefur gengið á ýmsum öðrum sviðum og hefur það valdið vonbrigðum. Því verður þó ekki neitað að ötullega hefur verið unnið að undirbúningi fjölmargra mikilvægra málaflokka sem eru að sjá dagsins ljós eða munu á næstu mánuðum. Framsfl. vill stuðla að því að ávöxturinn af þessu starfi verði mikill. Hann stendur því heill að þessu stjórnarsamstarfi, en mun beita áhrifum sínum til þess að þar gæti í vaxandi mæli þeirrar festu sem nauðsynleg er til þess að koma efnahagsmálum þjóðarinnar í viðunandi horf og ýmsu skipulagi sem ég hef rakið. Ef þessi ríkisstj. getur það ekki, gerir það ekki önnur eins og nú er ástatt í íslenskum stjórnmálum. — Góða nótt.