13.05.1976
Sameinað þing: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4321 í B-deild Alþingistíðinda. (3643)

Almennar stjórnmálaumræður

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það mátti greinilega heyra á máli hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar að nú væri nóg komið af veru utan ríkisstj. og hann átti sér þá ósk heitasta að nú væri Framsfl. að bila. Það mátti á honum heyra að Alþb. væri reiðubúið að fara í nýja nýsköpunarstjórn Alþb. og Sjálfstfl. og jafnvel að taka krata með. En hann má trúa því að Framsfl. er ekki að bila, en það þarf ekki að koma honum á óvart þótt stjórnarflokkarnir sé ekki á einu máli í öllu.

ríkisstj., sem nú er við völd, hefur aðeins starfað í tæp tvö ár. Verkefni hennar hafa verið margvísleg, en þó hefur tvö viðfangsefni borið öðrum hærra: í fyrsta lagi efnahagsmál og í öðru lagi landhelgismál. Vík ég fyrst að efnahagsmálum.

Ríkisstj. hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir stjórn efnahagsmála. Gagnrýni er sjálfsögð, en rétt er að hafa í huga stærð vandans og ástæður. Seinni hluta árs 1973 var ljóst að íslendingar stóðu frammi fyrir miklum efnahagsvanda. Þáv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, gerði ítrekaðar tilraunir til að ná samstöðu um aðgerðir í efnahagsmálum. Hluti af þingliði SF stóð þá algerlega á móti nauðsynlegum ráðstöfunum. Talsmenn Alþb. voru með margs konar fyrirvara og voru hikandi í nauðsynlegum aðgerðum. Stjórnarandstaðan reyndist ófáanleg til að standa að efnahagsráðstöfununum.

Afstaða SF var mjög óábyrg, og ég tel að það hafi einnig verið óábyrgt af þáv. stjórnarandstöðu að taka ekki þátt í lágmarksráðstöfunum í efnahagsmálum á sama hátt og Framsfl. stóð að ráðstöfunum í efnahagsmálum 1959 jafnvel þótt hann væri ekki í ríkisstj., en hann hafði þá möguleika á að koma í veg fyrir þær ráðstafanir með því að stöðva framgang málsins í annarri d. þingsins. Þannig verða stjórnarflokkar að starfa þegar hættuástand ríkir. við þessar aðstæður var efnt til kosninga og upp úr þeim kosningum var mynduð stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. eftir misheppnaðar stjórnarmyndunartilraunir vinstri flokkanna.

Það var skoðun Framsfl. að honum bæri skylda til að stuðla að lausn þess efnahagsvanda sem þá var ríkjandi, — efnahagsvanda sem hann vildi ráðast gegn strax á árinu 1973, en fékk ekki samstöðu um. Ríkisstj. setti sér það mark að ráðast gegn vandanum með hægfara ráðstöfunum, — ráðstöfunum sem tóku mið af því að halda uppi fullri atvinnu í landinu, en jafnframt að hægja á verðbólguhraðanum og draga úr viðskiptahallanum við útlönd með það í huga að ná jöfnuði á nokkrum árum. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa talað, hafa ráðist að ríkisstj. og þeim flokkum, sem standa að henni, og ásakað stjórnina fyrir að ráðast gegn kjörum almennings. Talað er um aðför að fólkinu í landinu. Samtímis er ríkisstj. ásökuð fyrir að taka ekki á efnahagsmálum af festu. Það er með þessar ásakanir eins og margar aðrar ásakanir þessara manna að þær stangast á, þær ganga hver á móti annarri. Efnahagsvandi á við þann, sem við vorum í og erum enn í, verður ekki leystur án þess að það komi við þegna þjóðfélagsins. Þjóðarframleiðslan var 137.3 milljarðar 1974. Þjóðarútgjöldin voru 152.8 milljarðar sama ár. Mismunarinn jafnast með viðskiptahalla 15.5 milljörðum eða tæpum 12% af þjóðarframleiðslunni. Á gengi ársins 1975 hefði þessi halli numið 24.3 milljörðum. 1975 er þjóðarframleiðslan áætluð 185.2 milljarðar, en þjóðarútgjöldin 206.6 milljarðar. Mismunurinn jafnast með viðskiptahalla 21.4 milljarði eða 11.5% af þjóðarframleiðslunni. Þessar tölur eru einfaldar og ljóst að þjóðin eyðir meiru en hún aflar. Hallinn hefði eflaust getað verið minni. En spurningin er á hve löngum tíma vandinn skuli leystur.

Það er háttur óábyrgra stjórnmálamanna að tala á þann veg að lausn á einum vanda sé á engan hátt háð lausn annarra vandamála. Þeir tala um að stöðva viðskiptahallann við útlönd, stöðva verðbólguna, stórauka kaupmáttinn, lækka verð á opinberri þjónustu, ná jöfnuði í ríkisbúskapnum og jafnvel að lækka skatta. Það væri fróðlegt að sjá lausn þessara þátta samtímis því að þá væri komin fram á sjónarsviðið sá efnahagssnillingur sem hver einasta þjóð í heiminum mundi kaupa dýru verði. En því miður er hér fyrst og fremst um slagorð að ræða, — slagorð sem ekki eru rökstudd og standa í mótsögn hvert við annað.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ræddi hér um að það sé mikilvægt að stjórnarandstæðingar fái nú völd, m.a. vegna þess að áhrif þeirra innan verkalýðshreyfingarinnar séu mjög mikil. Ég vil ekki trúa því að afstaða verkalýðshreyfingarinnar mótist af því hver er við völd, og ég vil ekki heldur samþykkja það að við lausn efnahagsmála hafi ekki verið tekið tillit til þeirra sem verst eru settir. Má í því sambandi nefna margítrekaðar tilraunir ríkisstj. til að auka láglaunabætur, breytingar á skattalögum á s.l. ári þar sem þess var sérstaklega gætt í samvinnu við alþýðusamtökin að þeir, sem lægst laun hefðu fengju mesta lækkun, og nú í vetur þær ráðstafanir sem voru gerðar til að koma í veg fyrir að stórfelldur samdráttur yrði í almannatryggingakerfinu. Ég efast ekki um að þeir, sem nú eru í stjórnarandstöðu, hafi áhuga á því að taka fullt tillit til fólksins í landinu við lausn efnahagsmála sem aðrir. En sú röksemd, að þeir séu hæfari að leysa mál vegna þess að þeir hafi meiri áhrif í verkalýðshreyfingunni, fær ekki staðist nema þeir vilji beita henni fyrir sig í valdabaráttu sinni.

Verkalýðssamtökin hafa komist hjá því að mestu leyti að vera þátttakendur í stórpólitískum átökum og svo á vissulega að vera. Því ber að varast að ábyrgðarlausum stjórnmálamönnum takist að beita alþýðuhreyfingu fyrir sig í stórpólitískum átökum.

En hefur ríkisstj. tekist að ráða við efnahagsvandann? Í stuttu máli má segja að ríkisstj. hefur að vísu ekki tekist að draga eins mikið úr verðbólgunni og lækka viðskiptahallann við útlönd og æskilegt hefði verið. Hins vegar verður að hafa í huga að hraðari lausn mála hefði getað kostað a.m.k. atvinnuleysi, minni kaupmátt launa og minni uppbyggingu í landinu. Þeir, sem gagnrýna ríkisstj., eru vanalega sammála um að atvinnuleysi megi ekki eiga sér stað og kaupmáttur launa þurfi fremur að aukast, en hins vegar eru margir sem telja að uppbyggingin í landinu hefði mátt vera hægari. En hefur uppbyggingin verið of mikil? Og hvað er framundan?

Það má segja að efnahagsörðugleikar íslendinga hafi að allmiklu leyti stafað af erfiðum sveiflukenndum viðskiptakjörum. Verðlag á útflutningsafurðum fer nú batnandi, en þrátt fyrir það er fullvíst að allmikill viðskiptahalli verður á þessu og næsta ári. Ef á að takast að viðhalda núverandi lífskjörum, þá hlýtur frambúðarlausn efnahagsmála fyrst og fremst að byggjast á aukinni framleiðslu og framleiðni jafnframt því að draga úr innflutningi á því sem við getum framleitt heima fyrir. Að þessu hefur verið unnið.

Ríkisstj. setti sem algert forgangsverkefni framkvæmdir í orkumálum. Þessar framkvæmdir krefjast mikils fjármagns, en koma til með að draga verulega úr innflutningi á olíu og spara mikinn gjaldeyri í framtíðinni. Á sama hátt er það alger nauðsyn að stórefla iðnaðinn og bæta nýtingu innlendra hráefna, auka fiskleit og ekki síst að afla markaða fyrir hinar ýmsu fisktegundir sem við höfum ekki fullnýtt því að sjávarútvegurinn er og verður undirstaðan. Það er því tímabært að ríkisstj. beiti sér nú þegar fyrir mótun þess sem við gætum kallað framleiðslustefnu, sem byggist í fyrsta lagi á því að efla hverja þá framleiðslugrein sem hefur möguleika til að hasla sér völl á erlendum mörkuðum.

Í þessu sambandi má nefna ullar- og skinnaiðnað sem er mjög vaxandi framleiðslugrein og sannar m.a. mikilvægi landbúnaðar sem undirstöðuatvinnugreinar. Í öðru lagi og ekki síst ber að leggja mikla áherslu á að bæta samkeppnisaðstöðu íslenskra framleiðslugreina við erlendan varning á innlendum mörkuðum. Þessu verkefni hefur ekki verið nægilega sinnt og umr. hafa verið meiri en framkvæmdir. Það getur ekki gengið til lengdar að innlend framleiðsla búi við hærri tolla og söluskatt af hráefni, hærra orkuverð, hærri fjármagnskostnað en þeir samkeppnisaðilar sem flytja vörur sínar óheft inn í landið. En það, sem er mikilvægast, er vitund þjóðarinnar fyrir því sem íslenskt er. Sameiginlegar auglýsingar innlendra framleiðenda eru til fyrirmyndar og ættu að styrkjast af hinu opinbera. Öflug auglýsingaherferð fyrir íslenskum vörum gæti haft mikil áhrif.

Efling framleiðslunnar krefst mikillar skipulagshyggju og forgangsröðunar framkvæmda. Það er því brýnasta úrlausnarefnið að ríkisstj. leggi áherslu á forustu við mótun framleiðslustefnu er taki mið af ástandi efnahagsmála. Ástand fiskstofnanna krefst þess ekki síst.

Þótt illa gangi í efnahagsmálum mega menn ekki gerast slíkir útsölumenn og fyllast svo hrakspám að sjá engin önnur úrræði en að draga úr, draga saman og skera niður. Menn verða fyrst og fremst að sækja fram og auka þjóðartekjurnar. Orkuframkvæmdir hafa notið forgangs. Raforkuframkvæmdir og hitaveituframkvæmdir bera þess vott. En það vannst því miður ekki tími til að skipuleggja þau mál áður en í framkvæmdir var ráðist. Mikið skipulagsleysi ríkir í orkumálum, það viðurkenna allir forsvarsmenn orkumála. Skipulagsleysið hefur orðið þjóðinni dýrkeypt og á eftir að verða henni dýrkeyptara ef ekki verður ráðin bót á. Það má margt læra af þessari reynslu, og ekki má koma fyrir að efling framleiðslunnar á sviði iðnaðar verði með þeim hætti sem verið hefur í orkumálum. Þar hafa of margar stofnanir og nefndir komið nærri og enginn hefur haft heildaryfirsýn.

Landhelgismálið hefur tekið mikinn tíma ríkisstj. og Alþ. Sú stefna var tekin að beina baráttunni í landhelgismálinu fyrst og fremst gegn bretum. Þessi ákvörðun hefur reynst rétt. Í framhaldi af því var samið við þjóðverja um fiskveiðar í landhelgi. Samningurinn var langt frá því að vera gallalaus, en hafði einnig ýmsa kosti. Einn af kostum þessa samnings var sá að hann var uppsegjanlegur eftir 5 mánuði. Þjóðverjar hafa ekki staðið við sinn hluta þessa samnings, og okkur ber því tafarlaust að segja samningnum upp og fresta framkvæmd hans.

Baráttan við breta hefur verið erfið og hörð. En við munum ekki sjá eftir þeirri baráttu. Barátta okkar hefur einkennst af því sem líkja mætti við skæruhernað, en stórþjóðirnar hafa oft farið flatt á að vanmeta mátt smáþjóðanna í skæruhernaði, og það hafa bretar vissulega gert nú. Frammistaða landhelgisgæslunnar er aðdáunarverð, enda hefur verið mikið uppgjafarhljóð í bretum.

Það veldur nokkrum deilum hvort framgangur landhelgismálsins geti haft áhrif á veru okkar í bandalagi þjóða, m.a. Atlantshafsbandalaginu. Því er haldið fram að samstarfi þjóðanna í varnar- og öryggismálum megi ekki blanda saman við landhelgismálíð. Er þetta rökrétt? Geta þjóðir haft góða samvinnu sín á milli án þess að þær hafi skilning á því að hver þjóð þurfi að varðveita sína lífsbjörg? Þetta hlýtur að vera forsenda fyrir samvinnu þjóðanna. Sumar af bandalagsþjóðum okkar hafa þennan skilning, en aðrar ekki. Atburðir síðustu daga eru þess eðlis að okkur ber að kalla heim tafarlaust sendiherra okkar hjá Atlantshafsbandalaginu. Kaldrifjaðar og ósvífnar árásir breta á varðskip okkar svo og hótanir þeirra að beita herflugvélum ættu að fullvissa menn í þessu efni.

Framtíðin á eftir að skera úr um það hvort bandalagsþjóðir okkar öðlast þann þroska að hafa skilning á grundvelli tilveru okkar. Þeim verður að vera það ljóst að án þess skilnings getur ekki sjálfstæð þjóð starfað með þeim, og sú afstaða á að koma skýrar fram frá okkar hendi. Þessi mál er því ekki hægt að aðskilja í einu og öllu. Hugsun mannsins og lífsgrundvöllur verður ekki klofin í marga hluta. Sama gildir í þessu máli.

Góðir hlustendur. Ég hef nú vikið að þeim málaflokkum sem hafa verið efst á baugi. En að mörgu hefur verið unnið á ýmsum sviðum sem ekki er tími til að telja hér. Eitt mál er þó öðrum mikilvægara. Það er efling Byggðasjóðs. Margir stjórnarandstæðingar gera lítið úr eflingu Byggðasjóðs, telja hana litlu skipta, hér sé um lágar fjárhæðir að ræða sem skipti ekki sköpum. En hver er raunin? Það kemur e.t.v. best í ljós þegar þjóðin á við efnahagserfiðleika að stríða hve mikils virði það er að hafa öflugan Byggðasjóð. Hvar væri atvinnuuppbyggingin víða á landinu nú ef ekki væri þessi sjóður? Hvar væri atvinnubyltingin stödd sem hófst í tíð vinstri stjórnarinnar ef ekki væri þessi sjóður? Ég leyfi mér að fullyrða að Byggðasjóður hefur skipt sköpum, bjargað mörgum byggðarlögum frá atvinnuleysi. Ég veit að það fólk, sem býr úti um land, veit um þetta og skilur það. Fullvist má telja að þýðing sjóðsins verður gífurleg í framtíðinni fyrir landsbyggðina og fyrir þjóðina alla því að framleiðslan er mest úti um land og hana verður að efla. Þeir, sem búa í mesta þéttbýlinu, verða einnig að hafa í huga að ekki er þjóðhagslega hagkvæmt að efla það þéttbýli ár eftir ár og áratug eftir áratug. Slíkt mun aðeins leiða af sér öngþveiti í þessu sama þéttbýli og minnkun framleiðslu. Byggðasjóður er stofnaður vegna hagsmuna þjóðarinnar allrar.

Að lokum þetta: Við eigum vissulega við tímabundna erfiðleika að stríða og ber að leggja áherslu á að standa saman um lausn mála og skapa skilyrði fyrir frekari uppbyggingu. Við lausn mála verða menn að hafa trú á möguleikum okkar, trú á auðlindum okkar og trú á því að okkur takist að leysa okkar vanda. Við höfum vissulega ástæðu til að hata þá trú og á þann eina hátt getum við leyst okkar mikilvægu mál. — Góða nótt.