14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4345 í B-deild Alþingistíðinda. (3674)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. hefur kvatt sér hljóðs við allar þrjár umr. um þetta mál. Þessar umr. eru að nokkru leyti áframhald af umr. sem áttu sér stað í haust. Þá var gerð hörð hríð og hafin hörð sókn gegn Framkvæmdastofnuninni og gegn Byggðasjóði. Ég ætla ekki að rifja upp það sem þar var sagt og þá, en það kom greinilega í ljós að mönnum þóttu áhrif stofnunarinnar til byggðajafnvægis vera of mikil. Ég held að það væri hollt fyrir landsmenn vítt og breitt um landið að lesa þær ræður, sem þá voru fluttar.

En það var eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. 11. þm. Reykv. við 1. umr. og síðan í sambandi við tillöguflutning hans við 2. umr., sem gáfu mér tilefni til þess að koma hingað upp og gera ofurlitla aths. Hann lýsti því við 1. umr. að hann teldi að hlutverk Byggðasjóðs ætti að vera að efla byggð alls staðar, þ.e.a.s. að lánafyrirgreiðsla Byggðasjóðs eigi að koma til sveitarfélaga eða byggða án tillits til þess hvernig þau eru stödd fyrir, alveg sama hve góð staðan er, Byggðasjóður skuli taka til þeirra byggða líka. Í kjölfarið kom svo brtt. við 2. umr. sem var felld. En þegar hv. þm. mælti fyrir þessari brtt. sinni sem sagði að það skyldi lána til að efla byggð hvarvetna, ef ég man rétt, þá gat hann þess efnislega, þótt ég hafi það ekki orðrétt, að með þessum tillöguflutningi vildi hann styðja við bakið á stjórnendum stofnunarinnar í viðleitni þeirra til að þoka starfseminni í þessa átt. Ég vil varpa fram þeirri spurningu til stjórnenda stofnunarinnar hér við 3. umr. hvort þetta mat hv. þm. er rétt, hvort stofnunin hefur í auknum mæli unnið eftir þeim reglum, að minnka það aukna vægi sem hefur gilt þar að efla hina dreifðari byggð.