14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (3687)

268. mál, hafnalög

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta frv. að því leyti að það tryggir nokkra tekjuaukningu til Hafnabótasjóðs. Ein tala kemur þó nokkuð einkennilega fyrir, úr því að farið er út í þessa tekjuöflun á annað borð, og það er sú tala sem fram kemur í 2. gr. um framlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs, sem sé 12% af framlagi til hafnarmannvirkja og lendingarbóta á fjárlögum hvers árs, en þó aldrei lægra en 30 millj. kr. Þetta er óbreytt tala frá gildandi hafnalögum og þýðir að sjálfsögðu margfaldlega rýrara framlag með tilliti til þeirrar verðlagsþróunar sem hefur orðið á þeim árum frá 1968, að ég hygg, þannig að eðlilegt hefði verið og ekki síður nauðsynlegt að hækka þessa upphæð a.m.k. til samræmis við áorðnar verðlagsbreytingar.

Ég hef ekki lagt hér fram brtt. í þá átt. Ég skrifaði að vísu undir nál með fyrirvara, en ég gat ekki verið viðstödd á sjálfum fundinum nema að litlu leyti. En þetta frv. á eftir að ganga til Ed, og hugsanlega gæti komið til athugunar þar að fá þessa upphæð hækkaða nokkuð.