14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4359 í B-deild Alþingistíðinda. (3706)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram brtt. sem nýbúíð er að útbýta á fundinum. Ég ætla að útskýra þessar brtt., lesa þær upp. Þær eru svo hljóðandi:

„1. 1. gr. orðist svo:

Tilgangur laga þessara er að stuðla að jafnrétti kvenna og karla og bæta stöðu kvenna.“ Þarna finnst mér vanta í frv., og hef reyndar komið að því áður í umr. um þetta mál, að tekið sé tillit til þess hver beri í raun og veru skarðan hlut frá borði eins og ástandið er núna og hverra stöðu þarf að bæta. Mér finnst að það þurfi að taka það fram í lögunum að tilgangurinn sé að bæta stöðu kvenna.

2. brtt. er svo hljóðandi: „6. gr. orðist svo:

Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til framhalds starfsþjálfunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings annarra starfa.“

Þessi gr. er að miklu leyti shlj. þeirri gr. sem fyrir er í frv., en það falla niður orðin „er starfa hjá sama atvinnurekanda“. Er það vegna þess að ég álít að það mundi þá verða of þröngt túlkað, þannig að fólk, sem starfar kannske í sama starfi, en ekki hjá sama atvinnurekanda, mundi þá ekki njóta sömu möguleika. Sömuleiðis legg ég til að þarna falli niður í 3. línu orðin „og betri“, þar sem ég álít að það sé mjög varasamt og raunar alveg fáránlegt að ætla að fara að meta störf sem verri og betri og gefi ekki gott fordæmi.

3. brtt. er við 7. gr., að hún orðist svo:

„Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum skal veita fræðslu um jafnrétti kvenna og karla. Kennslubækur og kennslutæki, sem þar eru notuð, skulu vera þannig úr garði gerð og hönnuð, að kynjum sé ekki mismunað og upprætt sé úrelt hlutverkaskipting kynjanna.“

Þessi grein er samhljóða þeirri breyttu grein, sem allshn. hefur gert till. um, nema bætt er líka við orðunum: „upprætt sé úrelt hlutverkaskipting kynjanna“. Ég tel ekki nóg að passa að kynjum sé ekki mismunað, heldur þurfi, eins og málum er háttað, að vinna beinlínis að því meðvitað að breyta þeirri mynd sem gefin er í kennslubókum og við kennslu almennt. Mér hefur verið bent á í þessu sambandi að þetta kynni að verða túlkað á ýmsa vegu eftir því sem tímar líða fram, en ég held að það muni þá bara verða túlkað eftir því sem þá verður úrelt jafnóðum.

Eins vil ég taka fram í sambandi við breytinguna í 1. gr., þar sem í upphaflega frv. er talað um að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum, að það hefði getað átt við þegar enn var um að ræða frv. til l. um jafnstöðu kvenna og karla, eins og það var hugsað upphaflega, en eins og það nú er hugsað, eftir að það kemur frá hv. allshn., tel ég að með lögunum sé í raun og veru verið að mynda Jafnréttisráð sem sé eins konar beint framhald af Jafnlaunaráði og þar af leiðandi muni starfssvið þessa Jafnréttisráðs vera mjög svipað og ekki miklu víðtækara heldur en Jafnlaunaráðs þótt ég voni sannarlega að orðið verði við því sem lagt er til í till. allshn., að starfsskilyrði þess verði tryggð betur en nú er um Jafnlaunaráð. Þar af leiðandi tel ég ekki rétt að hafa þarna: „á öllum sviðum“, tek undir það með allshn. Að öðru leyti lýsi ég mig fylgjandi þeim till. sem komið hafa frá nefndinni.