14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4361 í B-deild Alþingistíðinda. (3708)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Það kom fram í máli hv. frsm.brtt. allshn. voru samkomulagsatriði, því að við höfðum öll áhuga á því að þetta frv. næði fram að ganga. Það samkomulag mun ég ekki rjúfa. Ég tel hins vegar rétt að greina nokkuð frá því hvers vegna till. er gerð um að heiti frv. sé breytt og þar af leiðandi 1. gr., en milli þeirra er samhengi.

Heitið frv. til l. um jafnstöðu kvenna og karla eða jafnrétti kvenna og karla gefur ákaflega mikil og stór fyrirheit, og þegar farið er að athuga frv. sjálft, hinar einstöku gr. þess, þá liggur auðvitað í augum uppi að frv. rís ekki undir nafni. Þetta varð ljósara þegar umsagnir fóru að berast frá hinum ýmsu kvennasamtökum. Það var augljóst að n. var komin í allmikil vandræði ef hún átti að taka til greina meginhluta aths. þeirra sem komu fram í umsögnunum. Og það var mín skoðun að þessar viðamiklu umsagnir stöfuðu af heiti frv., því að það verður auðvitað öllum ljóst að frv. til 1. um jafnstöðu kvenna og karla krefst þess að þar séu tekin til greina öll þau atriði sem stuðla að jafnrétti.

Sem dæmi um þessar umsagnir get ég tekið umsögn Kvenréttindafélags Íslands þar sem það leggur til að inn í 2. gr. frv. sé bætt orðunum: „með þjóðfélagslegum ráðstöfunum“ — og yrði grg. þá orðuð svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Konum og körlum skulu með þjóðfélagslegum ráðstöfunum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar og greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.“

Síðar í umsögninni kemur fram hvað það er, sem Kvenréttindafélagið vill leggja áherslu á ef þetta frv. eigi að þjóna tilgangi sinum, og þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn KRFÍ vill minna á nokkur atriði hér að lútandi:

1. Rannsakað verði hvort lög um launajöfnuð frá 1961 hafi verið sniðgengin í kjarasamningum og/eða framkvæmd.

2. Að tryggja foreldrum og forráðamönnum dagvistun og gæslu barna sinna.

3. Að setja ákvæði um rétt foreldra og forráðamanna til fjarvistar frá vinnu vegna veikinda barna sinna.

4. Að sett verði ákvæði um samfelldan skálatíma nemenda og þeir geti neytt matar í skólanum.

5. Að gerðar verði ráðstafanir til að aðstoða forstöðumenn heimila við gæslu sjúkra eða umönnun aldraðra þegar skyldustörf eða veikindi raska daglegri skipulagningu.

6. Að tryggt verði með kerfisbundinni endurskoðun á innihaldi kennslubóka að þar verði ekki viðhaldið hefðbundinni hlutverkaskiptingu kynjanna, hvort sem er innan eða utan heimilanna.

7. Að enn fremur verði tryggt að menntun kennara taki mið af jafnstöðusjónarmiðum, þannig að þeir í túlkun sinni á námsefni viðhaldi ekki úreltri kynskiptingu í viðhorfi nemenda til verkaskiptingar.“

Úr annarri umsögn, umsögn Rauðsokka, get ég tekið þessa klausu, með leyfi hæstv. forseta: „Auk þessa þarf að efla þjónustu við heimilin, t.d. með því að fjölga dagvistunarstofnunum, svo að öll börn eigi kost á slíkri vist. En þessar stofnanir verður einnig að gera þannig úr garði að þær geti rækt uppeldishlutverk sitt. Fjölga þarf líka skóladagheimilum fyrir eldri börn, samræma skólatíma með því að einsetja skólana og auka námsstarfið innan þeirra, einkum í yngri bekkjunum til að jafna námsaðstöðuna og koma í veg fyrir að börn séu í reiðileysi mikinn hluta dagsins. Mötuneyti þarf að vera í hverjum skóla, æskulýðsráða og félaga, þar sem fæst börn hafa nægileg verkefni á sumrin.

Fleira mætti tína til í þessu sambandi. En heildarniðurstaðan er sú, að til að tryggja að bæði kynin sitji við sama borð verður að gera ráðstafanir til að allir geti gegnt foreldrahlutverki sínu jafnframt vinnu utan heimills.“

Hér lýkur þessari klausu. — Ég held, að hv. þm. hljóti að vera ljós sá vandi sem allshn. stóð frammi fyrir. Það varð annaðhvort að reyna að semja algerlega nýtt frv. þar sem yrðu tekin til greina þau atriði sem allir, sem að jafnréttismálum starfa, vita að eru nauðsynleg til þess að fullt jafnrétti náist, eða þá að fara þá leið sem allshn. hefur farið. Og ég held, að það sé heiðarlegra gagnvart kvennasamtökunum í landinu, sem hafa lagt mikla vinnu í það að skoða þetta frv., að fara þá leið sem allshn. fór, og ég vona að hæstv. ráðh. geti fallist á þessa málsmeðferð. Það er engum til góðs að ímynda sér að hann eigi heilan lagabálk sér til stuðnings og til stuðnings rétti sínum þegar það reynist rangt. Þess vegna legg ég áhersíu á að brtt. allshn. verði samþykktar.

Ég mun í lokin aðeins víkja að fyrri brtt, á þskj. 759 frá hv. 11. þm. Reykv. þar sem hann leggur til að síðari setningin í 4. gr. falli niður. Ég er andvíg þessari brtt, hv. þm. og tel að ef hún verði samþykkt sé gr. algerlega ónýt. Það liggur í augum uppi að ef starf, sem er laust til umsóknar, á að standa opið jafnt konum og körlum, þá verður almenningur að fá að vita að svo er, og það getur almenningur ekki vitað nema auglýsingin sé svo úr garði gerð. Og þá verður vitaskuld að gefa fyrirmæli um hvernig á að auglýsa eða réttara sagt hvernig má ekki auglýsa. Að öðrum kosti er tilgangurinn með gr. fallinn. Ég vildi leggja áherslu á þetta, en ítreka það í lokin að ég mun fyrir mitt leyti standa við það samkomulag sem allshn. gerði.