14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4363 í B-deild Alþingistíðinda. (3712)

257. mál, jarðalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 565 og 741, er frv. til jarðalaga sem hefur áður verið til meðferðar hér á hv. Alþ. og var nú lagt fram í hv. Ed, og hefur hlotið afgreiðslu þar með einni breytingu sem gerð var á frv. þar.

Efni þessa frv. er að gera það að verkum að hafa vald á því að jarðir séu seldar fyrst og fremst til landbúnaðarnota, en ekki að leggja þær í eyði eða nýta þær á þann hátt sem ekki hentar landbúnaði, en það hefur farið í vöxt hér á landi sem viðar annars staðar að svo hafi verið gert.

Það mun hafa verið um árið 1909 sem í Noregi voru sett lög sem takmörkuðu jarðasölu miðað við þetta ákvæði sem ég greindi hér. Þar eru ströng ákvæði um þetta, og hafa nýlega verið sett mjög ströng ákvæði um jarðasölu, það ströng að norðmenn geta bannað að jarðir séu seldar ef ekki er gert ráð fyrir því að viðkomandi aðili ætli sér að stunda þar landbúnað, án þess að það hvíli nokkur skylda á ríkinu að kaupa þessar jarðir af viðkomandi seljanda.

Í Svíþjóð eru einnig lög um þetta allt frá 1916, og svíar hafa einnig hert sín lög mjög á síðari árum. Þar eru settar margs konar takmarkanir sem miða við það að jarðirnar séu fyrst og fremst notaðar til landbúnaðar og þær séu verndaðar í verðlagi í sambandi við það. Ástæðan fyrir verndun á verðlagi er að matvæli, sem framleidd eru í landbúnaði, eru afskaplega mikils virði, svo sem kunnugt er, og áríðandi er að landverðið sé ekki það afgerandi að það hafi veruleg áhrif á verðlag landbúnaðarafurða, en það hefur það ef land hækkar mjög í verði.

Þetta mál hefur einnig verið mjög til meðferðar hjá dönum. Þegar þeir gengu í Efnahagsbandalagið settu þeir nýja löggjöf um sölu jarða sem herti mjög ákvæði og gerði það að verkum að þar er afar erfitt að ná eignarhaldi á landi án þess að það eigi að vera til landbúnaðar. Það vakti m.a. fyrir dönum í því sambandi að þeir óttuðust að við samskipti í Efnahagsbandalaginu gætu t.d. þjóðverjar mjög komið þar til ráða í gegnum landakaup og þeir vildu verja sig gegn slíku, að vera kannske búnir að missa verulegan hluta af landi sínu í hendur annarra þjóða með þessum hætti.

Á þessu hefur að vísu lítið borið hér á landi enn þá. En það má gera ráð fyrir að það geti gerst hér eins og annars staðar að erlendir aðilar fari að sækja í land. Og það er eitt sem er víst, að á síðari árum hefur mjög aukist ásókn í jarðir, og þá hefur það ekki verið vegna landbúnaðar, heldur vegna hlunninda eins og laxveiði, hitaréttinda og ýmissa slíkra réttinda sem í jarðirnar hefur verið sótt. Eitt atriði er þarna einnig ótalið. Það er þegar jarðir eru í nágrenni við þéttbýli, þá hefur verið mjög gert í því að ná til þeirra í þeirri von að landið hækkaði í verði þegar þyrfti að kaupa það vegna útþenslu þéttbýlisins. Af hálfu sveitarstjórnarmanna og félmrn. hefur verið unnið að þessum málum hvað viðvíkur því að um land, sem þarf að kaupa vegna útfærslu þéttbýlis eða þéttbýlismyndunar, eru komnar verulega strangar reglur sem gera það að verkum að ekki er eins auðvelt að hafa fjárhagslegan hagnað af því að kaupa slíkt land eins og áður var. Það, sem hér er gert til þess að hafa áhrif á það, er í miklu minni mæli heldur en nágrannar okkar hafa gert í sambandi við sölu á landi og við göngum þar miklu skemmra í þessu frv. heldur en þeir hafa gert. En það, sem hér er um að ræða, er að ef á að selja, þá eru settar sérstakar nefndir sem skipaðar eru þremur mönnum og jafnmörgum til vara og eru kosnar hlutfallskosningu, ef óskað er. Búnaðarsamband viðkomandi sýslu tilnefnir tvo í jarðanefnd og sýslunefnd einn mann. Skulu þeir kunna góð skil á byggð og búháttum í sýslunni. Ráðh, skipar formann úr hópi tilnefndra manna. Auk þessara aðila, jarðanefndamanna, eru svo sveitarstjórnirnar sem um þetta mál fjalla, og hafa þær einnig um það sitt að segja og sín ráð. Í þriðja lagi er það Landnám ríkisins. Allir þessir aðilar hafa rétt til þess að skjóta þessum málum til landbrn. ef þeir óska þess.

Það eru ýmis fyrirmæli í þessum lögum sem gera það að verkum að það er ekki auðvelt að nota sér þær heimildir sem lögin gera ráð fyrir, en hins vegar hægt að koma í veg fyrir að jarðir séu keyptar upp með það eitt að markmiði að leggja þær í eyði, og eru það yfirleitt sveitarstjórnirnar sem hafa þá forkaupsréttinn. Í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir því, að sveitarstjórnir hafi rétt umfram ábúanda nema ábúandi hafi setið visst langan tíma sem tilgreindur er og einnig er tilgreindur í ábúðarlögum þeim sem afgreidd voru hér frá hv. d. í dag.

Tilgangur þessa frv. er því tvenns konar. Hann er í fyrsta lagi sá að verja jarðir þannig að það sé fyrst og fremst miðað við landbúnað og að forða þeim frá að lenda í braski, sem kæmi í veg fyrir aðgang þeirra sem vilja búa, og einnig er það í þessu frv., að það er gert ráð fyrir að skipuleggja svæði til sumarbústaða og veita þannig þéttbýlisfólki aðgang að landinu eins og þeim sem landbúnað stunda, en gera það með skipulegum hætti. Þetta er einn þáttur í því að reyna að halda verðlagi á landbúnaðarframleiðslu í hóflegu verði eins og kostur er og nauðsyn ber til.

Mér hefur verið bent á það að í 26. gr. frv. geti orkað tvímælis það sem felst í niðurlagi þeirrar gr., en bað er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Falli fasteignarréttindi við erfðir til annarra en þeirra er greinir í 1. tölul, á hreppsnefnd rétt á að fá þau keypt“ — og þar segir svo áfram: „við því verði sem þau eru lögð erfingjum til arfs.“

Þetta hefur mér verið bent á að mundi stangast á við stjórnarskrána, og til þess að taka af öll tvímæli þar um mun ég leggja fram skrifl. brtt. Ég vil benda á að í lögum um kauprétt á jörðum, sem eru frá 1948, segir svo í 2. mgr. 4. gr. þeirra laga:

„Falli jörð við erfðir til skyldmenna eftir 6., 7. og 8. gr. tilskipunar frá 25. sept. 1850 á hreppsnefnd rétt á að fá jörðina keypta á því verði sem hún er lögð til arfs.“

Þessi setning er því tekin upp úr lögum, sem eru búin að vera hér í gildi síðan 1948. En þrátt fyrir það vil ég ekki fara að taka neina áhættu í þessu sambandi og hef tekið þessa leiðbeiningu til greina og legg því fram þessa skriflegu brtt.

Ég vil geta þess að þetta frv. hefur verið til meðferðar bæði hér á hv. Alþ., það hefur verið til meðferðar á Búnaðarþingi og það hefur verið til meðferðar á aðalfundi Stéttarsambands bænda, og bæði Búnaðarþing og Stéttarsamband bænda hafa mælt með samþykkt frv. Það er skoðun þeirra manna, sem þar hafa um fjallað, og sú skoðun styður einnig mína hugsun, að hér sé um að ræða mjög þýðingarmikið mál, ekki bara fyrir landbúnaðinn, heldur einnig fyrir landið í heild, því að það er einnig mikils virði fyrir þéttbýlisfólkið að land sé ekki svo keypt upp að það hafi ekki aðgang að því, fyrir utan það að sú hætta gæti vofað yfir okkur eins og öðrum þjóðum að erlendir aðilar sæktu í að fara að eignast hér land og komast þannig inn um bakdyrnar. En ég tel að sú fyrirmynd, sem við höfum frá nágrönnum okkar á Norðurlöndum, komi okkur hér að góðu haldi og við megum mjög taka þá til eftirbreytni í sambandi við þetta mál.

Nú skal ég tímans vegna ekki orðlengja þetta frekar, en leyfi mér að leggja þessa skrifl. brtt. fram, herra forseti, og legg svo til að þessu frv. verði vísað að lokinn þessari umr. til 2. umr. og hv. landbn. Og ég vil taka það fram, að ég tel að það sé búið að leggja svo mikla vinnu í þetta mál að ég treysti hv. Alþ. til þess að afgreiða það nú að þessu sinni, enda hefur það verið til meðferðar hér það lengi og búið að leggja í það svo mikla vinnu og ná um það samstöðu að ég treysti því, að það megi takast, og legg á það ríka áherslu, enda tel ég að brýna nauðsyn beri til að svo sé.