14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4365 í B-deild Alþingistíðinda. (3713)

257. mál, jarðalög

bæta alvarlegasta ágallann á þessu frv. sem fólst í vissu ákvæði í 26. gr. Áð mínu mati persónulega hefði það falið í sér skýlaust stjórnarskrárbrot. Í 67. gr. stjórnarskrárinnar segir svo m.a.:

„Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Hver maður sér að það verð, sem miðað er við þegar verðmæti eru lögð mönnum til arfs, er engan veginn sannvirði. Það er fasteignamatsverð sem er langtum lægra heldur en söluverð. Þótt þetta ákvæði sé fært í það horf að fullt verð skuli koma fyrir, eins og sjálfsagt er og skylt, þá eru þó nokkur ákvæði í frv. sem ég tel ganga mjög alvarlega í berhögg við anda stjórnarskrárinnar. Þau eru þess eðlis að að frv. óbreyttu treysti ég mér ekki til annars en að greiða atkv. gegn málinu. Sem deildarforseti mundi ég þó ekki vísa málinu frá vegna þess að það væri ekki í réttu formi, ekki borið fram sem frv. til stjórnskipunarlaga eins og vera ætti ef um raunverulega breytingu á stjórnarskránni væri að ræða. Hér er um að ræða mál sem segja má að geti verið matsatriði hvort gangi gegn stjórnarskránni eða ekki og sé þess eðlis að þd. beri að kveða upp úr um það mat. Þan atriði, sem ég hér á við og um er að ræða í 13. og 14. gr. frv., eru í raun réttri eignarnámsákvæði. Þessi eignarnámsákvæði eru í hæsta máta vafasöm og það á fleiri en einn veg.

Þessar greinar fela í sér sérstök réttindi til handa ábúanda jarðar sem er eigandi og ábúandi jarðar sem parti hefur verið skipt úr og annar maður á nú. Þessi ábúandi getur samkv. frv. leyst til sín hinn úrskipta jarðarpart þrátt fyrir mótmæli eiganda jarðarpartsins.

Nú er það svo að slíkt eignarnám er samkv. þeirri stjórnarskrárgrein, sem ég vitnaði í áðan, heimilt ef almenningsþörf krefur, séu til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Það, sem er matsatriði hér, er það hvort um sé að ræða almenningsþörf.

Það, sem hér þarf að spyrja um, er þetta: Er það almenningsþörf að ein stétt manna í landinu geti leyst til sín eignir annarra manna í atvinnuhagsmunaskyni fyrir sig? Í hverju einstöku tilviki er um að ræða einstakling sem í atvinnuhagsmunaskyni fengi leyfi til hjá landbrh. að leysa til sín eign annars manns samkv. matsverði. Það má vera að til séu þeir hv. þm. sem komast að þeirri niðurstöðu að bóndi eða þeir, sem landbúnað stunda, hafi þennan rétt fram yfir aðra einstaklinga þjóðfélagsins, að það sé almenningsþörf að þeir leysi til sín eignir annarra manna sem hugsanlega væri hægt að nýta í þeirra atvinnu. Þetta er að mínum dómi alveg hliðstætt við það og að eignarnámsheimild væri veitt t.d. iðnaðarfyrirtæki sem mundi með hagkvæmara hætti geta rekið sína starfsemi ef það eignaðist næstu lóð og næsta hús við hliðina, báðar þessar lóðir hefðu t.d. verið ein lóð fyrir alllöngu og það þyrfti ekki annað en snúa sér til hæstv. iðnrh., þetta iðnfyrirtæki, og æskja leyfis til hans til þess að mega nú leysa til sín eign nágrannans og nýta þá eign í sinni atvinnu. Ég er hrædd um að hv. þdm. þætti dálitið einkennilegt hér að verki staðið, og sé ég þó ekki annað en iðnaður sé ein þeirra atvinnugreina sem mjög þarf að byggja upp í landi okkar. Við skulum nefna verslun. Við getum hugsað okkur litla verslun sem býr við þröngan húsakost, hefur á að skipa ágætu starfsliði og vel hæfum kaupmanni. Við skulum hugsa okkur að hún sé við mjög góða verslunargötu, en við hliðina á þessari verslun sé stórt og glæsilegt hús þar sem kannske örfáar manneskjur búa á heimili sínu. Ef nú verslunareigandinn gæti snúið sér til hæstv. viðskrh. og beðið hann leyfis að mega leysa til sín þetta hús nágrannans til þess að nota það fyrir verslun sína og það væri alveg augljóst að það væri hagkvæmara fyrirtæki sem væri rekið með þeim hætti að það hús væri einnig nýtt í versluninni, — ef þetta leyfi væri fáanlegt, þá væri um sambærilegt dæmi að ræða við það sem lagt er til í þessu frv. Frá mínu sjónarmiði er þetta hreint hneyksli og ekkert annað.

Ég hef hér í höndum bók sem heitir Stjórnskipun Íslands, eftir hæstv. núv. dómsmrh. og þegar þessi bók var skrifuð prófessor í stjórnskipunarrétti í Háskóla Íslands. t bókinni er þess getið í sambandi við eignarnám að hagsmunir einstakra manna sem grundvöllur eignarnáms séu ekki nægilegir til þess að eignarnám geti farið fram. Hagsmunir einstaks manns geti ekki talist almenningsþörf.

Mér finnst hér um svo alvarlegt atriði að ræða að ég finn míg knúna til af minni þingmannssamvisku að vekja athygli hv. þdm. á þessu atriði. Ég hef ekki lagt það í vana minn mikið í seinni tíð að standa í þessum ræðustóli og halda langar ræður, en þegar ég sé í hvert óefni er komið get ég ekki orða bundist. Mál, sem hefur allan þennan tíma verið til meðferðar í rn. hvað eftir annað, lengi í þd. og er komið á þetta stig í Alþ. og er enn í þessu horfi, veldur því að ég get ekki varist alvarlegum áhyggjum af því hvernig starfsaðferðum Alþ. er eiginlega háttað. Ég vil alvarlega skora á hæstv. ríkisstj. með tilvísun til þess, sem ég hef sagt um þessi ákvæði, að draga frv. þetta til baka svo að það verði tekið til enn nýrrar og betri skoðunar fyrir næsta haust og lagfærðir þeir alvarlegu agnúar sem nú eru á frv.

Fjölmargir fleiri stórir gallar eru á þessu frv. þótt þetta sé stærst að mínu viti eftir að kórvillan í 26, gr, hefur verið numin brott.

Framarlega í þessu frv. í 3. gr. þess, er ákvæði sem hljóðar svo: „Rísi ágreiningur um, hvað teljast skuli landbúnaður samkv. lögum þessum, eða um starfssvið jarðanefnda að öðru leyti“ — látum vera þetta síðara, um starfssvið jarðanefnda, en rísi ágreiningur um, hvað teljast skuli landbúnaður samkv. lögum þessum „sker landbrh. úr þeim ágreiningi“.

Í lögum er hvergi nein skilgreining á því hvað er landbúnaður, svo að það er afskaplega líklegt að til ágreinings geti komið um það. Um þetta ætlar Alþ. að ákveða að hæstv. landbrh. skeri úr. Það er að mínu viti ekki verksvið neins ráðh., að skera úr lagaágreiningi sem hér gæti verið um að ræða.

Það vekur til umhugsunar um það sem margir munu kannske hugsa þegar ég finn að þessu ákvæði, — margir munu hugsa: Það er nú kannske fljótlegast að láta landbrh., sem hefur vit á þessum málum að öllum líkindum, a.m.k. sá landbrh. sem nú er, vænti ég, — láta landbrh. skera úr um þetta. Það sparar mönnum þá tafsömu og dýru leið að fara fyrir dómstóla o.s.frv.

Það er annað atriði sem vekur alvarlegar áhyggjur í starfsaðferðum Alþ. og tilhneigingu í löggjöf Alþ. Á vörum almennings brennur spurningin um bætt réttaröryggi. Á Alþ. eru samþykkt lög sem fela ráðh. verkefni dómstóla. Það kann vel að vera að þetta sé fljótlegri leið. En ef menn telja að réttaröryggi batni við þetta, þá er ég því ósammála, jafnvel þótt okkar ágætu ráðh. í þeirri ríkisstj., sem nú situr, eigi í hlut. Ég held að þarna sé tilhneiging sem Alþ. verður að vera á verði gegn.

Menn hugsa kannske: Það er ósköp einfalt mál að segja hvað er landbúnaður. Landbúnaður er líklegast búskapur á jörð sem ber 10 kúgildi. Hvað er búskapur? Er búskapur einvörðungu það að hafa kýr, kindur, hesta og annan búsmala sem étur landið? Er búskapur að reka starfsemi sem ræktar upp landið, verndar og endurbætir náttúruauðlindir á landi? Er búskapur að reka veiðirækt? Er búskapur að reka loðdýrabú? Er búskapur að reka alifuglabú? Er búskapur að reka kornrækt? Er búskapur að reka skógrækt? Er búskapur að reka ylrækt? Óteljandi spurninga er hægt að spyrja. Ekki stafur af skilgreiningu um þennan hlut er í þessu frv., og ef ágreiningur rís á landbrh. að skera úr. Ef einhverjum finnst þetta skynsamleg aðferð til þess að tryggja réttan úrskurð í slíku máli, þá er ég honum ekki sammála. Ég held að það sé nauðsynlegt að þarna komi góð skilgreining á því, hvað landbúnaður sé, og þessu ákvæði verði gerbreytt.

Almennt vil ég annars segja um þetta frv., að það virðist vera gífurlegur nefndafjöldi og alls konar opinber forsjá sem þetta frv. felur í sér, — nefndafjöldi sem dregur vald úr höndum sveitarstjórna, fær það nefndum og ráðum þar sem landbúnaðarhagsmunir eru í fyrirrúmi. Nú er mér alveg ljóst að landbúnaður er nauðsynlegur í landi okkar. En það er engin ástæða til þess að setja lög sem eru svo ógreinileg um þetta atriði og ganga svo yfir hagsmuni annarra manna í landinu, þeirra sem rækju e.t.v. alveg jafnnýta starfsemi þó svo að hún héti ekki landbúnaður í skilningi þess landbrh. sem um væri að ræða í það og það skiptið. Svona eru ótal ákvæði í þessu frv. sem alvarlega má að finna. Ég mun ekki halda því lengur áfram. Mér finnst ég hafa talið kappnóg sem ætti að vera augljós rök fyrir því að Alþ. ber að láta þetta frv. liggja til haustsins og lagfæra það fyrir næsta þing að verulegu leyti.