14.05.1976
Neðri deild: 110. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4368 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

257. mál, jarðalög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra að hæstv. ráðh. hefur gert ráðstafanir til að Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson): Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að þreyta kappræður við hv. 5. þm. Reykv. um lögfræði, til þess skortir mig þekkingu. Hitt vil ég geta um í sambandi við þetta frv., sem hér er til meðferðar, að þar hafa lögfræðingar verið að verki og það meira að verki heldur en ég. Í sjálfu sér er þetta frv., eins og kemur fram í grg. þess, samið af n. Formaður hennar var lögfræðingur, ráðuneytisstjórinn í landbrn. En auk þess segir þar, með leyfi hæstv. forseta, að n. skipuðu Ásgeir Bjarnason alþm., núv. forseti Sþ., Sveinbjörn Dagfinnsson skrifstofustjóri þá, en nú ráðuneytisstjóri, og Árni Jónsson fulltrúi, en auk þess hefur dr. Gaukur Jörundsson prófessor verið n. til ráðuneytis við samningu frv. þessa. Ég held að ég geti líka bætt því við að n. hafi leitað til fleiri lögfræðilegra sérfræðinga um þau efni sem lögfræðilegs atriðis eru og hafi þess vegna ekki skort á það að farið hafi verið með aðgæslu í þeim efnum.

Enda þótt ég hafi tekið hér upp þá brtt. sem ég greindi frá áðan, til þess að vera ekki að þrátta um það, þá er þetta ákvæði búið að standa í lögum afgreiddum hér á Alþ. síðan 1948. Það virðist að því hafi yfirsést. En ég hygg að þeir menn, sem lært hafa lögfræði síðan, hafi lært þessi lög og þá skilgreiningu sem á þeim hefur verið. Og það mun vera æðistór hópur manna sem hafa útskrifast í lögfræði síðan þessi lög voru í gildi tekin og útskýrð með þeim hætti sem þar var að finna. En hins vegar vildi ég nú ekki að það orkaði tvímælis, og í því sambandi ræddi ég við hæstv. viðskrh , fyrrv. lagaprófessor, um það atriði og einnig um þau atriði sem hv. 5. þm. Reykv. vék hér að, í 13. og 14. gr. þessa lagafrv.

Það orkar ekki tvímælis að einmitt þau ákvæði geta haft miklu víðtækari áhrif heldur en það hvort bóndi fær að sitja eina jörð eða aðra, því að við það einmitt að svona árekstrar geta komið til, þá getur það verið afleiðingin og eru mörg dæmi um það að afleiðingin er sú að jörðin fer í eyði. Og það hefur ekki bara áhrif fyrir þann sem af jörðinni þarf að fara, heldur og fyrir byggðarlagið. Í því kjördæmi, sem ég er þm. fyrir, eru til dæmi um að það mátti ekki ein jörð heltast úr lestinni — úr byggðalestinni — í einni sveit þar og reyndar í tveimur svo að það hefði þau áhrif að rafmagn yrði ekki lagt í sveitina. Ef hefði fækkað um eina jörð í sveitinni í viðbót, þá var ekki lengur forsenda fyrir því að fá lagt rafmagn í þetta sveitarfélag. Ég held að það orki ekki tvímælis að það sé um almenningsheill að ræða hvort svo er eða ekki. Enda er það svo, að þegar mjög fer að grisja í byggð, þá er afar erfitt fyrir þá sem eftir búa, vegna þess m.a. að í flestum okkar sveitum er rekinn sauðfjárbúskapur, víða eru mikil og stór afréttarlönd og það er afskaplega erfitt að framkvæma skil á þessum afréttarlöndum og leita að fé sínu í þeim og heimalöndum einnig ef er farið að grisja mjög í byggðina. Þetta er þeim ljóst sem kunna skil á þessu, og er því hér um almenningsheill að ræða, því að það getur varðað byggðina í heild og framtíð hennar hvort svo er eða ekki. Þannig fór um hreppana í Djúpinu, sem hafa lagst í eyði, það var af því að það var farið að grisja svo í byggðina að þeir, sem þar vildu eftir sitja, gátu ekki setið þar áfram vegna þess hvað strjálbýlið var orðið mikið. Auk þess hefur þetta að sjálfsögðu áhrif á alla aðra þætti samgöngumála, póst, síma og annað því um líkt, allt þetta, að ég nefni nú ekki heilbrigðismál og annað því um líkt. Þess vegna er ekki verið að flytja svona mál að gamni sínu eða að vilja gera mönnum lífið leiðara en það yrði að öðrum kosti, heldur bara af því að það er verið að verja það að heil stétt manna geti orðið að hætta starfsemi sinni. Og það er líka verið að verjast því að menn nái þannig eignarhaldi á landi að það geti hvorki verið hægt að reka þar atvinnurekstur né annar hafi þar aðgang að, því að ákvæði í þessu frv. er m.a. ætlað að tryggja þéttbýlisfólkinu að það geti fengið skipulögð lönd fyrir sumarbústaði og aðgang að slíku. Þetta álít ég að sé hin mesta nauðsyn að gera eins og þjóðfélagshættir okkar eru nú orðið, og þetta gerist ekki nema við höfum vald á landinu. T.d. um starfsemi eins og rekin er af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þar tókst samkomulag við eigendur jarðarinnar, en það var búið að hrekja þessa aðila hreppa á milli þar sem þeir fengu ekki land til þess að koma upp sínum dvalarstöðum eða sumarbústöðum sem hefur tekist með miklum myndarbrag.

Það er líka alger misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv. að þetta sé eitthvert vald sem ráðh. hafi einn. Það er fjarri því. Til þess að fjalla um þessi mál eru jarðanefnd, sveitarstjórn og Landnám ríkisins. Og ráðh. hefur ekki vald til þess að úrskurða eða ákveða í slíku máli nema þessir aðilar séu búnir að mæla með því. Þetta vona ég að hv. þm. athugi og því er ekki verið að fá hér ráðh. það vald sem hann getur notað alveg ótakmarkað. Hann er bundinn af öðru valdi sem aðrir aðilar hafa.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykv. talaði um lögbýli og um landbúnað, þá eru í mörgum lögum ákvæði um landbúnað, og ég efast um að það sé annars staðar betri grundvöllur að því að ákveða, hvað er atvinnustétt, heldur en einmitt í landbúnaði. Þar er tekið fram um lögbýli, það sem þarf til að geta talist vera bóndi og annað því um líkt, og þess vegna mundi úrskurður um landbúnað byggjast á öðrum lögum sem fjalla þar um og ráðh. yrði að vera bundinn af slíku sambandi. Þess vegna held ég að það orki ekki tvímælis að það sé óeðlilegt annað en slíkur úrskurður falli í hlut ráðh., enda væri þá búið að leita umsagnar þeirra aðila sem um slíkt eiga að fjalla og væru bundnir af þeim lögum og reglum sem gilt hafa um landbúnað á Íslandi. Ég held að það þurfi ekkert að óttast um það. Það getur hins vegar verið ósköp eðlilegt og er ekki nema það mannlega að hv. 5. þm. Reykv. hafi á þessum málum aðra skoðun heldur en ég og þeir sem hafa staðið að þessu frv. og hafa unnið þetta frv., samtök bændanna, eins og Búnaðarfélag Íslands og/eða Búnaðarþing, þar sem sitja hinir merkustu menn, og aðalfundur Stéttarsambands bænda, þar sem eru kjörnir fulltrúar bændastéttarinnar og valdir þeir sem eru í fremstu röð í þeirra hópi. Við því er ekkert að segja þó að það séu mismunandi skoðanir á þessum atriðum, og ég hef auðvitað ekki nokkra löngun eða tilkall til þess að skoðanir mínar og hv. 5. þm. Reykv. um þetta atriði fari saman.

Hins vegar verð ég að segja það, að mér finnst að við byggjum ekki heldur á neitt lélegum grundvelli í þessu atriði þegar við höfum hliðstæður frá frændum okkar og nágrönnum á Norðurlöndum, í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Forustumenn þessara þjóða hafa talið brýna nauðsyn bera til einmitt að gæta þess að verja landið og setja löggjöf þar um. Ég tel því að við séum seinir á ferðinni með þessi atriði, og það stafar auðvitað af því hvernig okkar þjóðfélag hefur verið upp byggt. Það var lengi bændaþjóðfélag og eftirsókn eftir landi var ekkert vandræðamál í okkar þjóðfélagi, miklu frekar að menn áttu í erfiðleikum með að losna við land. Þess vegna held ég að það sé augljóst að við verðum að gera okkur grein fyrir þeim breytingum sem eru orðnar og eru að verða í okkar þjóðfélagi og við megum fullkomlega gæta að okkur. Það er landið, sem er okkar mesta verðmæti, og það eru réttindin, sem því fylgja, sem við megum ekki láta lenda í höndum fárra manna. Þetta getur skeð og það er þess vegna sem við þurfum að setja löggjöf um þetta efni, eins og hér er stefnt að.

Ég vil líka endurtaka það, að það. er búið að leggja alveg geysilega vinnu í þetta mál. Það er búið að leggja í það vinnu að samræma sjónarmið manna þar um í stjórnarflokkunum. Þetta frv. er lagt fram með samþykki þeirra beggja, auk þess sem þeir, sem stóðu að vinstri stjórninni, voru einnig fylgismenn þessa frv. Ég efast ekki um að þetta frv. hefur það fylgi hér í þessari hv. d. og hv. Alþ. að það á auðvelt með að fá afgreiðslu þessa þings. Og ég tek það skýrt fram að þrátt fyrir að það ákvæði, sem ég geri brtt. um, sé búið að vera í lögum síðan 1948 og okkar lögfræðingar, sem sitja hér á móti mér, hafi lært um þetta og ekki verið gerðar við það neinar aths., og svo er um fleiri, og þetta er beinlínis tekið upp úr þeirri löggjöf, þá vil ég ekki vera að hætta á neitt sem orkar tvímælis í þeim efnum. En ef á að fara að taka meginkjarnann úr sjálfu frv., eins og það að kannske einn erfingi gæti komið í veg fyrir að góð bújörð héldist í ábúð, þá hefur frv. ekkert gildi, því að það er einmitt það sem er verið að gera, að tryggja að þær haldist í ábúð og tryggja þeim, sem fyrir því yrði, að hann fái fullar bætur, því að það á að gera eftir lögum um eignarnám, og hefur ekki verið til þessa talið að mat samkv. eignarnámslögum væri með þeim hætti að neinn hefði tjón af. Og þetta er gert til þess að verja þann aðila sem þannig er settur að hann hætti búskap ef hann fengi ekki þann hluta jarðarinnar, og ég veit um það mörg dæmi og ég veit að það er í átökum víðaum slíkt. Og ég veit líka að með landnámslögunum höfum við látið skipta jörðum niður í allt of smáar einingar. Það er því ekki nema eðlilegt að það sé stefnt að því að sameina aftur slíkar jarðir, auðvitað fyrst og fremst með góðu samkomulagi, en ef það tækist ekki, getur þurft að beita slíku, eins og þarf að beita slíkum ákvæðum ef almenningsheill krefst þess. Það er þetta sem er tilgangur þessa frv., og við göngum miklu skemmra en nágrannar okkar á Norðurlöndunum. Og það er eðlilegt og sjálfsagt að við gerum það þegar við setjum svona lög í fyrsta sinn. En við skulum gæta að okkur, að við förum ekki að draga þetta mál lengur en orðið er og missum af strætisvagninum, því að með hverju ári sem líður, erum við að færast í meiri og meiri hættu einmitt um þetta atriði.