14.05.1976
Efri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4371 í B-deild Alþingistíðinda. (3716)

282. mál, löggiltir endurskoðendur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í sept. árið 1970 skipaði þáv. fjmrh., Magnús Jónsson, n. til þess að gera till. um nám til löggildingar sem endurskoðendur. Í n. voru skipaðir Halldór V. Sigurðsson ríkisendurskoðandi, formaður, Guðlaugur Þorvaldsson rektor og Árni Björnsson löggiltur endurskoðandi. Í maímánuði árið 1973 skilaði n. till. sínum til rn. Það frv. til l. um löggilta endurskoðendur, sem hér er lagt fram á þskj. 749, er að mestu sniðið eftir till. n. sem á sínum tíma ræddi málið í félagsskap löggiltra endurskoðenda og við einstaka kennara við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Þá kynntu nm. sér mál þessi annars staðar á Norðurlöndum og tóku mið af þróun mála þar við samningu tillagnanna.

Um réttindi og skyldur löggiltra endurskoðenda, skilyrði til að fá löggildingu sem endurskoðandi og fleiri ákvæði um löggilta endurskoðendur gilda nú lög nr. 89 frá 1953, en þau lög leystu af hólmi fyrstu lög um löggilta endurskoðendur hér á landi frá 1926. Veigamesta breytingin, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er að bóklega námið verði sérstakt kjörsvið í viðskiptadeild Háskólans í stað þess að vera stundað á námskeiðum sem ráðh. hefur heimild til skv. núgildandi lögum að efna til á hæfilegum fresti fyrir þá sem þreyta vilja prófraun endurskoðenda. Er þetta eðlileg þróun og í fullu samræmi við það, sem annars staðar er. Jákvætt álit bæði viðskiptadeildar og lagadeildar Háskóla Íslands liggur fyrir um þessa tilhögun.

Frá því að núgildandi lög um löggilta endurskoðendur voru sett hefur orðið stórfelld breyting á skilningi manna á mikilvægi og nytsemi reikningsskila fyrirtækja og einstaklinga sem stjórntækis við atvinnurekstur. Þá hafa síaukin viðskipti og samskipti við erlenda aðila gert mönnum ljósa nauðsyn þess að reikningsskil íslenskra aðila, bæði ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækja, séu þannig úr garði gerð að þeim megi treysta. Þá gera opinberir aðilar meiri kröfur til reikningsskila en áður. Verkefni endurskoðenda verða því sífellt viðameiri, fjölbreyttari og vandasamari. Af þessum sökum er nauðsynlegt að þeir, sem hafa þá ábyrgð að setja fram hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum, hafi þá bóklegu og verklegu menntun sem best verður í té látin.

Um aðrar breytingar, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, ræði ég ekki að sinni, en í grg. og aths. með frv. er gerð grein fyrir þeim.

Ég vænti þess að frv. sæti ekki miklum ágreiningi. Um efni þess hefur verið fjallað af þeim aðilum er það helst snertir, og er það í samræmi við álit þeirra.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.