17.11.1975
Efri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

62. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan leggja aðeins orð í belg um frv. það sem hv. 7. landsk. þm. talaði hér fyrir.

Ég vil hefja mál mitt með því að lýsa því yfir að hér er hreyft máli, sem er réttlætismál. Mér hefur lengi verið ljóst að reglur um skattfrádrátt bændakvenna hafa verið í ósamræmi við þær reglur, sem gilda um skattfrádrátt kvenna á almennum vinnumarkaði. Og sumt af því, sem þar kemur fram, er mjög fráleitt, eins og kom fram hjá hv. flm., eins og t. d. það, að ef svo hagar til að bóndinn vinnur meginhluta ársins utan heimilis og vinnan við búreksturinn kemur að mestu leyti á eiginkonuna, en tekjur af búrekstrinum verða tillitlar, þá minnkar lögleyfður frádráttur vegna eiginkonunnar.

En það, sem mig langaði einkum að minnast hér á, eru 600 vinnustundirnar sem eru í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara. Það er alveg rétt að þessi tala er lág, og það er sömuleiðis rétt að kaupgjald það, sem þar er við miðað, er lægra en það kaup sem bóndanum er reiknað. Þetta er arfur frá gömlum tíma og eitt af því sem auðvelt er að sjá annmarkana á, en erfiðara að fá í reynd lagfæringar á á þeim vettvangi þar sem þessir hlutir eru ákveðnir. Kaup kvenna við búskaparstörf í verðlagsgrundvelli hefur verið miðað við tímakaup verkakvenna í Verkakvennafélaginu Framsókn hér í Reykjavik og upplýsingar um þessar kaupgreiðslur hafa verið að jafnaði fengnar frá Kjararannsóknarnefnd. Eins og ég sagði er þetta arfur frá gömlum tíma. Kaup bændanna er aftur á móti miðað við samanvegið kaup verkamanna og iðnaðarmanna og raunar sjómanna líka að hluta til eftir ákveðnum reglum. Þó er ekki þar miðað við tekjur þeirra sjómanna, sem taka laun samkv. hlutaskiptareglum, og ekki heldur þeirra iðnaðarmanna, sem vinna samkv. uppmælingu. Ég ætla ekki að fara að verja þetta á nokkurn hátt. Ég er sammála flm. um að mér fyndist eðlilegt að þarna væri reiknað sama kaup til handa körlum og konum við þessi verk og engin frambærileg ástæða til þess að gera þar greinarmun á.

Annað, sem ég vildi nefna í þessu sambandi, er vinnustundafjöldinn sem reiknað er með í landbúnaði. Einu beinar upplýsingar, sem við höfum við að styðjast um raunverulegt vinnuafl í landbúnaði, eru svokallaðir búreikningar sem eru því miður aðeins haldnir af milli 150–200 bændum í landinu svo að auðvitað má draga í efa að þeir búreikningar séu rétt meðaltal af vinnumagni í landbúnaði. Þessir búreikningar hafa verið haldnir um margra ára skeið og þeir hafa raunar sýnt ákveðna þróun í þessum efnum. Vinnumagnið á bak við hverja framleiðslueiningu hefur farið nokkuð minnkandi og styst það bil sem hefur verið milli vinnumagns, sem reiknað er með í verðlagsgrundvelli annars vegar, og þess vinnumagns, sem fram kemur í búreikningum, þannig að nú loksins er þarna orðið nokkurt samræmi á milli. Verðlagsgrundvöllurinn, eins og hann er nú, gerir sem sagt ráð fyrir mjög svipuðu vinnuafli á bak við framleiðslueiningu og búreikningar sýna, og við verðum að gera ráð fyrir að þessi þróun haldi e. t. v. áfram, þannig að að því komi að minna vinnumagn megi vera á reikningi sem þeim, sem kallaður er verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara, án þess að gengið sé á hlut bænda.

Annað, sem er dálítið merkilegt og mörgum finnst stangast mjög á við eigin athugun og þekkingu á þessu, er vinnumagn húsmæðranna. En það kemur í ljós og hefur raunar verið svo nú um nokkur ár, að það er mjög nálægt þessum 600 stundum sem vissulega voru settar fyrir mörgum árum án þess að miklar athuganir lægju þar á bak við. Þetta hefur m. a. orðið til þess að við höfum ekki talið okkur fært að gera háværar kröfur um að þetta vinnumagn væri aukið. Eins og hv. frsm. sagði, er þetta vinnumagn ákaflega misjafnt frá einu búi til annars og erfitt þess vegna að draga réttar ályktanir út frá því sem menn þekkja þar af eigin reynd.

Í sambandi við vinnumagnið í landbúnaðinum langar mig að nefna það, að fyrir allmörgum árum, ég hygg það hafi verið á árunum 1967–1968, þá fóru fram allvíðtækar vinnumælingar á vegum 6 manna nefndar. Þessar vinnumælingar fóru fram með þeim hætti að tveir menn, annar starfsmaður Alþýðusambands Íslands, hinn starfsmaður Stéttarsambands bænda, fóru um landið og mældu vinnu hjá allmörgum bændum sem valdir voru með útdrætti sem kallað er. Þar kom auðvitað í ljós, eins og gera mátti ráð fyrir, að vinnumagnið var misjafnt, menn eru misjafnir við landbúnaðarstörf eins og önnur störf, en þegar þessar athuganir voru skoðaðar í heild, þá voru þær ákaflega svipaðar niðurstöðunum í búreikningunum — ákaflega svipaðar og þóttu styrkja búreikningana sem upplýsingaöflun um þennan þátt í kostnaði við framleiðslu á landbúnaðarvörum.

Það atriði, sem þetta frv. snýst einkum um, er þó það að flm. þykir sem allt of lítið tillit sé tekið til vinnuframlags eiginkvenna í sambandi við skattamál, og ég er þeim sammála um þetta. Ég vil gjarnan nefna það, að ég hygg að aðalástæðan til þess, að bændur hafa ekki gert háværari kröfur um að þetta væri leiðrétt heldur en raun ber vitni, hefur einfaldlega verið sú, að því miður hefur það sýnt sig að þrátt fyrir löggjöf, sem segir að bændur skuli hafa sambærilegar tekjur á við ákveðnar viðmiðunarstéttir, og þrátt fyrir tiltölulega gott samstarf í þeirri n. sem ákveður verð á landbúnaðarvörum, þá vantar mikið á að bændur hafi haft þær tekjur sem gert er ráð fyrir í verðlagsgrundvelli. Þeir hafa verið tekjulægsta vinnustétt þjóðfélagsins og vegna lágra tekna hafa þeir líka verið lágir skattgreiðendur, og það óréttlæti, sem fylgt hefur verið í sambandi við skattaálögur og vinnuframlag eiginkvenna, hefur þess vegna ekki verið eins brýnt mál fyrir bændur eins og ella hefði verið hagsmunalega séð. Þess vegna hafa þeir verið hljóðari um þessa hluti en vænta mátti.

Ég ætla ekki að fara að halda hér langa ræðu um kjör bænda. Þeir eru ein sú stétt í landinu, sem hefur unnið mjög hörðum höndum á undanförnum árum. Þeir hafa haft lágar tekjur, en samt sem áður hafa þeir eignast mjög verulegar eignir, og menn vita vel að það hefur ekki endilega þurft að hafa háar tekjur í þessu þjóðfélagi til þess að eignast eignir. Eignir bændanna eru jarðir þær, hús, vélar og búfénaður sem þeir búa við. Þetta e:u vissulega miklar eignir. En um þessar eignir er því miður það að segja, að þrátt fyrir það þótt bændur hafi eignast þær, þá hefur það ekki verkað á þá lund að tekjur bændanna hækkuðu verulega. Þær verða að vísu nokkuð misjafnar eftir því hvar þeir eru á vegi staddir með sínar framkvæmdir, en þegar á heildina er litið gefa eignir í landbúnaði ekki af sér miklar tekjur.

Þetta frumvarp felur í sér að efni til fyrst og fremst framkvæmdaatriði í sambandi við skattamál. Ég vil ekki um það segja hér hvaða afgreiðslu þessi till. kann að fá, en ég endurtek það, að ég tel að hún sé byggð á réttri athugun á þeim aðstæðum sem fyrir hendi eru í þessum málum.