17.11.1975
Efri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

62. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Þótt ég eigi sæti í þeirri n., sem fær frv. þetta til athugunar, sé ég ástæðu til þess að fara um það nokkrum orðum.

Ég ætla ekki að fara við þessa umr. út í almennar umr. um skattamál og till. hv. þm. Ragnars Arnalds og mun fremur gera það á öðrum vettvangi, en ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta frv.

Í fyrsta lagi vil ég benda á það, þótt það skipti ekki verulegu máll, að þessi breyt. á l. er miðuð við skattalögin eins og þau voru áður en breyt. átti sér stað á s. l. vetri. Hér er gert ráð fyrir því að framangreindur frádráttur vegna vinnu eiginkonu bónda við búrekstur nemi aldrei lægri fjárhæð en helmingi persónufrádráttar hjóna, en þess ber að geta að persónufrádráttur var með lagabreytingunni á s. l. vetri lagður niður og þess vegna getur persónufrádráttur ekki verið rétt viðmiðun. Þar verður að koma til önnur viðmiðun.

Hér er gert ráð fyrir því að eiginkonur bænda fái meiri rétt en eiginkonur atvinnurekenda. Ég er því alveg sammála að hér ríkir ekki jafnrétti. Og jafnvel þótt þetta frv. nái fram að ganga mun ekki heldur ríkja jafnrétti, eins og hv. frsm. gat um. En spurningin er sú alla tíð: Hvernig skal jafnrétti komið á? Ég er þeirrar skoðunar og hef lengi verið að sú regla, sem hér er verið að prjóna við, skapi mikinn ójöfnuð. 50% af launatekjum eiginkonu, sem vinnur utan heimilis, eru frádráttarbær til skatts, og það er svo að þetta skapar oft mikinn ójöfnuð. Fólk ber sig saman: hvað greiði ég í skatt miðað við manninn við hliðina? Maðurinn við hliðina hefur oft á tíðum álíka miklar tekjur, en þær eru ef til vill öðruvísi samsettar. Það verður ekki skapað jafnrétti í þessum efnum nema gera leiðréttingar á þessu atriði, og ég vænti þess að hugmyndir eða till. þær, sem komu fram um sérsköttun, verði þess valdandi að það verði komið hér á jafnrétti.

Ég vil aðeins að lokum benda á að það er mjög varasamt að ætla sér að koma á jafnrétti með því að auka frádrætti hjá tekjulágu fólki. Það var fyrir nokkrum árum að það var ákveðinn sérstakur frádráttur fyrir gamalmenni. Það var gott og blessað að gera það. En sá frádráttur kom þannig fram að hann notaðist aðeins hjá eldra fólki sem hafði allverulegar tekjur. En slíkur frádráttur notaðist alls ekki hjá eldra fólki sem hafði tillitlar tekjur. Og það er eins með frekari frádrætti hjá hinum ýmsu þjóðfélagsstéttum, að frádrátturinn nýtist aðeins séu tekjur allmiklar, þannig að um skatt sé að ræða. Það hlýtur því að vera mun brýnna, eins og hv. þm. Ingi Tryggvason gat um, að tryggja bændum þær tekjur sem þeim ber. Bændur hafa alla tíð verið tekjulág stétt og það er höfuðmálið.

Hitt er svo annað mál, að það ríkir ekki jafnrétti á því sviði sem hér er getið um, þ. e. a. s. varðandi frádrátt útivinnandi eiginkonu. En ég er þeirrar skoðunar að þar verði að verða mun meiri og alger grundvallarbreyting, en það eigi ekki að prjóna við lögin úrelta reglu sem skapar ójöfnuð í þjóðfélaginu.