14.05.1976
Efri deild: 114. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4375 í B-deild Alþingistíðinda. (3733)

7. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. því sem ég hef skrifað og er hér á þskj. 809, þá er ekki samstaða um mál þetta í menntmn. Ég var að vísu ekki á þeim fundi sem afgreiddi þetta mál, en það breytir ekki því að menntmn. stendur ekki einhuga að afgreiðslu málsins og ég hef skilað hér sérstöku nál.

Það er ástæðulaust að fjölyrða um efni þessa frv., það er öllum kunnugt. En deiluefnið í þessu frv. er það hvort ríkisvaldið eigi áfram að greiða til almenningsbókasafna árlega vissan hluta af rekstrar- og byggingarkostnaði slíkra mannvirkja eða hvort haldið skuli áfram þeirri stefnu, sem mörkuð var nú um áramótin, að kostnaður við þessi verkefni skuli alfarið falla á sveitarfélögin. Ég held að ekki verði um það deilt að breytingin, sem gerð var nú fyrir jólin á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, var gerð nokkuð flausturslega og án þess að það mál væri hugsað til botns, enda komu fram mjög hörð mótmæli frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þegar það mál var afgreitt.

Við alþb.- menn höfum talið sjálfsagt að skýrari skil yrðu gerð milli verkefna sveitarfélaga annars vegar og ríkisins hins vegar, en höfum viljað skoða það hins vegar miklu betur en gert var hvernig sú skipting yrði í raun og alls ekki að ganga frá skipan þeirra mála nema samkomulag sveitarfélaganna lægi fyrir.

Þær till., sem ég flyt á þskj. 809, eru í meginatriðum á þá leið að frv. verði samþ. eins og það var flutt hér á hv. Alþ. upphaflega, áður en Nd. breytti því, og breytingarnar snerta því 8., 9. og 10. gr. frv. sem allar snerta að einhverju leyti fjármögnun rekstrar og framkvæmda. Við teljum sem sagt eðlilegt, að ríkið leggi fram fé á móti sveitarfélögum til almenningsbókasafna, og mælum með því, að frv. verði samþykkt í því formi sem það var upphaflega flutt.