14.05.1976
Efri deild: 114. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4376 í B-deild Alþingistíðinda. (3737)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. menntmn. hefur fjallað um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi, og um afgreiðslu þess máls gildir hið sama og afgreiðslu hins fyrra máls, að ég var ekki víðstaddur nefndarfund, en er andvígur afgreiðslunni og skila því séráliti.

Það er till. mín að frv. þessu verði vísað til ríkisstj. og fjallað verði um fyrirkomulag viðskiptamenntunar í tengslum við heildarendurskoðun náms á framhaldsskólastigi. Verði hins vegar frávísunartill. felld, þá geri ég til vara þá till. að frv. verði samþ. með tilteknum breytingum. Verði þær hins vegar einnig felldar tel ég að frv. sé með slíkum vanefnum samið og frá gengið, að það eigi ekki að ná fram að ganga, og legg því til að það verði fellt.

Þess mun ekki langt að bíða að n., sem hefur starfað að endurskoðun á skipan framhaldsskólastigsins í heild, skili till. sínum. Ef að vonum fer mun það verða niðurstaða n. að hér á landi verði starfræktur samræmdur framhaldsskóli sem greinist í námsbrautir. Við nokkrir þm. Alþb. Í þessari deild höfum einmitt lagt fram þáltill. um að skora á ríkisstj, að leggja fram frv. af því tagi, og það er skoðun okkar að þetta sé hin rétta stefna í sambandi við framhaldsskólamenntunina. Viðskiptamenntunin er að sjálfsögðu einn þáttur þessa samræmda framhaldsskóla, og því virðist nú í hæsta máta óeðlilegt að fara að festa í lögum skipulag viðskiptamenntunar sérstaklega, eins og gert er í þessu frv., áður en till. um heildarskipulag samræmds framhaldsskóla liggja fyrir.

Að sjálfsögðu verður ekkert um það sagt hvort þetta frv., sem samið var á árunum 1972 og 1973, fellur eðlilega inn í það heildarskipulag framhaldsskólastigsins sem nú eru áform uppi um, og margt bendir til þess að sum ákvæði þessa frv. muni beinlínis stangast á við þær hugmyndir sem menn gera sér um samræmdan framhaldsskóla. Það er því ljóst að samþykkt þessa frv. nú á lítinn rétt á sér.

Þau sjónarmið, sem ég hef hér sett fram, eru raunar studd áliti stjórnar Landssambands framhaldsskólakennara og Félags háskólamenntaðra kennara, en bæði þessi félög eða stjórnir þeirra hafa sent menntmn. umsagnir sínar. Í umsögn Landssambands framhaldsskólakennara segir beinlínis:

„Nú er unnið að nánari skipulagningu náms á framhaldsskólastigi. Þar er lögð áhersla á að allar námsbrautir verði í framtíðinni í fjölbrautaskólum. Því virðist eðlilegt að fresta samþykkt þessa lagafrv, þar til nánar verður séð hver skipan þessara mála verður í skólum ríkisins.“

En því miður virðist vera að hv. menntmn. Ed. og Nd. hafi virt þessa umsögn að vettugi. Sama sjónarmið kemur fram í umsögn Félags háskólamenntaðra kennara. Þar segir:

„Frv. ber þess ljósan vott að það er fram borið vegna Samvinnuskólans og Verslunarskóla Íslands. Þótt þessum tveimur skólum verði e.t.v. ekki jafnað saman, mætti álíta að þetta frv. sé ótímabært vegna þeirrar heildarathugunar, sem nú fer fram á framhaldsskólastiginu, og væntanlegra laga þar um, og því væri vafasamt að festa enn í sessi bær stofnanir, sem hingað til hafa notið sérstöðu sinnar.“ Síðar í sömu umsögn segir: „Þar til lögum um framhaldsskólastigið verða samþykkt (sem er mjög aðkallandi og verður vonandi á næsta þingi) mætti leysa vanda sérskólanna tveggja með sérstökum fjárveitingum.“

Þetta frv. gerir auk þess ráð fyrir stórauknum ríkisútgjöldum vegna tveggja sérskóla á sama tíma og fjárveitingar til skólamála í heild hafa verið skornar niður miskunnarlaust og brýnasta verkefni menntamálanna nú um stundir, þ.e.a.s. iðnmenntuninni, hefur ekki verið sinnt. Það er því alveg ljóst að forsendur hafa nokkuð breyst frá því að frv. var áður til umfjöllunar á Alþ., og liggur hreint ekki eins beint við að samþykkja það nú í breyttri eða óbreyttri mynd eins og kann að hafa virst fyrir þremur árum þegar frv. sá fyrst dagsins ljós hér á Alþingi.

Með hliðsjón af þeim meginrökum, sem ég hef hér fært fram, er það aðaltill. mín að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. og fjallað verði um fyrirkomulag viðskiptamenntunar í tengslum við heildarendurskoðun náms á framhaldsskólastigi. En til vara, ef þeirri till. verður hafnað, vil ég leggja hér fram tvær till. sem benda til þeirra vansmíða, sem óneitanlega eru á frv., og verður því að sníða af því ef það á að ná fram að ganga.

Þessar brtt. eru shlj. þeim sjónarmiðum, sem við alþb: menn settum fram þegar frv. var til meðferðar á Alþ. á árunum 1973 og 1974. Við teljum óeðlilegt að ríkissjóður leggi fram stórfé til stofnkostnaðar kennslu og heimavistarhúsnæðis án þess að skýrt sé fram tekið að framlög ríkissjóðs teljist eign ríkisins og að rn. hafi yfirráðarétt yfir þeim hluta húsnæðisins ef svo kynni að fara að húsnæðið yrði ekki lengur notað í þágu viðkomandi skólastofnana. Þetta er hins vegar alls ekki nægilega skýrt fram tekið í frv. enda þótt nokkur lagfæring hafi verið gerð á því frá því að það var lagt fram fyrir nokkrum árum, því að í þeirri breytingu, sem Nd, hefur gert á því, segir m.a.: „Nú eru skólar þessir lagðir niður eða svo fer að ekki er hagnýtt í þágu skólanna skólahúsnæði, hvort sem er til kennslu eða heimavistar, og fær ríkið þá eignarráð yfir hlutaðeigandi húsnæði í samræmi við stofnkostnaðarframlög sín. Ef ágreiningur verður um eignaskiptingu skal dómkveðja þrjá óvilhalla menn til þess að kveða á um skiptinguna og er úrskurður þeirra endanlegur.“

Sem sagt, eignaraðilar skólans eiga að byrja á því að fá þessi framlög frá ríkinu í hreinan styrk, en ef skólahúsnæðið er ekki lengur hagnýtt í þágu skólanna þá fær ríkið eignaryfirráð sín til baka. Ég þarf vonandi ekki að fræða marga hv. þm. um að þetta er í algeru ósamræmi við bað sem tíðkast í sambandi við fjárveitingar ríkisins til einstakra mannvirkja og þá síst af öllu til skóla. Eins og menn vita eru skólar landsins flestir hverjir í sameign sveitarfélaga og ríkisins og er auðvitað ekki neinn minnsti vafi á því að ríkið á skólana að sínum hluta á móti sveitarfélögunum. Hvers vegna í ósköpunum ætti þá að fara að taka upp allt aðra og frábrugðna reglu varðandi þá eignaraðila sem hér um ræðir? Það er mér með öllu óskiljanlegt, og vil ég leyfa mér að benda á að það er auðvitað hálfu óeðlilegra þar sem hér eiga í hlut einkaaðilar, en í hinu tilvikinn er um sveitarfélög að ræða. Það ætti því að vera þeim mun meiri ástæða fyrir ríkisvaldið til þess að gæta réttar síns þar sem um einkaaðila er að ræða. Ég hef því leyft mér að flytja brtt. við 9. gr. um að 5. mgr. orðist eins og segir á þskj. 810, að það sé tekið ótvírætt fram að í þessu tilviki eins og í öllum öðrum tilvikum sé um að ræða eign ríkisins. Allt annað er fráleitt og í engu samræmi við aðra löggjöf frá Alþingi.

Í öðru lagi, og það er í nánum tengslum við það sem ég hef nú sagt, tel ég að það sé fullkomlega óeðlilegt að ríkið greiði 80% af rekstrarkostnaði þessara skóla og 80% af stofnkostnaði. en einkaaðilar haldi áfram að stjórna þessum skólum og reka þá. Ég tel að það séu ekki nokkur rök fyrir þessu og raunar sé hér um að ræða meðferð á fjármunum ríkisins sem sé óforsvaranleg með öllu. Ég tel að úr því að þessir aðilar treysta sér ekki til þess að standa undir rekstrarkostnaði þessara skóla nema að litlu leyti, þá sé eðlilegt að ríkisvaldið og þá fyrst og fremst menntmrn, hafi full tök á stjórn þessara skóla, og í því sambandi er það till. mín að skólanefndir starfi við þessa skóla sem hafi með höndum fjárreiður skólanna og eignaumsýslu um leið og þær hafa einnig það verkefni að ráða skólastjóra og kennara. Í skólanefnd sitji 5 fulltrúar. Að þessu leyti er till, eins og frv. var samþ. í Nd., en síðan er sú breyting gerð að 3 af þessum 6 skólanefndarmönnum eru tilnefndir af menntmrh., en eignaraðilar tilnefna tvo. Ég get ekki fundið rök fyrir því, ef ríkið borgar mikinn meiri hl. af kostnaði við þessa skóla, að þá skuli það ekki hafa nema einn fulltrúa í skólanefnd af fimm.

Ég hef áður tekið það fram að fari svo, að málinu verði ekki vísað til ríkisstj., heldur gangi það hér til atkv., þá tel ég samþykkt þessara brtt. grundvallarskilyrði til þess að ég geti stutt þetta mál. Ég mun því greiða atkv. gegn samþykkt þess nái þær ekki fram að ganga.