17.05.1976
Efri deild: 116. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4381 í B-deild Alþingistíðinda. (3751)

236. mál, skotvopn

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki eyða löngu máli í það að ræða um þá brtt. sem ég ber fram við frv. til l. um skotvopn, sprengiefni og skotelda. En ég legg til að aftan við 1. mgr. 7. gr. bætist: „Eigi skal heimilt að flytja til landsins til sölu skotvopn sem hlaða sig sjálf,“ þ.e.a.s. sjálfvirkar byssur.

Nú er mér kunnugt um það að gerð verður breyting á frv. á þá lund að kveðið verður á um það, að ráðh. sé heimilt með reglugerð að banna innflutning á ýmsum gerðum skotelda og skotvopna, og kveðið verður á um það, að slík heimild geti náð til ýmissa tegunda af sjálfvirkum byssum. Skotvopnafróðir menn sem ég hef rætt þetta atriði við og eru svo vissir í sinni sök um yfirburðaþekkingu sína á skotvopnum að þeir hafa fullyrt að ég hefði bókstaflega ekkert vit á þeim, — við nefnum engin nöfn í þessu sambandi, en meðal þeirra er maður úr þessari hv. d., — þeir hafa haldið því fram að rangt gæti verið að kveða beinlínis á um það í lögum að ekki mætti flytja til landsins til sölu neins konar sjálfvirk skotvopn, og hafa tilgreint það m.a. að hugsanlegt gæti verið að nauðsynlegt væri t.d. að hafa riffla sem gætu skotið fleiri skotum heldur en tveimur í bunu með því að taka í gikkinn. Rök fyrir þessu áliti voru ekki færð fram. Ég held að þarna sé bara um að ræða óskilgreint frjálslyndi í viðhorfi til skotvopna almennt. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum ekkert við veiðivopn af þessu tagi að gera, — veiðivopn sem notuð eru eins og vélbyssur til dreifingar á banvænu blýi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert sport í að nota þess háttar skotvopn, hvort heldur það eru rifflar eða haglabyssur, og ég veit að þessi skotvopn eru miklu hættulegri en þau skotvopn sem þarf að hlaða hverju sinni, að setja skotið í hverju sinni fyrir hvert skot sem hleypt er af. Þetta er mér kunnugt. Ég veit að skotvopn af þessari gerð hafa valdið banaslysum í höndum óvita, og ég veit að þau eru miklu hættulegri í höndum — ja, við skulum segja vangefinna eða bilaðra á einhvern hátt, og að þau valda stórtjóni í dýralífi okkar.

En sem sagt, ég vil að ráðh. verði a.m.k. heimilt samkvæmt þessum lögum að koma í veg fyrir innflutning á sjálfvirkum byssum af þessu tagi.