17.05.1976
Efri deild: 116. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4387 í B-deild Alþingistíðinda. (3758)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Þær breytingar, sem fram koma á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins í því frv. sem nú liggur fyrir, hafa verið alllengi í meðferð. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessar breytingar. Ég hef átt aðild að þeirri n. sem að þeim hefur unnið. Ég get hins vegar lýst því að sum atriði hefði ég viljað fá inn þarna ákveðnari, eins og t.d. það hlutverk Framkvæmdastofnunar að standa að gerð árlegrar lánaáætlunar og að forgangsröðun hinna mörgu verkefna í okkar þjóðfélagi. Ég tel samræmingu af því tagi enn mjög ábótavant í okkar kerfi og eðlilegt að Framkvæmdastofnunin vinni þar meira að en verið hefur.

Um aðra þætti vil ég hins vegar lýsa sérstakri ánægju, eins og t.d. 14. gr. þar sem nú er gert ráð fyrir að ákveða í lögum að ráðstöfunarfé Byggðasjóðs skuli aldrei vera minna en 2% af útgjöldum fjárl. Þetta er mjög mikilvægt.

Þá vil ég einnig lýsa ánægju minni með 9. gr., þar sem gert er ráð fyrir að setja á fót nýja deild, byggðadeild. Byggðamálin hafa að sjálfsögðu verið eitt af meginverkefnum þessarar stofnunar og að sjálfsögðu verið verkefni Byggðasjóðs sem hefur, eins og hv. síðasti ræðumaður las upp, en mér fannst hann ekki fyllilega skilja, starfað að því að koma í veg fyrir byggðaröskun, lána fjármagn til þess að koma í veg fyrir byggðaröskun og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst til þeirra byggða eða landshluta sem hafa orðið fyrir mestri byggðaröskun. Hins vegar, eins og hann las réttilega upp, er Byggðasjóði ætlaður sá grundvallarstarfsháttur að starfa samkv. byggðaáætlunum og þar hefur verið mjög ábótavant. Byggðaáætlanir eru heldur fáar tilbúnar enn þótt að þeim mörgum sé unnið. Það var því skoðun m.a. mþn. um byggðamál, sem hér hefur starfað, að tækifæri væri til þess í sambandi við þessa endurskoðun að fá byggðadeild setta á fót við Framkvæmdastofnun ríkisins sem sinnti formlega framkvæmd byggðamála, og raunar var það skoðun n. að ef það fengist, þá væri þar fenginn mjög stór áfangi í byggðamálum. Því samþykkti n. svofellda ályktun um framkvæmd byggðamála:

„Við Framkvæmdastofnun ríkisins verði sett upp ný deild, byggðadeild. Verkefni hennar verði sem hér segir:

1. Að fylgjast með þróun byggða og gera till. til úrbóta.

2. Að fjalla um áhrif opinberra aðgerða í byggðaþróun og gera till. þar um.

3. Að vinna að gerð byggðaáætlana í samvinnu við áætlanadeild.

4. Að gera till. um lánveitingar úr Byggðasjóði.“

Hæstv. forsrh. var gerð grein fyrir þessu bréfi 5. mars s.l. og jafnframt þeirri n, sem vann að frv. Þetta hefur fengið hljómgrunn með 9. gr. frv., sem er efnislega eins og mþn. um byggðamál lagði til. Ég sé sérstaka ástæðu til þess að lýsa ánægju minni með þau málalok.