17.05.1976
Efri deild: 116. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4388 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Á sínum tíma, er vinstri stjórnin sat hér að völdum, kom hún fram með frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins og urðu um það harðar deilur hér á hv. Alþ. og ekki síst í Ed. þar sem þá sátu hér oddvitar Sjálfstfl. sem þá var í stjórnarandstöðu. Um þetta mál var lengi þráttað hér í d. og fór svo að lokum að Sjálfstfl. varð á móti þeirri lagasetningu. En við í Alþfl. studdum meginefni frv. og komum á mikilvægri breytingu í þá átt að Þjóðhagsstofnun, sem þá hét öðru nafni, væri sjálfstæð deild innan Framkvæmdastofnunarinnar. Síðan hafa þm. Alþfl. jafnan viljað gera á hér nokkra bragarbót, m.a. um skipan framkvæmdastjóra, og þarf ég varla að rekja það á þessu stigi. Ég mun koma nánar að því við 2. umr. til þess að tefja ekki um of nú. En því miður sé ég í þessu frv. að eiginlega gerir það ráð fyrir óbreyttu formi í raun. Það er lítils háttar nafnabreyting sem á sér stað, annað ekki, svo að það má segja að Sjálfstfl. hafi gerbreytt um stefnu í þessu efni og fallist á hugmyndir Framsfl. í því skyni að ná sættum um þetta frv. sem kemur nú fram nærri tveimur árum eftir að ríkisstj. var mynduð, en í samningum um stjórnarmyndunina var gert ráð fyrir að endurskoðun á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins ætti sér stað.

Eitt veigamesta atriðið í þessu frv. er að lögbinda að árlega skal árlegt framlag úr ríkissjóði nema 2% af útgjöldum fjárl. Það hefur æ ofan í æ komið fyrir hér á hv. Alþ. þm. hafa kvartað yfir því að svo mikið sé búið að binda fjárlög með annarri lagasetningu að ekkert sé hægt að hreyfa orðið á fjárl., allt sé bundið og sé að verða formsatriði að afgreiða fjárl. Nú á að taka stærra skref í þessa átt en nokkru sinni áður. Sumir kunna að vera ánægðir með þetta, en ég er það ekki. Ég tel að það sé hlutverk Alþ. að ákveða fjárlög hverju sinni og fjárlög eigi að standa eins og Alþ. ákveður, en ekki eins og hefur verið nú undanfarin 4 ár, að gífurlegar upphæðir koma eftir á, sem nemur á annan milljarð kr., og fjárl. hafa reynst því miður ónýtt eða lítt gilt pappírsplagg þegar stuttan tíma eftir gildistöku laganna. Og ég sé ekki ávinning í því að binda það, alveg sama hvernig árar, að þá skuli föst prósenttala renna í þennan sjóð þótt þörf sé, ég tek það fram: þótt þörf sé. En að binda það í lögum og taka það svo skýrt fram, að Alþ. geti sig litt eða ekkert hreyft, tel ég ekki rétt vinnubrögð. Og það hafa allir sagt, hvar í þingflokki sem þeir standa, að þegar sé búið að binda fjárlög svo í bönd, fjárlagagerðina, að ekkert sé hægt yfirleitt að hreyfa. Menn eru að reyna að hreyfa til 100 þús., 200 þús. kr., jafnvel 500 þús. kr. í lífsnauðsynlega hluti. Það er ekki viðlit að fá það handa sjúkrahúsi í lífsnauðsynleg tækjakaup bókstaflega ekki neitt. En hérna á að afgreiða á einu bretti milljarða útgjöld og veit enginn hvernig þeim verður ráðstafað, enginn fyrir fram, því að stjórn þessarar stofnunar er kosin pólitískt fram og aftur og breytir um starfshætti og breytir um stefnu meira og minna, sennilega í þágu viðkomandi ríkisstj. eftir atvikum, en úthlutun er oft vafasöm, vægast sagt, þó að það sé þakkarvert út af fyrir sig að það er birt skrá um þessa úthlutun löngu síðar en hún hefur átt sér stað. Má segja að það sé jákvætt. En þar verður engu breytt. Þegar sú skrá kemur loksins fram, þá er allt um garð gengið og ekki hægt að þoka neinu til. Og það er því miður staðreynd að úthlutanir hafa borið keim af pólitískum verknaði og stundum ekki verið rökstuddar nægilega vel og þótt í lánaformi sé afhent sem hreinn styrkur í raun.

Sjálfsagt er það hlutverk þessarar stofnunar að hjálpa að halda við jafnvægi í byggð landsins, eins og allir vilja að geti átt sér stað. En það getur ekki verið rétt þróun að afhenda svona gífurlegt fjármagn úr höndum Alþ. og vita ekkert fyrir fram hvernig því er ráðstafað, ekki með nokkru móti. Og þegar svo er komið nú að tveir sjóðir eru í verulegum vandræðum og vantar hundruð millj., ef ekki stærri tölu, svo að milljörðum nemi, þ.e.a.s. ríkissjóður og Vegasjóður, þá eru hv. stuðningsflokkar ríkisstj. tilbúnir að lögfesta það að 2% af útgjöldum fjárlaga skuli renna í ákveðinn sjóð hvernig sem árar. Þetta kann að eiga eftir að koma aftur í bak seinna, eins og sagt er, þegar þarf að taka ákvörðun um að standa við vissar áætlanir sem Alþ. hefur lögfest á öðrum vettvangi.

Ég vil taka undir orð hv. 2. þm. Reykn., að ég vil fá það staðfest að 29. gr. núv. laga verði endurskoðuð eða henni breytt meira í sanngirnishorf en verið hefur. Það má bakka það, að stjórn stofnunarinnar breytti um stefnu nokkuð - ég vil segja nokkuð, en of lítið gagnvart Reykjanesi og Reykjavík, og hefur veitt fáein lán á þetta svæði. Áður var það algert bannsvæði. Þegar Alþ. úthlutar upphæðum sem nema svona stórum tölum nú getur ekkert svæði á landinu verið sett í bann lengur. Það eru alveg óhugsandi vinnubrögð. Ef atvinnuleysi er einhvers staðar, hvar sem það er á landinu, þá er það böl sem skiptir máli. Og ég geri engan mun á því hvort maðurinn suður á Reykjanesi hefur ekki atvinnu, vestur á fjörðum eða austur á fjörðum eða á Norðurlandi. Ef maðurinn þarf vinnu og getur unnið, þá á hann rétt á að fá vinnuna. Og ef það verður lögfest að þessi stofnun fái svo mikið fé til að halda uppi atvinnu eða styrkja atvinnulíf um allt land, þá vil ég fá yfirlýsingu hæstv. forsrh. gagnvart því að ekkert landssvæði, hvorki hans kjördæmi né það er við 2. þm. Reykn. berum mest fyrir brjósti, þ.e.a.s. Reykjanes, verði sett skör lægra en en önnur landssvæði. Það er ekki viðeigandi. Er hægt að nefna um það dæmi að menn hafa viljað komast yfir gamla báta, þeir sem í Reykjavík búa eða á Reykjanesi, en þeir hafa ekki átt kost á sömu fyrirgreiðslu við skipakaup og aðrir. Og það hefur verið svo erfitt að jafnvel ef tveir eða fjórir hafa viljað kaupa skip, þá hafa þeir, sem betur eru staðsettir gagnvart Framkvæmdastofnuninni, getað sagt: ég skal borga milljón meira, jafnvel tveimur millj. meira, því að ég fæ lán úr Framkvæmdastofnuninni. — En rekstraraðstaða skipsins er miklu verr sett oft á þeim stað er viðkomandi maður getur fengið lán til og það hefur oft riðið baggamuninn. Svo líður árið og svo koma menn aftur í bullandi vandræðum, neyðast til þess að selja, þeir sem hafa fengið kaupin, og þá kannske verður maðurinn, sem fékk synjun á sínum tíma, að bjarga því við. Þetta eru óheillavænleg vinnubrögð og hljóta að leiða af sér aukin vandræði.

Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. staðfesti það að ekkert kjördæmi verði sett til hliðar og það verði aukinn sá skilningur, sem stjórn stofnunarinnar hafði á sínum tíma, að líta til alls landsins, a.m.k. vægast sagt eftir atvikum, og gera mönnum kleift, hvar sem þeir búa á landinu, að hafa heilbrigðan og eðlilegan rekstur, því að það hlýtur að vera tilgangur 29. gr. að stuðla að því að lífvænlegar byggðir haldi gildi sínu hvar sem þær eru á landinu. Þetta var gömul trú, að ákveðið svæði hér á Íslandi mætti ekki fá peninga undir neinum kringumstæðum, það ætti að bjarga sér sjálft — og meira en það, það ætti að vera ágætt til skattlagningar. En þegar Alþ. tekur þá ákvörðun, ef hún verður tekin með meirihlutavaldi hér, að afhenda 2% af útgjöldum ríkissjóðs fast, þá getur ekki lengur verið réttmætt undir neinum kringumstæðum að setja ákveðið svæði skör lægra en verið hefur við framkvæmd þessara laga að undanförnu.